No translated content text
Borgarstjórn
B O R G A R S T J Ó R N
Ár 2021, þriðjudaginn 16. mars, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:03. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Kristín Soffía Jónsdóttir, Björn Gíslason, Eyþór Laxdal Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Katrín Atladóttir, Kolbrún Baldursdóttir, Elín Oddný Sigurðardóttir, Marta Guðjónsdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Alexandra Briem, Vigdís Hauksdóttir, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Pawel Bartoszek, Egill Þór Jónsson og Örn Þórðarson. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimildar í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Skúli Helgason og Valgerður Sigurðardóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.
Þetta gerðist:
1. Fram fer umræða um áætlun um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Einnig er lagður fram til staðfestingar 28. liður fundargerðar borgarráðs frá 4. mars 2021, breyting á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.R21030012
- Kl. 15:05 víkur Valgerður Sigurðardóttir af fundinum og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tekur þar sæti.
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Þær breytingar sem hér eru samþykktar á reglum um fjárhagsaðstoð eiga flestar rætur sínar að rekja til tillagna stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Um er að ræða byltingarkenndar breytingar á fjárhagsaðstoð Reykjavíkur sem miða að því að forgangsraða fjármunum til barna sem búa við sárafátækt. Stærsta breytingin felst í að heimildagreiðslur vegna barna verða nú þjónustugreiðslur, sem verða að sjálfkrafa rétti, til að hægt sé að veita börnum notenda fjárhagsaðstoðar grunnþjónustu svo sem allt að átta tíma dvöl á leikskóla, dvöl á frístundaheimii fimm daga vikunnar og skólamáltíðir. Hér er um að ræða nýja nálgun í reglum um fjárhagsaðstoð þar sem litið er á sjálfstæðan rétt barna til þeirrar þjónustu sem um ræðir. Einnig er tekið tillit til aðstæðna þeirra sem eru að ljúka endurhæfingu er varðar skerðingar vegna tekna fyrri mánaða, en mikilvægt er að hvati sé til staðar til að taka þátt í endurhæfingarúrræðum. Auk þessa eru gerðar ýmsar breytingar á reglum til dæmis varðandi námsaðstoð, húsbúnaðarstyrk, ábyrgðartryggingar vegna húsaleigu, greiðslur vegna sérfræðikostnaðar eru hækkaðar sem og útfararstyrkur. Borgarfulltrúarnir þakka stýrihópnum um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra fyrir hans vinnu, og öllum þeim sem komu að vinnu hópsins og endurskoðun reglnanna.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Breytingarnar fela í sér aukinn stuðning við fólk sem lifir við sárafátækt, það er skref í rétta átt. Í breytingunum á fjárhagsaðstoð er einnig lögð áhersla á aukna félagslega ráðgjöf, valdeflingu, virkni og samráð við þá sem fjárhagsaðstoðina þurfa. Það er jákvætt. Hins vegar er mikilvægt er að marka stefnu í því að hjálpa einstaklingum út úr félagslega kerfinu á kerfisbundinn hátt, með það að leiðarljósi að valdefla einstaklinga og gefa þeim kost að standa á eigin fótum. Því miður festast einstaklingar allt of oft á fjárhagsaðstoð og eru háðir kerfinu til frambúðar. Kerfið þarf að vera hvetjandi, ekki letjandi. Því er nauðsynlegt að styðja við bakið á einstaklingum á fjárhagsaðstoð aftur út í lífið með kerfisbundnum hætti. Mikil tækifæri eru í að efla vinnu og virkni fólks á fjárhagsaðstoð en það eru mikilvægir liðir í að auka lífsgæði einstaklinga.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Til að sporna gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra er nauðsynlegt að upphæðir frá Reykjavíkurborg dugi til framfærslu sem er ekki raunin núna sé litið til upphæðar fjárhagsaðstoðar. Fulltrúi sósíalista telur mikilvægt að hækka þá upphæð. Gott er að nú sé litið á greiðslur vegna dvalar á leikskóla, frístundaheimilis og kostnað skólamáltíða fyrir börn foreldra á fjárhagsaðstoð sem réttindi barnanna. Fulltrúi sósíalista telur þó mikilvægt að tryggja að öll börn fái tryggðan aðgang að skóla- og frístundastarfi borgarinnar með því að gera það gjaldfrjálst. Bent hefur verið á að börn öryrkja og einstæðra foreldra eiga á mikilli hættu að búa við sárafátækt og að staðan á húsnæðismarkaði hafi áhrif á lífskjör barna. Hér getur Reykjavíkurborg gripið inn í með miklu ríkari hætti en hún hefur gert, t.a.m. með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og víðari félagslegri húsnæðisuppbyggingu. Þó að hér sé verið að hækka frítekjumarkið hefði fulltrúi sósíalista viljað hækka það meira. Þeir sem fara á fjárhagsaðstoð vita það oftast ekki fyrirfram og fyrri tekjur því oft ekki eitthvað sem viðkomandi á eftir þegar greiðslur fjárhagsaðstoðar til framfærslu hefjast. Þakkað er fyrir ábendingar frá hagsmunaaðilum vegna breytinga á reglum um fjárhagsaðstoð, þar er margt sem þarf að bregðast við.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Margt er til bóta í þessum reglum. Flokkur fólksins fagnar því að efni tillögu flokksins um að fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að ekki þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16. A, rataði inn í reglurnar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist fyrir þessu lengi enda var þetta afar ósanngjarnt ákvæði. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá að aðalfulltrúar sem sitja í velferðarráði sem ekki sátu í stýrihópi hefðu fengið að koma að ákvörðunarborðinu við samningu á nýjum reglum. Aðrar breytingar sem hefðu verið vel þegnar lúta að skerðingum. Fulltrúi Flokks fólksins vill sjá að skerðingar séu ekki í beinum hlutföllum við þær tekjur sem umsækjendur afla sér, þ.e. hin svokallaða „króna á móti krónu skerðing“. Til að stuðla frekar að valdeflingu fólks þarf að hverfa frá þessum skerðingum. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að Reykjavíkurborg geti aukið við fjárhagsaðstoð eða dragi úr skerðingum. Greinin um framfærsluskyldu sýnir að áfram á að skerða fjárhagsaðstoð vegna tekna maka. Ekkert stendur í vegi fyrir því að Reykjavíkurborg geti afnumið tekjutengingu. Þetta er spurning um hvernig við viljum búa að okkar viðkvæmustu hópum. Markmið hjálparkerfis á að vera að valdefla einstaklinga. Kerfið þarf að vera hvetjandi, ekki letjandi.
2. Fram fer umræða um Hvassahraun sem nýtt flugvallarstæði fyrir innanlandsflug í ljósi jarðhræringa á Reykjanesskaga. R21010035
- Kl. 15:25 víkur Katrín Atladóttir af fundinum og Þórdís Pálsdóttir tekur þar sæti.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Rannsóknir fyrir nýtt flugvallarstæði í Hvassahrauni hafa staðið lengi. Í kjölfar skýrslu Rögnunefndarinnar var farið í tilraunaflug og flugvallarstæði afmarkað. Samkomulag var gert við ríkið árið 2019 um frekari rannsóknir og á sér nú stað vöktun á hita, vindi, raka, skyggni og skýjahæð auk þess sem svokölluð doppler Lidar mæling mun verða gerð, líkan gert og loftkvika kortlögð. Í samstarfi við Háskólann í Reykjavík fara nú fram mælingar í flugvél við mismunandi veðurskilyrði til samanburðar við vindsjármælingar og líkanavinnu. Athugun á náttúruvá og hugsanlegri hraunstreymishættu verður byggð á vinnu Veðurstofunnar á eldgosavá á suðvesturhorninu sem unnin er fyrir almannavarnir. Jafnframt er eðlilegt að líta til fyrra mats og svara þeirri spurningu hvort yfirstandandi atburðir breyti einhverjum forsendum þess. Vinna við fullkönnun og undirbúning Hvassahraunsflugvallar er því í fullum gangi og mikilvægt að það verkefni sé unnið áfram markvisst og faglega.
Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Skorað er á samgöngumálaráðherra að leysa upp Hvassahraunsnefndina og gefa út að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni er ekki á förum um ókomna tíð. Fjármagni ríkisins og borgarinnar er betur varið í önnur verkefni.
- Kl. 16:19 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundinum og Baldur Borgþórsson tekur sæti.
3. Lögð fram alþjóðastefna Reykjavíkurborgar til 2030, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. mars 2021. R21010287
Frestað.
4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:
Lagt er til að þeim sem hafa fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar til framfærslu standi til boða að fá frítt í strætó. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, getur numið allt að 212.694 krónum á mánuði fyrir skatt. Upphæðin er breytileg eftir búsetuformi, þar sem hún lækkar ef viðkomandi rekur ekki eigið heimili. Þar er t.a.m. átt við þá einstaklinga sem búa með öðrum, leigja húsnæði án þinglýsts leigusamnings eða hafa ekki aðgang að húsnæði. Í þeim tilfellum er grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar 179.206 krónur. Þegar litið er til upphæða fjárhagsaðstoðar er ljóst að erfitt er að láta heildarmyndina ganga upp með tilliti til framfærslukostnaðar. Fjárhagsaðstoð til framfærslu er veitt þeim sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Til að létta undir með þeim sem hafa ekki í annað að leita er lagt til að boðið verði upp á gjaldfrjálst í strætó þar sem samgöngukostnaður getur verið hár þegar einstaklingar hafa lítið á milli handanna. Sósíalistaflokkur Íslands í borgarstjórn hefur áður lagt til að upphæð fjárhagsaðstoðar verði hækkuð en slíkt hefur ekki hlotið brautargengi og því er lagt til að stuðningurinn komi til tekjulágra borgarbúa með þessum hætti. Mikilvægt er að fólk geti auðveldlega komist á milli staða og að efnahagslegar þrengingar standi ekki í vegi fyrir slíku.
Greinargerð fylgir tillögunni. R21030186
Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:
Hér var lagt til að þeim sem hafa fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar til framfærslu standi til boða að fá frítt í strætó. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar getur numið allt að 212.694 krónum á mánuði fyrir skatt. Upphæðin er breytileg eftir búsetuformi og lækkar ef viðkomandi rekur ekki eigið heimili. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig ætlast er til þess að fólk framfleyti sér á upphæðum fjárhagsaðstoðar. Möguleikarnir til þess að taka fullan þátt í samfélaginu skerðast um leið og fjármagnið er af skornum skammti. Fyrri tillögur Sósíalistaflokks Íslands um hækkun á upphæð fjárhagsaðstoðar hafa ekki verið samþykktar og því er lagt til að þeim sem hafa tekjur frá fjárhagsaðstoð borgarinnar standi til boða að sækja um gjaldfrjálsan aðgang að strætó. Í stóra samhenginu er um litla tillögu að ræða sem myndi koma til móts við samgöngukostnað þeirra með svo lágar tekjur og tryggja að fjárhagur verði ekki hindrun í að ferðast með strætó. Með því að bjóða upp á þennan stuðning er verið að koma í veg fyrir a.m.k. eina efnahagslega hindrun í lífi tekjulágra sem treysta á almenningssamgöngur. Hvað varðar gjald í almenningssamgöngur yfirhöfuð er stefna Sósíalistaflokks Íslands sú að gjaldfrjálst verði í strætó/borgarlínu og mikilvægt er að vinna að því.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Hlutverk Strætó er að flytja sem flesta farþega milli staða á þægilegan og öruggan hátt. Varasamt er að líta á Strætó sem félagslegt úrræði. Fyrr á þessum fundi samþykkti borgarstjórn almennar reglur um aukna aðstoð við notendur fjárhagsaðstoðar og fjölskyldur þeirra. Það er ekki sjálfgefið að þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð þurfi frían aðgang í strætó. T.a.m. er hugsanlegt að þeir noti aðra samgöngumáta. Í sérstökum tilfellum hefur velferðarsvið heimild til að styðja notendur fjárhagsaðstoðar til kaupa á strætókortum til að framfylgja einstaklingsáætlunum um virkni og sækja stuðningsúrræði.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Sú leið að virkja þá sem eru á fjárhagsaðstoð með því að hafa frítt í strætó myndi kosta borgina lítið enda er nýting Strætó minni en æskilegt væri. Stakt fargjald með Strætó kostar 490 krónur, en hætta er á að þeir sem eru tekjulægstir hafi ekki möguleika á að kaupa sér árskort sem veitir hagstæðasta fargjaldið. Það væri jákvætt virkniúrræði af hálfu borgarinnar að samþykkja þessa tillögu.
5. Fram fer umræða um skólabörn á biðlistum eftir fagþjónustu skóla í Reykjavík og líðan þeirra. R21030187
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú bíða 957 börn eftir fagþjónustu skóla í Reykjavík, 360 stúlkur og 597 drengir. Ganga þarf í að ná niður biðlistum, sinna þessum börnum, veita þeim þá hjálp sem verið er að kalla eftir þegar hennar er óskað. Það verður aðeins gert með því að fjölga fagfólki alla vega tímabundið. Að baki hverju barni er tilvísun undirrituð af kennara/skóla og foreldrum. Flest bíða eftir að komast til skólasálfræðings. Sá meirihluti sem hér ríkir hefur varla vitneskju um hvernig þessum börnum líður á meðan þau bíða. Í svari frá velferðarsviði kemur fram að flest mál hafna í hinum svokallaða 3. flokki en það er flokkur mála sem þolir „bið“ samkvæmt flokkunarmati skólaþjónustu. Á meðan á biðinni stendur, stundum í marga mánuði, getur mál sem flokkað er „að þoli bið“ orðið að bráðamáli. Fullvíst er að þegar mál er orðið að bráðamáli þá hefur vandinn átt sér aðdraganda, kannski kraumað á meðan á bið eftir þjónustu stendur. Þeir foreldrar sem hafa fjárráð sækja þjónustu frá sjálfstætt starfandi fagaðila. En það hafa ekki allir foreldrar efni á því. Barn sem fær ekki aðstoð við hæfi fyrr en eftir dúk og disk er í mun meiri áhættu á að grípa til örþrifaráða.
6. Umræðu um Elliðaárdalinn, tæmingu Árbæjarlóns og framtíð Árbæjarstíflu er frestað. R21030188
- Kl. 18:25 víkja Kristín Soffía Jónsdóttir og Diljá Ámundadóttir Zoëga af fundinum og Dóra Magnúsdóttir og Geir Finnsson taka sæti með fjarfundabúnaði.
7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Borgarstjórn samþykkir að fela velferðarsviði að hefja vinnu og undirbúning úttektar á fjölda og högum heimilislausra í Reykjavík í samræmi við fyrri úttektir (2009, 2012, 2017). Með úttektinni verði hægt að leggja mat á framvindu þeirrar vinnu sem nú þegar hefur verið ráðist í af hálfu borgarinnar með það að markmiði að hægt sé að mæla árangur hennar í málaflokknum. Það verði gert til að ná betur utan um heimilislausa og tryggja þeim húsaskjól.
Greinargerð fylgir tillögunni. R21030189
Samþykkt.
Vísað til meðferðar velferðarráðs.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að tillaga um úttekt á fjölda og högum heimilislausra í Reykjavík hljóti jákvæðan framgang borgarstjórnar með öllum greiddum atkvæðum. Megintilgangur nýrrar úttektar er að kalla fram yfirlit yfir núverandi stöðu heimilislausra. Þetta verði gert með það fyrir augum að öðlast betri yfirsýn yfir þá einstaklinga sem falla undir evrópsku flokkunina á heimilisleysi og húsnæðisleysi (ETHOS). Jafnframt er mikilvægt að reglulega sé lagt mat á framvindu þeirrar vinnu sem ráðist hefur verið í af hálfu borgarinnar með það að markmiði að hægt sé að mæla árangur í málaflokknum.
8. Lagt er til að Elín Oddný Sigurðardóttir taki sæti sem varamaður í forsætisnefnd í stað Lífar Magneudóttur. R18060080
Samþykkt.
9. Lagt er til að Líf Magneudóttir taki sæti í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði í stað Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur. Jafnframt er lagt til að Elín taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Lífar. R18060085
Samþykkt.
10. Lagt er til að Marta Guðjónsdóttir taki sæti í skipulags- og samgönguráði í stað Hildar Björnsdóttur. Jafnframt er lagt til að Hildur taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Mörtu. R18060086
Samþykkt.
11. Lagt til að Hildur Björnsdóttir taki sæti í skóla- og frístundaráði í stað Mörtu Guðjónsdóttur. Jafnframt er lagt til að Marta taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Hildar. R18060087
Samþykkt.
12. Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 4. og 11. mars. R21010001
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Fundargerð borgarráðs frá 11. mars; liður 24: Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hefur ákveðið að hækka laun forstjóra fyrirtækisins um 370 þúsund krónur á mánuði og eru þau nú orðin nærri 2,9 milljónir króna. Þessu mótmælir fulltrúi Flokks fólksins og krefst þess að þeir sem bera ábyrgð á þessum gjörningi hugsi til alls þess fjölda sem hefur tekjur lægri en það sem nemur hækkuninni. Rök stjórnar eru m.a. að aðrir forstjórar orkufyrirtækja séu með há laun og þessi forstjóri hafi staðið sig svo vel. Spyrja má hversu stórkostleg getur frammistaða forstjórans verið að hann beri að verðlauna með slíkri launahækkun. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum. Bókun Flokks fólksins við lið 2 í fundargerð öldungaráðs um drög að nýjum reglum borgarinnar um stuðningsþjónustu. Engin rök eru fyrir því að þegar einhver sæki um stuðningsþjónustu megi velferðarsvið skoða fjárhagsleg einkagögn hans bæði hjá skattinum og Tryggingastofnun. Stuðningsþjónustan er veitt án tillits til fjárhags og eingöngu veitt af heilsufarslegum ástæðum. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun Félags eldri borgara sem telur að ekki sé hægt að réttlæta þá kröfu að skylda umsækjanda til að heimila þjónustumiðstöðinni að afla fjárhagslegra persónulegra gagna vegna þjónustunnar þar sem hún er vegna heilsufarslegra ástæðna og er ótengd fjárhagsstöðu fólks.
13. Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 12. mars, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 25. febrúar, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 8. mars, skóla- og frístundaráðs frá 1. og 9. mars, skipulags- og samgönguráðs frá 10. mars, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 1. mars og velferðarráðs frá 26. febrúar. R21010063
- 2. liður fundargerðar forsætisnefndar; tillaga um að fella niður reglulegan fund borgarstjórnar 6. apríl 2021 er samþykkt. R21010084
- 6. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Gunnlaugs Braga Björnssonar til. 1. mars 2022 er samþykkt. R19080110
- 7. liður fundargerðar forsætisnefndar; lausnarbeiðni Rögnu Sigurðardóttur frá 31. mars 2021 til 20. desember 2021 er samþykkt. R19090098
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 8. og 9. lið fundargerðar mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs.
Fulltrúi Flokks fólksins finnst erfitt að horfa upp á hvernig fjármagni borgarbúa er stundum eins og hreinlega sóað. Ef horft er til sviðanna sker Þjónustu og nýsköpunarsvið (ÞON) sig sérstaklega úr þegar kemur að miklum fjárútlátum í hluti og sem ekki er séð að séu að skila sér beint til borgarbúa. Þetta er meira kannski eins og verið sé að uppfylla eitthvað "egó". Hér er eins og vanti alla stoppara og að stjórnendur hafi misst sjónar af ákveðnum raunveruleika. Fjármagni er streymt til einkafyrirtækja, innlendra og erlendra og hagar sviðið sér eins og það sé sjálft í einkarekstri og ætli að sigra heiminn í þessum málum. Á meðan skortir nauðsynlega sálfræðiþjónustu við börn, þjónustu við eldri borgara í heimahúsi og fátækt fer vaxandi. Fulltrúi Flokks fólksins vill að þessi fjárútlát verði skoðuð og metin af eftirlitsaðilum og kannað sérstaklega hvort fjárútlát séu farin úr böndum. Fátt af þessu sést síðan í reynd, hvar eru afurðirnar og hvernig nýtast þær fólkinu í borginni. Skoða þarf fjármál þjónustu- og nýsköpunarsviðs aftur í tímann t.d. hvað varðar ferðir embættismanna/starfsmanna þjónustu- og nýsköpunarsviðs erlendis, námskeið og annað.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:
Það er með öllu ólíðandi að kjörinn fulltrúi taki starfsfólk fyrir og kasti á það rýrð fyrir það eitt að framfylgja vilja borgarstjórnar. Smekklegra væri að fulltrúinn beindi sínum athugasemdum að þeim sem tekið hafa þær ákvarðanir sem verið er að framfylgja inni á sviðunum og sem hafa sama aðgang að opinberri umræðu og borgarfulltrúinn það er að segja að meirihluta borgarstjórnar. Ljóst er að fulltrúinn hefur mjög takmarkaða þekkingu á málaflokknum en það er engin afsökun fyrir svívirðilegri hegðun í garð starfsfólks sem leggur sig allt fram í þágu borgarbúa.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:
Þetta varðar ekki starfsfólk per se heldur hvernig haldið eru utan um fjármálin á þessu sviði. Kallað er eftir að meirihlutinn taki hér ábyrgð. Ekki er séð að verið sé að fara vel með fjármuni borgarinnar. Hvað á borgarfulltrúi minnihluta að gera þegar horft er upp á að milljarðar fara í einhver verkefni sem ekki er séð hvernig komi borgarbúum beint til góða. Minnt er á að Reykjavík er ekki einkafyrirtæki. Hér er verið að sýsla með fé fólks sem vinnur hörðum höndum og greiðir sitt útsvar. væri ekki nær að fjármagni sé veitt til barnanna í borginni frekar en milljarðar streymi til einkafyrirtækja. Hvað ætlar formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs að gera í þessu. Bara að líta í hina áttina?
Fundi slitið kl. 20:01
Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð
Pawel Bartoszek
Örn Þórðarson Hjálmar Sveinsson
PDF útgáfa fundargerðar
Borgarstjorn 16.3.2021 - prentvæn útgáfa