Borgarráð - Fundur nr. 5786

Borgarráð

Ár 2025, fimmtudaginn 3. júlí, var haldinn aukafundur borgarráðs nr. 5786. Fundurinn var fjarfundur og hófst kl. 10:00. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Líf Magneudóttir, Alexandra Briem, Einar Þorsteinsson, Hildur Björnsdóttir, Kjartan Magnússon, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Skúli Helgason. Einnig sátu fundinn með rafrænum hætti áheyrnarfulltrúarnir Helga Þórðardóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn með rafrænum hætti: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Ívar Vincent Smárason.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf borgarritara, dags. 1. júlí 2025, varðandi áhættumat á flöggun á fána Palestínu við stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar, ásamt fylgiskjölum.

    -    Kl. 10:04 tekur borgarstjóri sæti á fundinum með rafrænum hætti. MSS25010048

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Samstarfsflokkarnir lögðu fram breytingatillögu á síðasta borgarráðsfundi við eldri tillögu um að draga fána Palestínu að húni við Ráðhúsið. Breytingatillagan felur í sér að setja skýrari reglur um notkun fána við stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar. Tillagan var samþykkt og óskað eftir að trúnaður myndi ríkja á meðan unnið væri að undirbúningi framkvæmdar. Samstarfsflokkarnir eru stoltir af þessari ákvörðun, sem tekin er af yfirvegun og með góðum undirbúningi.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Meðferð borgarráðs á tillögum um að draga fána Palestínu að húni við Ráðhús Reykjavíkur er óviðunandi með öllu. Slík vinnubrögð leiða í ljós afar slaka stjórnun ráðsins. Í útsendu fundarboði dags. 24. júní var dagskrá vegna fundar borgarráðs 26. júní. Á dagskránni voru þrjár tillögur vegna fána Palestínu við Ráðhúsið undir liðum 59-61 og var kveðið á um að þær væru til afgreiðslu á fundinum. Umræddir liðir voru ekki trúnaðarmerktir. Áðurnefndar tillögur voru teknar til afgreiðslu í lok borgarráðsfundar 26. júní og samþykkt með atkvæðum meirihlutans að draga umræddan fána að húni við Ráðhúsið. Ekki var óskað eftir trúnaði um afgreiðsluna enda augljóst að trúnaður um slíkt mál er óviðeigandi. Að lokinni afgreiðslu málsins virtust fulltrúar meirihluta borgarráðs fá bakþanka vegna hennar. Drógu þeir nýsamþykkta tillögu sína ekki til baka en fóru hins vegar fram á að trúnaður skyldi ríkja um afgreiðsluna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæltu þessari málsmeðferð enda stenst enga skoðun að krefjast trúnaðar um slíka afgreiðslu á opinberri tillögu eftir á. Umrædd tillaga hafði lengi legið fyrir, hún var á opinberri dagskrá fundarins og afgreiðsla hennar var sömuleiðis opinber. Á fundinum voru umræddar tillögur afgreiddar undir liðum 66-68 og kröfðust fulltrúar meirihlutans þess eftir á að afgreiðsla og bókanir undir þeim yrðu færðar í trúnaðarbók þótt engar málefnalegar ástæður væru fyrir slíkri leynd.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Framsóknar furðar sig á þessari málsmeðferð vinstri samstarfsflokkanna. Betur færi á því að vinna reglur um flöggun fána áður en þessi ákvörðun er tekin enda fordæmalaust að erlendum fána sé flaggað við Ráðhúsið án þess að full samstaða ríki um slíka ákvörðun á meðal allra flokka. Framsókn gagnrýnir harðlega að ekki hafi verið unnið áhættumat varðandi þessa ákvörðun áður en hún var tekin.

    Áheyrnarfulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Borgarfulltrúi Viðreisnar furðar sig á óðagotinu sem hlaupið er í vinstri samstarfsflokkana sem nú mynda meirihluta í borginni. Kallað er til aukafundar vegna máls sem fyrst kom inn á borð borgarráðs 16. nóvember 2023 og síðan aftur í desember 2024 og samstarfsflokkarnir koma nú með breytingatillögu 26. júní í miðjum sumarleyfum. Borgarfulltrúi Viðreisnar furðar sig á hamaganginum og óðagotinu sem hlaupið er í vinstri samstarfsflokkana sem kalla til aukafundar vegna máls sem er alls ekki í neinni tímapressu og gæti vel beðið í viku eftir næsta borgarráðsfundi sem áætlaður er þann 10. júlí. Vinnubrögð af þessu tagi endurspegla vel spennustigið sem nú er á vinstri væng stjórnmálanna. Að því sögðu finnst borgarfulltrúa Viðreisnar full ástæða til þess að forsætisnefnd verði falið að endurskoða reglur um notkun fána við stjórnsýsluhús borgarinnar og að sett verði skýr viðmið um hversu lengi fánar skulu blakta.

  2. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um fána Palestínu við Ráðhúsið, ásamt breytingatillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem samþykkt var svo breytt á fundi borgarráðs þann 26. júní 2025 og færð í trúnaðarbók:

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins lögðu fram svohljóðandi breytingatillögu:

    Lagt er til að fáni Palestínu verði dreginn að húni við Ráðhús Reykjavíkur til að sýna samstöðu með palestínsku þjóðinni. Fánanum verði flaggað við hlið úkraínska fánans. Í kjölfarið verði forsætisnefnd falið að endurskoða reglur um notkun fána við stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar. Markmið endurskoðunarinnar er tvíþætt; annars vegar að setja skýr viðmið um hversu lengi fánar skuli blakta við stjórnsýsluhús í kjölfar ákvörðunar um að flagga þeim. Hins vegar að tryggja að auðveldara sé fyrir kjörna fulltrúa að sýna þjóðum og íbúum samstöðu þegar við á. Forsætisnefnd verði falið að leita til viðburðastjórnar í þessari vinnu og leggja fram uppfærðar reglur.

    Greinargerð fylgdi breytingatillögunni.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram frestunartillögu á breytingatillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins.
    Frestunartillagan var felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram frávísunartillögu á breytingatillögu borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins. 
    Frávísunartillagan var felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins.

    Breytingatillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Kjartans Magnússonar.
    Hildur Björnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins.

    Tillagan var samþykkt svo breytt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn atkvæði borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Kjartans Magnússonar.
    Hildur Björnsdóttir, borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins sátu hjá við afgreiðslu málsins. MSS23110111

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja óábyrgt af meirihluta borgarstjórnar að taka afstöðu í viðkvæmum deilum erlendra ríkja ekki síst með hliðsjón af vaxandi stigmögnun á sviði alþjóðamála. Ítreka fulltrúarnir fyrirliggjandi tillögu sína um að Reykjavíkurborg dragi friðarfána að húni við Ráðhús Reykjavíkur alla daga ársins svo undirstrika megi að höfuðborgin er yfirlýst friðarborg. Friðarfáninn endurspegli þá afstöðu Reykjavíkurborgar að standa ávallt með friði og að samúð borgaryfirvalda sé ávallt hjá fórnarlömbum í stríði, en þá afstöðu þurfi ekki að sýna með því að draga erlenda þjóðfána að húni.

    Borgarráðsfulltrúi Framsóknarflokksins lagði fram svohljóðandi bókun:

    Framsókn telur ekki rétt að flagga fánum einstakra þjóða nema fyrir liggi einróma samstaða allra flokka í borgarstjórn. Svo er ekki í þessu tilviki eins og þegar borgarstjórn ákvað einróma að flagga úkraínska fánanum. Deilan á milli Ísraels og Palestínu er hræðileg og hefur kallað miklar hörmungar yfir saklausa íbúa í Palestínu sérstaklega, en líka í Ísrael. Reykjavík er friðarborg og rekur friðarsetrið Höfða og heldur ráðstefnu um friðarmál árlega. Hér er einnig friðarsúla sem tendruð er árlega. Framsókn telur viðeigandi að flagga frekar hvítum friðarfána til stuðnings við saklaus fórnarlömb stríðsátaka um allan heim. Framsókn minnir á að þann 21. desember 2023 samþykkti borgarráð einróma tillögu um að draga að húni hvítan friðarfána á Þorláksmessu og láta hann blakta í heilan mánuð. Framsókn styður því frekar tillögu Sjálfstæðismanna sem er sama eðlis, en sú breyting gerð að fáninn blakti alla daga ársins.

  3. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um tillögu um fána Palestínu sem vísað var frá á fundi borgarráðs þann 26. júní 2025 og færð í trúnaðarbók. MSS23110111

  4. Lögð fram að nýju tillaga borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um afgreiðslu á tillögu um fána Palestínu sem vísað var frá á fundi borgarráðs þann 26. júní 2025 og færð í trúnaðarbók. MSS23110111

Fundi slitið kl. 10:47

Líf Magneudóttir Alexandra Briem

Einar Þorsteinsson Hildur Björnsdóttir

Kjartan Magnússon Sanna Magdalena Mörtudottir

Skúli Helgason

PDF útgáfa fundargerðar
Aukafundur borgarráðs 3. júlí 2025 - prentvæn útgáfa