Borgarstjórn - 16.9.2014

Borgarstjórn

B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2014, þriðjudaginn 16. september var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.05. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Sóley Tómasdóttir, Skúli Helgason, Kristín Soffía Jónsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Björk Vilhelmsdóttir, S. Björn Blöndal, Elsa Hrafnhildur Yeoman, Halldór Auðar Svansson, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, Halldór Halldórsson, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Áslaug María Friðriksdóttir. 

Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata: 

Lagt er til að tilraunaverkefni um umboðsmann borgarbúa verði framlengt um 18 mánuði. Á þeim tíma er forsætisnefnd falið að vinna að nánari skilgreiningu fyrir starfsemi umboðsmanns og gera tillögu að endanlegri staðsetningu í stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með vísan til umfjöllunar í áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi breytingatillögu: 

Lagt er til að tilraunaverkefni um umboðsmann borgarbúa verði framlengt um 18 mánuði. Á þeim tíma er forsætisnefnd falið að vinna að nánari skilgreiningu fyrir starfsemi umboðsmanns og gera tillögu að framtíð embættisins með vísan til umfjöllunar í áfangaskýrslu umboðsmanns borgarbúa.

Samþykkt. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir fagna stofnun embættis umboðsmanns borgarbúa. Af skýrslunni má ljóst vera að mikil brotalöm er í stjórnkerfi borgarinnar varðandi hvernig upplýsingagjöf til borgarbúa, starfsmanna borgarinnar og kjörinna fulltrúa er háttað. Upplýsa þarf borgarbúa um tilvist embættisins og koma ábendingum hans með reglubundnum hætti á framfæri við borgarbúa, starfsmenn og kjörna fulltrúa. Framsókn og flugvallarvinir samþykkja tillögu um framlengingu með þeim fyrirvara að verkefnin skv. 5. gr. samþykktar um umboðsmann borgarbúa verði skilgreind nákvæmar, en skýrsla umboðsmanns borgarbúa ber með sér að verkefnin sem hann sinnir séu víðtækari en 5. gr. kveður nákvæmlega á um.

2. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Launakostnaður Reykjavíkurborgar hefur undanfarin ár verið mun hærri en áætlanir gera ráð fyrir vegna veikinda starfsmanna og álags vegna yfirvinnu og stórhátíða. Bara á velferðarsviði er líklegt að um 150 milljón króna skekkja sé vegna þessa í 6 mánaða uppgjöri sviðsins. Fleiri svið glíma við sama vanda, þannig að gera má ráð fyrir að samanlögð upphæð sé mun hærri á heildina litið. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að gera sérstakt átak til að skoða gagngert hvernig megi bregðast við, skoða hvort veikindin séu vinnutengd og þá hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á skipulagi vinnu starfsmanna.

Samþykkt.

Vísað til borgarráðs.

3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að upplýsingar um allar kostnaðargreiðslur borgarinnar verði gerðar almenningi tiltækar með rafrænum hætti á netinu. Fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar er falið að skila tillögum um hvernig staðið verði að slíku verkefni fyrir 16. nóvember næstkomandi.

Samþykkt að vísa tillögunni frá með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Tillagan er efnislega eins og tillaga sem samþykkt var á fundi borgarstjórnar þann 2. október 2012. Út frá þeirri tillögu skipaði borgarstjóri starfshóp um útfærslu og innleiðingu gagnagáttar um fjármál Reykjavíkurborgar með erindisbréfi þann 13. mars 2013. Sá hópur hefur skilað skýrslu þar sem lagðar eru fram tillögur að útfærslu og innleiðingu gagnagáttar um fjármál Reykjavíkurborgar. Sú skýrsla var kynnt á fundi stjórnkerfis- og lýðræðisráðs þann 15. september 2014. Í kjölfar þess samþykkti ráðið að fela fjármálaskrifstofu að framkvæma kostnaðarmat á opnun á hrágögn um fjármál borgarinnar annars vegar og rafrænni gagnagátt um fjármál borgarinnar hins vegar. Málið er því nú þegar í því ferli sem sú tillaga sem hér liggur fyrir kveður á um að það fari í og gott betur.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í október 2012 samþykkti borgarstjórn einróma tillögu Sjálfstæðisflokksins um að allar kostnaðargreiðslur borgarinnar yrðu gerðar almenningi tiltækar á netinu með svipuðum hætti og gert hefur verið víða erlendis. Vegna slæmrar verkstjórnar meirihluta Samfylkingar og Bjartrar framtíðar hafa tillögurnar ekki enn komist til framkvæmda. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð og leggja þunga áherslu á að tillagan komist til framkvæmda sem fyrst. 

4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að auka gagnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með því að birta gögn, sem formlega eru lögð fram á fundum nefnda og ráða borgarinnar, á netinu ásamt fundargerðum og gera þau þannig aðgengileg almenningi. Skrifstofu borgarstjórnar er falið að semja tillögu að reglum, sem tryggi að slík birting gagna byggist á málefnalegum forsendum í samræmi við stjórnsýslulög, upplýsingalög og lög um persónuvernd, fyrir 16. nóvember næstkomandi.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar stjórnkerfis- og lýðræðisráðs.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar,Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Nú þegar er í þróun innan upplýsingatæknideildar kerfi sem ætlað er að gera fundargögn aðgengilegri, í samræmi við tillögu Sjálfstæðisflokksins um að auka gagnsæi í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar og bæta upplýsingamiðlun til almennings. Stjórnkerfis- og lýðræðisráð mun fylgjast grannt með framvindu innleiðingar þess kerfis og móta stefnu í aðgengi að fundargögnum til lengri tíma.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Í nóvember 2012 lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að gagnsæi yrði aukið í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar með birtingu gagna á netinu, sem formlega eru lögð fram á fundum nefnda og ráða borgarinnar, og þau þannig gerð aðgengileg almenningi. Vegna slæmrar verkstjórnar meirihluta Samfylkingar og Bjartrar framtíðar hafa tillögurnar ekki enn komist til framkvæmda. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gera alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð og leggja þunga áherslu á að tillagan komist til framkvæmda sem fyrst. 

5. Fram fer umræða um félagslegar leiguíbúðir í Reykjavík. 

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun: 

Ljóst er að verulega skortir á að Reykjavíkurborg uppfylli skyldur sínar í húsnæðismálum gagnvart þeim íbúum sem vegna félagslegra aðstæðna eru ekki færir um að sjá sér sjálfir fyrir húsnæði. Samtals 850 manns eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði og þar af eru 550 í brýnni þörf. Sú þörf verður ekki leyst með því að Félagsbústaðir hverfi frá fyrri stefnu um aukningu um 100 íbúðir á ári og kaupi í stað þess 30 íbúðir á ári. Þá verður þörfin ekki leyst með því að Félagsbústaðir fái til úthlutunar 25% af þeim 400-800 íbúðum, þ.e. 100-200 íbúðir, sem til stendur að byggja næstu árin með svokölluðum Reykjavíkurhúsum. Reykjavíkurborg verður að setja í forgang fjölgun á félagslegum leiguíbúðum til að mæta skyldu sinni. Neyðin hefur sjaldan eða aldrei verið meiri en nú og krefst hún beinna og tafarlausra aðgerða Reykjavíkurborgar.  

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vara við því að skilgreindur verði nýr hópur leigjenda á markaði í félagslegri þörf eins og hugmyndir um svokölluð Reykjavíkurhús meirihlutans ganga út á. Mikilvægara er að forgangsraða aðgerðum þannig að félagslegu húsnæði fyrir þann hóp sem er í brýnni þörf fjölgi. Reykjavíkurborg á að tryggja að grundvöllur skapist fyrir öflugan leigumarkað þar sem einkaaðilar sjá hag sinn í því að byggja upp góðan og traustan leigumarkað í borginni. Þannig eru málefni hins almenna leigumarkaðar leyst án aðkomu borgarsjóðs með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur.

6. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 26. ágúst 2014, um breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, sbr. 25. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. ágúst 2014, en málinu var vísað til síðari umræðu á fundi borgarstjórnar 2. september sl. með vísan til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.

7. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. ágúst 2014, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. ágúst 2014, um breytingu á deiliskipulagi Kirkjutúns vegna lóðarinnar nr. 28 við Borgartún, sbr. 16. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. september sl.

Samþykkt með 9 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata gegn 6 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun:

Framsókn og flugvallarvinir harma að meirihluti borgarstjórnar virði að vettugi fjöldamargar athugasemdir sem bárust vegna breytinga á deiliskipulagi á Borgartúni 28 og 28a og vilji ekki halda upplýsinga- og samráðsfund vegna breytinganna á deiliskipulaginu áður en deiliskipulagið er afgreitt, heldur eftir að ákvörðun liggur fyrir sem gerir slíkan fund fullkomlega ómarktækan fyrir afgreiðslu þessa afmarkaða máls.  Slík vinnubrögð ganga í berhögg við fagurlega orðaðar yfirlýsingar í samstarfssáttmála meirihlutans um að hann hlusti á alls konar raddir og skapi þeim vettvang með það að markmiði að stjórnsýslan verði opnari, samræðan upplýstari, ákvarðanatakan skilvirkari og sáttin meiri.  

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

Fyrir nálægt fimm vikum lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í umhverfis- og skipulagsráði um að haldinn yrði opinn upplýsinga- og samráðsfundur með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum vegna auglýstra breytinga á deiliskipulagi á lóð nr. 28 og 28a við Borgartún. Lagt var til að deiliskipulagið yrði ekki afgreitt fyrr en að loknum þeim fundi. Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu var felld af þeim sem sitja í ráðinu fyrir hönd meirihlutaflokkanna í borgarstjórn. Deiliskipulagið var því næst lagt fram í borgarráði og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu aftur fram tillögu um samráð við borgarbúa. Deiliskipulagstillagan var síðan í frestun í borgarráði í þrjár vikur án þess að nokkuð væri unnið í málinu frekar en var svo felld 11. september. Furðu sætir að í stað þess að nýta tímann til að tala við borgarbúa er þagað þunnu hljóði og haldið áfram með umdeilt mál sem mótmælt hefur verið kröftuglega. Einföld tillaga um að borgaryfirvöld hafi samráð við borgarbúa er felld með öllum atkvæðum borgarfulltrúa meirihlutans. Allt tal sömu fulltrúa um að taka upp meira samráð við borgarbúa er ekki trúverðugt.

Borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun: 

Borgarfulltrúar Bjartrar Framtíðar, Pírata, Samfylkingar og Vinstri grænna telja að upplýsinga- og kynningarmál vegna skipulagsbreytinga í borginni þurfi stöðugrar endurskoðunar við. Staðið hefur yfir vinna síðan í sumar inni á umhverfis- og skipulagssviði sem miðar að því að bæta upplýsingagjöf til íbúa og endurgera verkferla með það að markmiði að ná til fleiri borgarbúa, fá fleiri athugasemdir og halda fleiri fundi með borgarbúum. Nýtt aðalskipulag gerir ráð fyrir þéttari borg og það er brýnt að borgarbúar hafi greiðan aðgang að öllum upplýsingum um uppbyggingu og skipulag. Þétting byggðar er vandasamt verk og það er stefna borgarfulltrúanna að sú þétting fari fram í sem mestri sátt við borgarbúa.

8. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. september 2014.

- Kl. 19.55 víkja Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir af fundinum. Greta Björg Egilsdóttir og Jóna Björg Sætran taka sæti á fundinum í þeirra stað. 

9. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 8. og 12 september, íþrótta- og tómstundaráðs frá 4. september, menningar- og ferðamálaráðs frá 8. september, skóla- og frístundaráðs frá 3. september, stjórnkerfis- og lýðræðisráðs frá 26. ágúst, umhverfis- og skipulagsráðs frá 3. og 10. september og velferðarráðs frá 4. september.

Borgarfulltrúar Framsóknar og flugvallarvina leggja fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar íþrótta- og tómstundaráðs frá 4. september sl.: 

Framsókn og flugvallarvinir leggja áherslu á hversu mikilvægt mál þetta er í þessu fjölmennasta barnahverfi borgarinnar þar sem um 20% reykvískra barna á aldrinum 0 til 20 ára búa. Aðeins er eitt íþróttahús í fullri stærð og eitt ½ íþróttahús er til staðar í hverfinu þó svo að smá íþróttahús með ¼ húsum séu við einhverja skóla með mjög takmörkuðum notkunarmöguleika og nýtast íþróttafélögunum lítillega. Drífa þarf í samninga við ríkið um þátttöku eða taka af skarið sjálf og semja um þessa framkvæmd á sama tíma og fimleikahús Fjölnis er í smíðum, en mjög svo hagstæð framkvæmd er í boði nú. Veglegt íþróttahús með tveimur löglegum handboltavöllum þannig að innri leiga með öllum rekstrarkostnaði verður um 40 milljónir á ári. Ef samið er fyrir áramót er hægt að ná þessum hagstæðu kjörum vegna samhliðaframkvæmda með fimleikahúsinu og verður húsið tilbúið janúar 2016 og fer í rekstraráætlanir það árið.

Fundi slitið kl. 20.36

Sóley Tómasdóttir

Áslaug Friðriksdóttir   Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjórn 16.9.2014 - prentvæn útgáfa