No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2020, þriðjudaginn 17. nóvember, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Sabine Leskopf, Marta Guðjónsdóttir, Björn Gíslason, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Egill Þór Jónsson, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Líf Magneudóttir, Pawel Bartoszek, Ragna Sigurðardóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Alexandra Briem, Skúli Helgason, Valgerður Sigurðardóttir, Vigdís Hauksdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Fundurinn var haldinn sem fjarfundur með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer óundirbúinn fyrirspurnartími.
Eyþór Laxdal Arnalds borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins beinir fyrirspurn til Lífar Magneudóttur um málefni SORPU bs.
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar beinir fyrirspurn til borgarstjóra varðandi Arnarholt.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands beinir fyrirspurn til borgarstjóra um aðgang að grímum.
Borgarfulltrúi Miðflokksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um neyðarstjórn Reykjavíkurborgar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um velferðarmál. R20080128
2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020:
Lagt er til að Reykjavíkurborg gerist aðili að Grænum hraðli sem einn af bakhjörlum verkefnisins og leggi fram 10 milljónir króna til þess, enda náist að fjármagna það í samræmi við verkefnisáætlun og gera um það sérstakan samning.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20100230
Samþykkt.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Grænn hraðall snýst um að koma nýsköpunargeiranum á Íslandi á fulla ferð í baráttunni við loftslagsvandann hérlendis og erlendis. Hér er verið að samþykkja að Reykjavíkurborg gerist aðili að Grænum hraðli sem einn af bakhjörlum verkefnisins og er það í takt við áherslur græna plansins um efnahagslega endurreisn sem samþykkt var í vor. Einnig er þetta mikilvægt atriði þegar kemur að því að uppfylla Parísarsáttmálann með því að skapa samhent átak og öflugan samstarfsvettvang milli nýsköpunarsamfélagsins, ríkis og borgar um úrlausnir í loftslagsmálum sem mun efla græna nýsköpun í landinu. Viðspyrnan vegna COVID þarf að vera græn. Grænn hraðall er viðskiptahraðall sem er ætlað að draga fram, efla og þróa tækni og aðferðir sem raunverulega leysa aðsteðjandi úrlausnarefni í loftslagsmálum með það fyrir sjónum að þátttakendur verði í lok hraðals í stakk búnir til að sækja styrki í nýsköpunarsjóð Evrópusambandsins.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú ætlar borgarstjóri og meirihlutinn að sækja fjármagn í sjóði Evrópusambandsins. Mjög táknrænt í stað þess að taka á rekstri borgarinnar og koma honum í lag. Framsögumaður málsins sagði orðrétt á fundinum að nú væri markmiðið að komast í sjóðina hjá Evrópusambandinu. Það er sama sagan – stjórnmálamenn á Íslandi sem eru vinstra megin við miðju halda að peningar vaxi á trjám. Allir þeir sjóðir sem Evrópusambandið ræður yfir eru fjármagnaðir af skattfé hins almenna borgara í ríkjum Evrópusambandsins og landa Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta er einungis tilfærsla á fjármagni með tilheyrandi kostnaði í utanumhaldi. Startkostnaður við verkefnið úr vasa útsvarsgreiðenda Reykjavíkur er 10 milljónir. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur ætíð stutt nýsköpun en ekki verður séð að þetta verkefni sé besta leiðin til að ná markmiðum Íslands í þeim málaflokki. „Græn skuldabréf, græna planið og grænn hraðall“ eru allt leiðir til að skuldsetja Reykjavíkurborg enn frekar en sem komið er en skuldir samstæðunnar eru rúmlega 400 milljarðar.
3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs COVID-19 ásamt aðgerðartillögum í stafliðum A-E:
Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið miklu tekjufalli hjá rekstraraðilum í borginni. Reykjavíkurborg getur lagt sitt af mörkum með viðspyrnuaðgerðum sem halda súrefni í rekstri fyrirtækjanna í borginni í vetur. Markmið aðgerðanna er m.a. að verja störf og útsvarsstofn borgarinnar og aðstoða borgarbúa sem eiga í vanda. Sjálfstæðisflokkurinn leggur til að borgarstjórn samþykki að farið verði í aðgerðir í fimm liðum: Frestun greiðslna fasteignagjalda í ferðaþjónustu með útgáfu skuldabréfa, borgargjöf sem ætlað er að vera viðnámsstyrkur til rekstraraðila í Reykjavík í gegnum erfiðan vetur, aðgerðir fyrir byggingariðnað til stuðnings húsnæðisuppbyggingu og byggingariðnaði í Reykjavík, að koma á ráðgjafartorgi fyrir fólk í vanda og jafnframt að tryggja að grunnskólabörn njóti matarþjónustu í skólum borgarinnar þrátt fyrir skert skólahald.
Greinargerðir fylgja aðgerðartillögunum.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi málsmeðferðartillögu:
Lagt er til að fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að meta heildarkostnað við framlagðar tillögur Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs COVID-19. Að því ferli loknu taki borgarstjórn ákvörðun um það hvernig hægt sé að ráðstafa því fjármagni til þeirra Reykvíkinga sem hafa minnst fjármagn á milli handanna og afgreiði tillöguna í samræmi við það. Til þess að örva hagkerfið er farsælast að setja fjármagn beint í hendurnar á fátæku fólki, sem ver því í hluti sem það þarf á að halda núna. Þannig má aðstoða borgarbúa sem eiga í vanda og örva efnahagslíf, verja atvinnu og auka tekjur hins opinbera. Það að veita hinum efnameiri aukin fjárráð skilar sér ekki alltaf út í hagkerfið heldur er oft varið til að greiða niður skuldir og laga eiginfjárstöðu. Tillagan er því lögð fram með það að markmiði að veita hinum efnaminni lausn frá fjárhagsáhyggjum og til þess að tryggja að fjármagnið fari til þeirra sem þurfa á því að halda. Ein tillagan í tillögupakka Sjálfstæðisflokksins er metin á 360 milljónir, þ.e.a.s. ferðagjöf upp á 3.000 krónur til allra landsmanna 18 ára og eldri sem nýta mætti í Reykjavík. Þann 24. apríl á þessu ári mátu Félagsbústaðir að það myndi kosta tæpar 310 m.kr að fella niður leigu hjá leigjendum Félagsbústaða. Hér er um sambærilega upphæð að ræða en niðurfelling leigu myndi skipta miklu fyrir tekjulága leigjendur borgarinnar. Málsmeðferðartillagan er því lögð fram til þess að meta kostnað við tillöguna og hvernig megi nýta fjármagnið sem best. R20110266
Málsmeðferðartillagan er felld með 22 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Miðflokksins gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.
Samþykkt að bera hvern lið tillögunnar upp til afgreiðslu:
A liður, frestun fasteignaskatta á fyrirtæki, er felldur með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
B liður, Borgargjöf, er felldur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn 8 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.
C liður, tillögur fyrir byggingariðnað, er felldur með 14 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins gegn 9 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins.
D liður, ráðgjafatorg fyrir fólk í vanda, er felldur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
E liður, börn njóti matarþjónustu í grunnskólum þrátt fyrir skert skólahald, er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fimm tillögur um viðspyrnu vegna COVID-19 sem liggja fyrir þessum borgarstjórnarfundi eru mikilvægar fyrir rekstraraðila í vanda og einstaklinga sem þurfa stuðning. Það er köld kveðja til þessara aðila sem send er úr ráðhúsinu í dag að heykjast á því að samþykkja þær. Meirihluti borgarstjórnar hafnar að taka jákvætt í erindi samtaka ferðaþjónustunnar um að lengja í greiðslum vegna fasteignagjalda. Neitar því að taka þátt í ferðagjöfinni með borgargjöf sem myndi styrkja rekstraraðila um meira en 300 milljónir í gegnum erfiðan vetur. Samstaða var um þetta mál á Alþingi og enginn greiddi atkvæði á móti því. Hér er brugðist öðru vísi við. Þessi meirihluti hafnar því að lækka álögur á húsnæði eins og mælt er með í samkeppnismati OECD. Hann samþykkir ekki ráðgjafatorg fyrir fólk í vanda sem þó er ljóst að þörf er fyrir. Og meirihlutinn telur óþarft að tryggja skólabörnum mat eins og lagt er til í tillögunni. Nú er þörf að styrkja og styðja við atvinnulíf og verja þannig afkomu borgarbúa á erfiðum tímum. Með því að hafna þessum tillögum er meirihlutinn að skila auðu í þeirri viðspyrnu sem nauðsynleg er.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Meirihlutinn getur ekki fallist á tillögur Sjálfstæðisflokksins þótt þær lýsi góðum hug. Sumt af því sem er að finna í tillögunum er óraunhæft, annað er ómarkvisst eða fellur ekki undir hlutverk borgarinnar og enn annað, er of kostnaðarsamt miðað við ávinning. Atriði sem lúta að velferðarsviði og þjónustu í skólum eru í fullri vinnslu og ekki verður séð að samþykkt tillagnanna bæti þar við með markverðum hætti.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista lagði fram málsmeðferðatillögu við tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem sneri að því að meta heildarkostnað við framlagðar tillögur um aðgerðir til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs COVID-19. Að því ferli loknu tæki borgarstjórn ákvörðun um það hvernig hægt væri að ráðstafa því fjármagni til þeirra Reykvíkinga sem hafa minnst fjármagn á milli handanna og afgreiði tillöguna í samræmi við það. Fulltrúi sósíalista styður að börn njóti matarþjónustu í grunnskólum þrátt fyrir skert skólahald en ítrekar hér skoðun sósíalista að grunnskólar eigi að vera gjaldfrjálsir. Ekkert barn á að þurfa að vera svangt í skólanum, eða svangt yfirhöfuð en fátækt kemur oft í veg fyrir að börn geti verið í mataráskrift og skólinn á að vera staður þar sem börn geta fengið að borða. Fulltrúi sósíalista styður einnig allt sem snýr að því að veita og efla ráðgjöf til fólks á þessum erfiðu tímum. Mikilvægt er beina fjármagninu til þeirra sem eru í vanda. Með því að setja pening í hendur þeirra sem minnst hafa er líka verið að örva hagkerfið, þetta sýna rannsóknir fram á.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að flestar þessara tillagna eru of almennar. Kallað er eftir sértækari tillögum sem miðast að því að hjálpa þeim sem eru verst settir en ekki veita peningum til þeirra sem eiga nóg af þeim. Sjálfsagt er að fresta gjalddögum og bjóða upp á greiðsludreifingar. Um borgargjöfina. Hvað hefur efnað fólk að gera með 3000 kr. gjöf úr borgarsjóði. Nær væri að skoða sértækar aðgerðir hér og aðeins þeir verst settu fengju slíka gjöf, einnig liður í að verja störf. Mörg þessara fyrirtækja sem Sjálfstæðisflokkur leggur til að fái ívilnanir eru ekki á vonarvöl og sem hafa tekið inn mikinn hagnað fram að COVID. Þeir sem byggja rað-, par-, tvíbýlis og/eða keðjuhús eru almennt verktakafyrirtæki sem mörg standa vel. Ráðgjöf: Í byrjun COVID lagði Flokkur fólksins fram tillögu um aukna ráðgjöf enda var þörf á því en var sagt að ráðgjafarmál væru í góðum farvegi. Hugmynd að netspjalli er góð en hún er nú þegar kannski komin í gagnið? Hvað varðar matarþjónustu á tímum COVID. Ekkert barn á að þurfa að vera svangt í skólanum. Til að tryggja það eiga skólamáltíðir að vera fríar eins og Flokkur fólksins hefur lagt til en ekki hlotið áheyrn meirihlutans.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:
Borgarstjórn samþykkir að fela menningar-, íþrótta og tómstundaráði og íþrótta- og tómstundasviði að útfæra breyttar reglur um frístundakort í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun á regluverki um frístundakort frá október 2020 og vísa þeim að því loknu til fjármála- og áhættustýringarsviðs til umsagnar. Tillögu sem snýr að móðurmálskennslu barna með annað móðurmál en íslensku er vísað til skóla- og frístundaráðs.
- Kl. 18.00 víkur Kristín Soffía Jónsdóttir af fundinum og Ellen Jacqueline Calmon tekur sæti. R20110267
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Tillögurnar eru afrakstur þverpólitísks og faglegs starfs. Ítarleg könnun var framkvæmd meðal foreldra í Reykjavík og óskað eftir umsögnum aðila að frístundakortinu. Lögð er til lækkun aldursmarka vegna líkamsræktarstöðva niður í 15 ár, opnun á notkun í einkakennslu í tónlist, skoðun á fjármögnun móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna, styttingu lágmarkslengdar námskeiða og komið er til móts við óskir foreldra sem ekki eru lögheimilisforeldrar um að fá aðgang að kerfinu. Lagt til að tillögurnar fari í fjárhagslega rýningu áður en endanlegar reglubreytingar verða samþykktar.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Hér fara ekki saman hljóð og mynd. Tillagan í útsendum fundargögnum er afar villandi og óskýr og engin greinargerð fylgir með henni. Fundargögn verða að vera upplýsandi svo ekki verður misskilningur eins og varð á þessum borgarstjórnarfundi meðal kjörinna fulltrúa. Borgarfulltrúi Miðflokksins gagnrýndi það í máli sínu að verið væri að vísa tillögunni til lægra setts stjórnvalds úr borgarstjórn niður í ráð. Engin mótmæli voru gerð við þá athugasemd. Svona er málunum þvælt fram og til baka í stjórnsýslunni hjá Reykjavíkurborg – úr ráðum, í starfshópa, í borgarstjórn til hópa og ráða- og málin rædd aftur og aftur á sama vettvanginum. Hér er í engu fylgt stjórnsýslulögum og sýnir best hvað þessi meirihluti er ófaglegur. Það er alveg ljóst að þessar tillögur ná ekki fram að ganga fyrr en í fyrsta lagi næsta vetur og þá á kosningaári til borgarstjórnar – takið eftir því.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista telur að frístundaheimili eigi að vera gjaldfrjáls og að móðurmálskennsla eigi að sjálfsögðu að vera fjármögnuð af sveitarfélagi eða ríki svo að foreldrar séu ekki að nota frístundakortið í það. Mikilvægt er að endurskoða uppbyggingu frístundakerfisins í heild sinni, nú fá börn og ungmenni styrk að upphæð 50.000 krónur á ári sem nýta má til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að endurskoða uppbyggingu frístundakerfisins í heild sinni þannig að tryggja megi að kostnaði fyrir þátttöku verði haldið í lágmarki. Það má skoða með því að styðja þau félög sem sjá um að bjóða upp á frístundastarf. Þátttaka og uppbygging frístundastarfs á að fara fram á félagslegum forsendum en ekki líkja eftir markaðskerfi þar sem styrkir til þátttöku eru veittir í gegnum ávísanakerfi.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Óskaplega kom lítil og rýr tillaga út úr þessum starfshópi um endurskoðun á frístundakortinu. Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur flutt margar tillögur til hækkunar frístundakorts fyrir öll börn í Reykjavík. Þær hafa allar verið felldar. Á tillögunni má ráða að frístundakortið eigi að nota til lögbundinnar móðurmálskennslu í Reykjavík. Í andsvari við tillöguflytjanda kom fyrst fram að móðurmálskennslan væri fyrir tungumál barns en ekki fyrir aukatíma í Íslensku. Vísað var í umræður í undirráði borgarinnar en borgarfulltrúi Miðflokksins gat ekki lesið annað út en að um nýja tillögu væri að ræða því það er ekki nýtt að tillögum sé breytt frá ráðum og inn í borgarstjórn. Þessi tillaga er mjög villandi. Nú er að koma framlag frá ríkinu til að leggja inn í frístundakortsútfærsluna og er það mikið fagnaðarefni fyrir efnaminni fjölskyldur í Reykjavík. En að ríkið skuli hafa þurft að koma með fjármagn inn í þetta frábæra úrræði segir sitt um rekstur Reykjavíkurborgar. Þetta átak ríkisins er einskiptis aðgerð. Lýst er yfir áhyggjum hvað tekur við hjá börnum og fjölskyldum þeirra þegar átaksverkefni ríkisins lýkur, hvað tekur við hjá þeim börnum sem fá þennan ríkisstyrk nú.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillögur stýrihóps um endurskoðun frístundakorts ganga allt of skammt. Krafa er um að námskeið verði að vera 8 vikur til að nota kortið. Lengd námskeiða er flöskuháls, lengri námskeið eru dýrari og meiri mismunur sem foreldrar greiða. Áfram á að taka réttinn til notkunar kortsins af barninu í þeim tilfellum sem foreldrar vegna fátæktar verða að nota það til að greiða gjald frístundaheimilis í stað þess að styðja foreldra sérstaklega með það. Megintilgangur kortsins er þar með fyrir bí. Segir í skýrslu stýrihópsins þessu til skýringar „að ef heimild til að borga fyrir frístundaheimili með frístundakortinu yrði afnumin er hætta á að foreldrar hefðu börnin sín eftirlitslaus heima“. Ekki er nú mikil trú meirihlutans á foreldrum. Ekki skárri eru þau rök að „það sé ekkert tryggt að allir foreldrar/forráðamenn myndu nýta styrkinn í annað frístundastarf ef ekki væri hægt að nýta á frístundaheimili.“. Að taka réttinn af barni til notkunar frístundakorts til að borga nauðsynjar eins og frístundaheimili er óafsakanlegt. Rök meirihlutans eru: „Kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að frístundakortinu að svo stöddu.“ Slök nýting í sumum hverfum er á ábyrgð meirihlutans. Stefna ætti að því að kortið verði fullnýtt í öllum hverfum.
5. Fram fer umræða um álit reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga vegna reikningsskila samstæðu Reykjavíkurborgar og Félagsbústaða hf. R19120193
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Í 90. grein ársreikningalaga segir: „Félag skv. 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. skal skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1606/2002 [sem sé félög sem hafa verðbréf skráð á markaði í EES ríki] beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum [IFRS] við samningu samstæðureiknings síns.“ Í 92. og 93 . grein ársreikningalaga eru svo tæmandi ákvæði um tiltekin félög sem heimilt er að beita IFRS. Sveitarfélög eru að sjálfsögðu ekki þeirra á meðal. Að lokum kemur fram í 93. grein ársreikningalaga að félag sem heimilt eða skylt er að beita IFRS skuli fylgja þeim að öllu leyti. Alls engum er þannig heimilt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í bland við reglur ársreikningalaga við gerð samstæðureiknings. Skv. 61. gr. skal gera samstæðureikning fyrir sveitarfélagið. Ársreikningurinn skal gerður samkvæmt lögum um ársreikninga, reglum settum samkvæmt þeim lögum og lögum þessum, sem og góðri reikningsskilavenju. Orðalag nefndarinnar um reikningsskil samstæðu Reykjavíkurborgar er skýrt: „Noti félag í eigu sveitarfélags, sem færa skal inn í B-hluta þess, skv. 60. gr. sveitarstjórnarlaga, aðrar matsaðferðir í eigin ársreikningi [svo sem matsreglur IFRS] en samstæðureikningur sveitarfélagsins byggir á, skulu unnin ný reikningsskil þar sem matsaðferðir eru í samræmi við samstæðureikning.“ Reykjavíkurborg er skylt að fylgja þessari ótvíræðu niðurstöðu reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Félagsbústöðum er beinlínis skylt að gera upp eins og gert er í dag, þar sem félagið er með skuldabréf á markaði, og tekinn af allur vafi um það í álitinu. Það segir líka skýrt í áliti nefndarinnar að Reykjavíkurborg sé heimilt að taka reikningsskil Félagsbústaða hf. óbreytt upp í samstæðureikning sinn, ef reikningsskil Félagsbústaða gera ráð fyrir sömu matsaðferð og í samstæðureikningi borgarinnar. Þetta eru atriði sem endurskoðendur og endurskoðunarnefnd borgarinnar hefur til skoðunar á hverjum tíma en þessu hefur verið nokkuð skýrt svarað. Í samræmi við 39. gr. ársreikningalaga eru fjárfestingareignir Félagsbústaða hf. færðar við gangvirði í samanteknum ársreikningi Reykjavíkurborgar. Í álitinu kemur skýrt fram að heimilt er að beita ofangreindu ákvæði. Ef einhver er í vafa um heimild sveitarfélags til að beita 39. gr. ársreikningalaga er rétt að benda á álit reikningsskilaráðs nr. 1/2020. Þar er mælt með því að færa fjárfestingareignir á gangvirði óháð því hver tilgangur með eignarhaldi eignanna er. Þá er málið í eðlilegum farvegi hjá fjármála- og áhættustýringarsviði og endurskoðunarnefnd.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Þessar fullyrðingar borgarstjóra og meirihlutans eru rangar. Félagsbústaðir eru ekki fjárfestingafélag heldur félagslegt úrræði. Álit nr. 1/2020 er mjög afgerandi hvað þessi mál varðar. Það stendur skýrt í álitinu að: „Að mati nefndarinnar er Reykjavíkurborg heimilt að taka reikningsskil Félagsbústaða hf. óbreytt upp í samstæðureikning sinn, ef reikningsskil Félagsbústaða gera ráð fyrir sömu matsaðferð og í samstæðureikningi borgarinnar. Það er ef Reykjavíkurborg metur það svo að starfsemi Félagsbústaða sé á sviði fjárfestinga í fjárfestingarfasteignum og nýtir sér þar með ákvæði 39. gr. laga um ársreikninga um að meta fasteignir félagsins til gangvirðis, með breytingar yfir rekstur.“ Eins og segir í fyrri bókun borgarfulltrúa Miðflokksins þá er Reykjavíkurborg skylt að fylgja þessari ótvíræðu niðurstöðu reikningsskila- og upplýsinganefndar sveitarfélaga.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks bentu á við afgreiðslu síðasta ársreikning að endurmat á félagslegu húsnæði Félagsbústaða bókaðist sem hagnaður upp á 4,5 milljarða á sama tíma og heildartekjur Félagsbústaða hf. voru 4,5 milljarðar króna. Munar um minna. Í ársreikningi 2019 var uppsafnaður hagnaður endurmats félagslegs húsnæðis komið í 57 milljarða króna. Væru eignir Félagsbústaða bókfærðar á kostnaðarverði eins og réttast væri að gera, væri eigið fé samstæðu Reykjavíkurborgar 57 milljörðum lægra en það birtist okkur í samstæðureikningi. Það sjá það allir sem vilja að hér er um pappírshagnað og ofmat eigna að ræða sem gefur ekki glögga mynd af rekstri borgarinnar. Þess vegna gerðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrirvara við samstæðureikninginn. Öllum er ljóst að reikningskilaaðferðum (IFRS – staðli) er beitt til að fegra afkomu samstæðureiknings borgarinnar, enda er það beinlínis lagaskylda, sbr. 45. gr. l. nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, að tryggja framboð félagslegs leiguhúsnæðis. Félagsbústaðir eru ekki fjárfestingafélag heldur félagslegt úrræði. Sjóðstreymisgreining myndi á sama hátt sýna ekkert eigið fé þar sem borga þarf ítrekað með félaginu. Þá er bent á að þessi reikningskilaaðferð er hvergi viðhöfð í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við þegar um er að ræða óhagnaðardrifið félag, sbr. Félagsbústaði hf. Þetta verður að leiðrétta.
6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að fyrirkomulag neyðarstjórnar verði endurskoðað þannig að kjörnir fulltrúar fái að sitja fundi neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum neyðarstjórnar. Við vissar aðstæður er kostur að mynda neyðarstjórn sem hefur þá heimildir til að taka ákvörðun með hraði. Slíkt fyrirkomulag er þekkt einkum þegar vá er fyrir höndum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að við slíkar aðstæður þurfi þó að tryggja lýðræðislega kjörnum fulltrúum yfirsýn yfir störf neyðarstjórnar svo að þeir geti sinnt eftirlitsskyldum sínum. Ef borgarfulltrúar fá að sitja fundi neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fá jafnframt aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem neyðarstjórn byggir ákvarðanatöku sína á þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort neyðarstjórn starfi eftir lögum og reglum. Núverandi neyðarstjórn hefur haldið yfir 60 fundi án þess að fundargerðir hafi borist minnihlutanum. Leynd hvílir yfir neyðarstjórninni, leynd gagnvart borgarráði, kjörnum fulltrúum og almenningi. Á neyðartímum er fátt verra en leynd og að halda upplýsingum frá þeim sem kosnir eru til ábyrgðar. Tímabært er að endurskoða þessa skipan og skoða trygga aðkomu kjörinna fulltrúa að neyðarstjórninni.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20030148
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Tillaga Flokks fólksins um endurskoðun á fyrirkomulagi neyðarstjórnar hefur verið felld. Rök borgarstjóra fyrir því að vilja ekki minnihlutafulltrúa í neyðarstjórn sem áheyrnarfulltrúa standast engan skoðun. Borgarstjóri segir að tillagan sé misskilningur á hlutverki neyðarstjórnunar. Misskilningur hvers? Sú tillaga sem hér var felld var nú ekki róttækari en svo að borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði aðeins til að í endurskoðun fælist að kjörnir fulltrúar sætu á fundum neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum neyðarstjórnarinnar. Neyðarstjórnin gegnir mikilvægu hlutverki og þar er unnið ómetanlegt starf. Um það er ekki deilt. Fulltrúum minnihlutans hefur verið haldið utan við ákvarðanir og fá stundum upplýsingar fyrst úr fjölmiðlum. Á það er minnt að kjörnir fulltrúar hafa ríka eftirlitsskyldu og bera ábyrgð enda er borgarstjórn fjölskipað stjórnvald. Kjörnir fulltrúar eru kosnir til áhrifa og ábyrgðar en ekki til að vera settir til hliðar og það á neyðartímum. Neyðarstjórnin er aðeins skipuð embættismönnum og borgarstjóra. Embættismenn eru ekki í umboði borgarbúa. Neyðarstjórn með kjörnum fulltrúum er í umboði borgarbúa og gæti hún verið í góðum tengslum ef hún væri skipuð í samræmi við kjörfylgi. Þá hefðu meirihluti sem og minnihluti aðild að neyðarstjórninni. Sama gildir um viðbragðsáætlun, að henni hafa minnihlutafulltrúar heldur enga aðkomu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Neyðarstjórn Reykjavíkur hefur það hlutverk að samhæfa aðgerðir og grípa til neyðarráðstafana þegar neyðarástand skapast til að forgangsraða lögbundinni þjónustu, samfélagslega mikilvægri starfsemi, tryggja almannaheill og lágmarka hugsanlegan samfélagslegan skaða. Neyðarástand getur skapast þegar öryggi og innviðum samfélagsins er ógnað, svo sem vegna náttúruvár, þegar umhverfi og heilsu er ógnað og þegar tæknivá eða annars konar hættuástand skapast. Á neyðarstigi er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum og verja grunnstoðir í þjónustu borgarinnar til að halda uppi nauðsynlegustu starfsemi. Neyðarstjórn hefur heimild til að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun í neyðartilfellum enda sé um slík tilfelli að ræða að afgreiðsla þeirra þolir enga bið. Borgarráð veitir aðrar nauðsynlegar heimildir vegna sérstakra fjárútláta og er á neyðarstigi í viðbragðsstöðu.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúi sósíalista telur eðlilegt að skoða það að veita kjörnum fulltrúum aðgang að neyðarstjórn borgarinnar sem áheyrnarfulltrúar. Sú afstaða er ekki tilkomin vegna vantrausts heldur vegna þess að fulltrúinn telur mikilvægt að stjórnin sé opin kjörnum fulltrúum, þar sem verið er að taka stórar ákvarðanir og upplýsa um stór mál.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Það fyrirkomulag að fela neyðarstjórn svo miklar valdheimildir eins og raunin er – er hreint og klárt valdaframsal og allt í boði borgarstjóra, ekki bara í Reykjavík heldur á höfuðborgarsvæðinu öllu því hann er formaður stjórnar almannavarna á svæðinu og fyrirskipaði fyrirkomulagið. Allir spila gagnrýnislaust með. Alvarlegasti hluturinn í þessu valdaframsali er sú staðreynd að neyðarstjórnin hefur tekið sér fjárveitingarvald sem er á hendi borgarráðs. Hef ég nú þegar lagt fram fyrirspurn til skriflegs svars sem hljóðar svo: „Hvað hefur miklu fjármagni verið úthlutað og ráðstafað í gegnum ákvarðanir neyðarstjórnar og í hvaða tilgangi tæmandi talið og hvaða heimildir lágu til grundvallar?“ Ég varaði við því í upphafi faraldursins að COVID yrði ekki notað sem búhnykkur fyrir rekstur borgarinnar. Því miður hefur það ræst og valdaframsalið til neyðarstjórnarinnar augljóst eins og „fundarpunktar“ neyðarstjórnarinnar bera með sér. Fundapunktarnir eru sveipaðir trúnaði og koma líklega aldrei fyrir augu almennings. Það er ekki hægt að reka sveitarfélög byggða á lögum nr. 82/2008 um almannavarnir þegar ekki ríkir neyðarástand nema brotabrot á rúmlega níu mánaða tíma sem neyðarstjórnin hefur stjórnað Reykjavík. Slíkt er brot á sveitarstjórnarlögum, stjórnsýslulögum og samþykktum Reykjavíkurborgar.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Heimilin okkar eiga að vera öruggt skjól frá áreiti hversdagsins en ekki enn einn þátturinn sem við eigum í hættu á að missa. Heimili er eitt af því mikilvægasta í lífi okkar og í þeirri fjárhagskrísu sem mörg hér í borginni standa nú frammi fyrir, verðum við að tryggja að enginn missi heimili sitt. Hlutverk borgarstjórnar snýr að því að mæta grunnþörfum borgarbúa og þar skiptir húsnæði höfuðmáli. Enginn á að þurfa að missa heimili sitt vegna efnahagskreppu. Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir því eftirfarandi aðgerðir til að tryggja að enginn missi heimili sitt vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirunnar: 1) Að veita styrk eða lán til þeirra sem geta ekki greitt leigu eða afborganir af húsnæðislánum. Sé fjárstuðningurinn til lengdar, getur borgin eignast hlut í íbúðum sem fá stuðning vegna afborgana húsnæðislána. Seinna meir geta íbúar keypt sinn hlut tilbaka, kjósi þeir það og séu í stöðu til þess. 2) Að þrýsta á ríkisstjórn að koma á greiðslustöðvun vegna afborgana húsnæðislána til fólks sem missir atvinnu eða verður fyrir tekjutapi. Afborganir af lánum verði frystar þangað til fólkið fær aftur vinnu eða er aftur komið með sambærilegar tekjur og áður. Einnig þarf að þrýsta á ríkisstjórnina að setja á bann við útburði leigjenda. 3) Að styðja kröfur verkalýðshreyfingarinnar er varðar húsnæðisöryggi á tímum kórónuveirunnar.
Greinargerð fylgir tillögunni. R20110268
Tillagan er felld með 12 atkvæðum Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar meirihlutans taka undir nauðsyn þess að enginn eigi að þurfi að glíma við heimilisleysi. Þó er ekki tekið undir að umrædd tillaga sé besta leiðin fyrir borgarstjórn til að beita sér gegn heimilisleysi. Tillagan felur í sér inngrip sem myndi gera borgarsjóð að lánardrottni og jafnframt meðeiganda í fjölda íbúða. Ljóst er að slíkt utanumhald yrði bæði flókið og kostnaðarsamt auk þess sem hún fæli í sér að farið yrði inn á verksvið ríkisins. Samkvæmt upplýsingum úr nóvemberskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar er töluverð hreyfing á húsnæðismarkaði ennþá. Umfram allt er ljóst að til að bregðast við þeim húsnæðisvanda sem uppi er, er þörf á auknu framboði hagkvæms húsnæðis, leiguhúsnæðis, þjónustuíbúða og annars félagslegs húsnæðis en það er stefnan sem borgarstjórn hefur markað sér. Sú stefna er að ganga eftir eins og kom fram á árlegri kynningu á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Reykjavík sem fór fram 30. október 2020. Þessi áform eru áréttuð enn frekar með Græna planinu, en samkvæmt því er stefnt að fjölgun íbúða í borginni um 1.000 á ári næstu 10 árin.
8. Lögð fram fundargerð borgarráðs frá 5. og 12. nóvember. R20010001
14. liður fundargerðarinnar frá 12. nóvember, viðauki við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 er borinn upp til atkvæðagreiðslu í tveimur liðum: 1 liður, Sumarborgin er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 2. liður, Heimahjúkrun – viðbótarfjármagn er samþykktur. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20010161
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember:
Græna planið lítur vel út á blaði. Það sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins og fleirum varðandi þetta græna plan er skortur á samkvæmni. Samkvæmnin er ekki meiri en svo að það á að byggja hraðbraut við væntanlegan Vetrargarð. Skipulagning hraðbrautar á þessum stað er stórfelld landníðsla, óafturkræf og getur því varla flokkast undir grænt plan. Hraðbraut sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu mun draga úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild. Borgarmeirihlutafulltrúar segjast vera náttúruunnendur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi þegar við blasir önnur betri leið sem er að láta veginn liggja um Tónahvarf í Kópavogi. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum? Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum þegar umhverfismatið var gert. Virði svæðisins er meira nú. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig skyldi hinn græni meirihluta ætla að standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?
9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 13. nóvember, mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 29. október, menningar-, íþrótta-, og tómstundaráðs frá 9. nóvember, skipulags- og samgönguráðs frá 4. og 11. nóvember og skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember. R20010285
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 29. október:
Í sameiginlegri skýrslu Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands gagnrýna félögin tillögur stýrihóps borgarinnar. Innheimta árlegra eftirlitsgjalda, án virks eftirlits er mögulega ólögmætt. Eftirlitsgjald er þjónustugjald sem óheimilt er að innheimta án þess að sinna þjónustunni. Fram kemur í skýrslu stýrihópsins að meginverkefni hundaeftirlitsins í dag felst í að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“ Þetta á ekkert skylt við eftirlit. Ekki er eðlilegt að þeir sem borga skráningargjöld af hundum sínum standi undir kostnaði við eftirlit á því hvort aðrir skrái hunda sína? Heimildir til eftirlits eru ekki ótakmarkaðar sbr. lög um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999. Af ca. 9000 hundum í Reykjavík eru 2000 skráðir. Eigendur skráðra hunda greiða skráningargjald og árlegt eftirlitsgjald og þegar hundurinn deyr er ekki hægt að afskrá hann nema framvísa vottorði hjá dýralækni sem fólk þarf að greiða fyrir. Um 20% af hundaeigendum borga 100% af eftirlitinu og er gjaldið líka hugsað til að að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur. Þarna er viðurkennt að innheimta gjaldsins er ekki þjónustugjald heldur skattheimta. Hundaeigendur eru einu dýraeigendurnir í borginni sem greiða skráningar- og eftirlitsgjöld. Hér er hvorki gætt meðalhófs né jafnræðis.
Fundi slitið kl. 22:34
Forsetar gengu frá fundargerð
Sabine Leskopf
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 17.11.2020 - prentvæn útgáfa