Borgarráð - Fundur nr. 5762

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 14. nóvember, var haldinn 5762. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Dagur B. Eggertsson, Andrea Helgadóttir,  Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Dóra Björt Guðjónsdóttir og Magnea Gná Jóhannsdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram, Hulda Hólmkelsdóttir og Þorsteinn Gunnarsson. Björg Magnúsdóttir tók sæti á fundinum með rafrænum hætti.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 13. nóvember 2024, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 1.190 m.kr. í verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 44 1 á ávöxtunarkröfunni 3,75% en það eru 1.200 m.kr. að markaðsvirði. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 13. nóvember 2024.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið ásamt Bjarka Rafni Eiríkssyni sem tekur sæti með rafrænum hætti. FAS24010012

    Fylgigögn

  2. Lagðar fram tillögur borgarstjóra, dags. 11. nóvember 2024, að viðaukum við fjárhagsáætlun 2024. Greinargerðir fylgja tillögunum.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins gerir athugasemd við einn lið í þessum viðauka og hann snýr að Jafnlaunastofu. Lagt er til að fjárheimildir mannauðs- og starfsumhverfissviðs hækki um 3.000 þ.kr. vegna vanáætlunar í launa- og rekstrarkostnaði. Kostnaðaraukinn verði fjármagnaður. Segir í gögnum að við gerð fjárhagsáætlunar Jafnlaunastofu fyrir árið 2024 væri launagrunnur rangur og er því óskað eftir að hann verði leiðréttur, en hann er vanfjármagnaður um 2 milljónir. Flokkur fólksins hefur áður bókað um að leggja ætti niður Jafnlaunastofu en um er að ræða dýra einingu miðað við stærð. Jafnlaunastofa var ein af þeim einingum sem spratt upp á síðasta kjörtímabili með tilheyrandi kostnaði. Þar er einn starfsmaður á vegum borgarinnar en Jafnlaunastofa er sameignarfélag í eigu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Réttast væri að fella þess einingu undir t.d. félagsþjónustu Reykjavíkurborgar. Slík breyting myndi leiða til sparnaðar.

    -    Kl. 9:20 tekur Magnea Gná Jóhannsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. FAS24010023

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á leikskólalíkaninu Snorra.

    Halldóra Káradóttir, Helgi Grímsson, Frans Páll Sigurðsson, Erik Tryggvi Striz Bjarnason, Bryndís Sverrisdóttir og Ólafur Brynjar Bjarkason taka sæti á fundinum undir þessum lið. Einnig taka sæti með rafrænum hætti borgarfulltrúarnir Alexandra Briem og Skúli Helgason.

    -    Kl. 9:35 tekur Dóra Björt Guðjónsdóttir sæti á fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. FAS22010018

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Nýtt leikskólalíkan er afrakstur mikillar og góðrar vinnu starfsfólks borgarinnar og stór áfangi í því að bæta fjármálastjórn og gegnsæi í rekstrinum. Með líkaninu eykst til muna yfirsýn og fyrirsjáanleiki og auðveldar þannig stjórnendum leikskólanna að sinna sínu hlutverki. Rekstrarlíkanið er enn annar liður í vegferð núverandi meirihluta að tryggja hagkvæman og góðan rekstur Reykjavíkurborgar.

  4. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 7. október 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 2. október 2024 á framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd 2024-2027, ásamt fylgiskjölum. Einnig lögð fram umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. nóvember 2024.
    Vísað til borgarstjórnar.

    Halldóra Káradóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið auk Rannveigar Einarsdóttur  og Elísu Ragnheiði Ingólfsdóttur sem taka sæti á fundinum með rafrænum hætti. VEL23060034

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar í barnavernd 2024-2027 er mjög falleg áætlun og þar er framtíðarsýnin mikil og sóknaráætlun er jákvæð. Flokkur fólksins er sannarlega sammála því að Barnavernd Reykjavíkur vinnur gott og farsælt starf í barnaverndarmálum. Fulltrúi Flokks fólksins saknar hins vegar að bent sé á þær áskoranir sem Barnavernd Reykjavíkur stendur frammi fyrir eins og hvernig mætti bæta þjónustuna og hvort fjölga eigi meðferðarúrræðum sem er mikil þörf fyrir. Í framkvæmdaáætluninni er ekkert minnst á aukinn fjölda tilkynninga til Barnaverndar og að það sárvantar stuðnings- og fósturfjölskyldur. Það er gott að heyra að lausn sé í sjónmáli á nýju húsnæði fyrir Mánaberg og að um þessar áskoranir verði fjallað í ársskýrslu Barnaverndar Reykjavíkur.

    Fylgigögn

  5. Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 11. nóvember 2024, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 8. nóvember 2024 á hækkun grunnfjárhæða fjárhagsaðstoðar til framfærslu, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Rannveig Einarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. VEL24110004

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Upphæðir fjárhagsaðstoðar þurfa að duga til að lifa mannsæmandi lífi. Líkt og kemur fram í reglum um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar er skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Grunnupphæð fjárhagsaðstoðar miðast nú við 247.572 krónur á mánuði fyrir skatt frá og með 1. janúar 2025 fyrir manneskju sem rekur eigið heimili og getur sýnt fram á það t.a.m. með því að leggja fram þinglýstan húsaleigusamning. Upphæðirnar eru breytilegar t.a.m. út frá húsnæðisstöðu og sambúðarformi. Augljóst er að um er að ræða mjög lága upphæð og ekki er hægt að sjá hvernig ætlast er til þess að fólk komist í gegnum dagana á þessum lágu upphæðum. Sósíalistar hafa margsinnis lagt fram tillögur um hækkun fjárhagsaðstoðar og þær tillögur hafa ekki náð fram að ganga.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Meirihlutinn hefur lagt til að fjárhæðir fjárhagsaðstoðar verði hækkaðar um 3,2%. Grunnfjárhæð fyrir einstakling sem rekur eigið heimili hækkar úr 239.895 kr. í 247.572 kr. á mánuði. Flokkur fólksins telur þetta vera smánarlega litla hækkun sérstaklega í ljósi mikillar dýrtíðar og hefur matarkarfan hækkað gríðarlega. Fulltrúi Flokks fólksins telur að við ákvörðun um árlega uppfærslu fjárhagsaðstoðar verði að hafa í huga að þeir sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda lifa við fátækt og jafnvel sárafátækt. Því miður hefur fátækt aukist í Reykjavík og einnig almennur ójöfnuður. Við fjárhagsáætlun fyrir árið 2024 lagði Flokkur fólksins til hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og ætti hækkunin að miða við prósentuhækkun matarkörfunnar. Þá lagði Flokkur fólksins til að grunnfjárhæð fyrir einstakling hækki úr 228.689 kr. á mánuði í 257.046 kr. Það sorglega er að grunnfjárhæðin sem nú er lögð til er langt undir þeirri fjárhæð. Þá vill fulltrúi Flokks fólksins vekja athygli á því að upphæð fjárhagsaðstoðar í Reykjavík á árinu 2024 samanborið við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu var sú næst lægsta, eingöngu Mosfellsbær var með lægri upphæð.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki húsaleigusamning um húsnæði að Haðalandi 26, við Fossvogsskóla, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24100047

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að taka á leigu 637 fermetra af húsaeiningum og greiða fyrir það 3.455.385 krónur á mánuði. Leigutakinn greiðir öll gjöld. Þetta hlýtur að teljast há leiga og myndi maður halda að borgin væri í stöðu til að ná hagstæðari samningum.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki að rifta samkomulagi við seljanda á kaupum á 89 bílastæðum undir Geirsgötu, Austurbakka 2, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Óli Jón Hertervig tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010036

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. nóvember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 6. nóvember 2024 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir athafnasvæði á Hólmsheiði, áfanga 2, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SN210147

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Hér er verið að brjóta land undir iðnaðarhúsnæði og atvinnustarfsemi í tiltölulega ungu skóglendi með mikla getu til áframhaldandi kolefnisbindingar. Kveða þarf mun fastar að orði um vernd gróðurs á svæðinu, með tilliti til stærðar og eðlis uppbyggingarreitanna. Mikið vantar upp á að yfirsýn sé yfir trjáfellingar í borgarlandinu vegna byggingarframkvæmda og áhrif þess á umhverfismarkmið borgarinnar. Reykjavíkurborg þarf að gera grein fyrir því í sínu kolefnisbókhaldi hve mikið skógarhögg er framkvæmt árlega vegna byggingarframkvæmda, þar sem þó er tekið tillit til aldurs trjánna svo fram komi hversu mikið tapast af mögulegri bindingu við trjáfellingar.

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út endurnýjun á vallarlýsingu á gervigrasvelli Víkings í Safamýri. Kostnaðaráætlun 2 er 80 m.kr.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK24110087

    Fylgigögn

  10. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna viðgerða á húsnæði leikskólans Árborgar, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK24110082

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að til stendur að fjölga leikskólaplássum í Árbæ. Hins vegar hafa viðgerðir og framkvæmdir við skólann dregist allt of lengi og tilefni til að skoða hvað megi betur fara í þeim efnum. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa hvatt til þess að núverandi bráðabirgðaleikskólalóð verði bætt til muna eða leiða leitað til að gera hana ásættanlegri þar sem enn er langur tími þar til Árborg opnar á ný.

    Fylgigögn

  11. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna viðgerða og endurbóta í áfanga 4 í Hólabrekkuskóla, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK24110096

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar við Grjótháls 2, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Oddrún Helga Oddsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24110047

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á sínum tíma úthlutaði borgin lóðum til olíufélaga fyrir eldsneytissölu. Þegar sú starfsemi minnkaði, á síðustu árum, gátu þessi félög selt byggingarrétt á þessum lóðum fyrir háar upphæðir og það með samþykki borgarinnar. Vonandi verður girt fyrir slíkt í núverandi og framtíðar úthlutunum. Svo virðist sem eitthvað sé tekið á þessu í þessum samningi. sbr. það sem segir í gögnum: „Ef samþykkt verður breyting á deiliskipulagi að ósk lóðarhafa, sem felur í sér aukinn byggingarrétt á lóð eða breytta húsagerð (t.d. úr atvinnuhúsnæði í íbúðarhúsnæði), áskilur Reykjavíkurborg sér rétt til að endurskoða söluverð byggingarréttar á viðkomandi lóð, og/eða að innheimta greiðslu fyrir aukinn byggingarrétt á grundvelli útboðsverðs, eða með hliðsjón af söluverði sambærilegs byggingarréttar á nálægum lóðum“. Samkvæmt þessu hefur meirihlutinn mögulega eitthvað lært af fyrri mistökum.

    Fylgigögn

  13. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 11. nóvember 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki auglýsingu vegna sölu byggingarréttar fyrir fjölnotahús á Veðurstofuhæð, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Óli Örn Eiríksson og Hulda Hallgrímsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24110057

    Fylgigögn

  14. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 11. nóvember 2024, vegna tilnefningar fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Listahátíðar í Reykjavík. MSS24110016
     

    Fylgigögn

  15. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 11. nóvember 2024, varðandi fyrirhugaða ferð forseta borgarstjórnar til Barcelona dagana 18.-21. nóvember nk., ásamt fylgiskjölum. MSS24110059

    Fylgigögn

  16. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. nóvember 24, varðandi fyrirhugaða ferð formanns borgarráðs á COP29 í Baku í Aserbaísjan dagana 17.-20. nóvember nk., ásamt fylgiskjölum. MSS24110067

    Fylgigögn

  17. Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 17. október 2024, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hljóðvist á vinnustöðum Reykjavíkurborgar, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 19. september 2024. MSS24090104

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskaði upplýsinga um stöðu hljóðvistar á vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Hvernig er eftirliti háttað, hversu oft eru þessi mál skoðuð og hvernig? Hvernig er dregið úr hávaða á hávaðasömum vinnustöðum eins og í skrifstofurýmum og skólum? Hefur verið gerð úttekt á hljóðvist eftir að opin rými komu til sögunnar? Í svari er margt sagt sem gert er til að draga úr hávaða og segir að það sé á ábyrgð hvers og eins starfsstaðar að meta hljóðvist hjá sér og ráðast í úrbætur ef þurfa þykir. En það er kannski ekki alltaf starfsstaðurinn sem tekur ákvörðun um stærð og uppbyggingu rýma. Opin rými eru mun erfiðari viðfangs en minni og lokaðri rými. Margir sem vinna í opnum rýmum finna vel fyrir miklum hávaða, en kannski er lítið við því að gera því rýmið er stórt og mannmargt. Þegar litið er yfir kvartanir sem borist hafa má leiða líkum að því að opin rými í þeirri mynd sem þau eru voru ekki sniðug hugmynd.

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 7. nóvember 2024. MSS24010035

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð endurskoðunarnefndar frá 4. nóvember 2024. MSS24010003

    Fylgigögn

  20. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 6. nóvember 2024. MSS24010010

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Tekið er undir bókun íbúaráðs um hættulega þrengingu til móts við Jaðarsel við framkvæmdasvæði Arnarnesvegar og á brúnni við Höfðabakka yfir Elliðaárnar milli Neðra-Breiðholts og Árbæjar. Þrengingarnar eru illa merktar og við þrengingu á Breiðholtsbraut er ekki einu sinn merkt hvoru megin við strjálar vegstikur á að aka. Þrengingarnar eru líka of miklar, þarna er hættulega þröngt fyrir bíla að mætast mitt í öllu byggingarkraðakinu beggja vegna.

    Fylgigögn

  21. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 4. nóvember 2024. MSS24010012

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Víðtæk mótmæli og óánægja er með þær hugmyndir sem borgarstjóri hefur kynnt um uppbyggingu í Grafarvogi. Það mátti sjá á íbúafundi sem haldinn var í Rimaskóla 12. nóvember sl. Annar eins fjöldi fólks hefur varla sést áður á fundi af þessu tagi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur sagt að ekki gengur að fara fram með offorsi í svona máli. Byrja þarf með autt blað, byrja á að kalla eftir hugmyndum frá fólkinu í hverfinu, hvar það sér að vænlegt sé að þétta. Vinna þarf í kringum hugmyndir fólksins, þá sem þekkja hverfið en ekki ana af stað með einhverjar tillögur. Við allar breytingar á skipulagi Grafarvogs þarf að taka ríkt tillit til staðaranda hverfisins og með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Grænu svæðin, sem mörg hver eru rótgróin, eru ein helsta ástæða þess að fólk hefur valið hverfið til búsetu. Ljóst er að margir þeir þéttingarreitir sem borgarstjóri hefur kynnt að sé til skoðunar í Grafarvogi að byggja á ganga gegn þessum sjónarmiðum og koma því ekki til greina eins og segir í bókun sem fram kemur í fundargerð íbúaráðs. Mörg hundruð athugasemdir hafa borist borgaryfirvöldum vegna fyrirhugaðra breytinga á grænum svæðum í hverfinu og á fjórða þúsund hafa skrifað undir mótmælalista við áformin.

    Fylgigögn

  22. Lögð fram fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 25 september 2024. MSS24010027

    Fylgigögn

  23. Lagðar fram fundargerðir stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 26. ágúst og 30. september 2024. MSS24010029

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Borgarráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vekur athygli Borgarráðs á því að samstjórnarmenn borgarráðsfulltrúans í Orkuveitunni hafi nú tvívegis fellt tillögu þess efnis að afhenda eigendum fyrirtækisins skýrslu Innri endurskoðunar um alvarleg brot á eigendastefnu Orkuveitunnar. Í fyrra skiptið sem slík tillaga var felld var það meðal annars undir þeim formerkjum að stjórnin ætlaði sér að óska eftir minnisblaði frá Innri endurskoðun um skýrsluna og í sárabætur birta minnisblaðið eigendum Minnisblaðið var unnið og sent stjórninni en eftir lestur minnisblaðsins ákváðu sömu stjórnarmenn Orkuveitunnar og kölluðu eftir minnisblaðinu að best væri að halda því líka huldu fyrir eigendum. Því er mjög skýrt að þegar stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fær val um að upplýsa eigendur um aðfinnslur í stjórnarháttum og upplýsingamiðlun eða ekki, velur stjórnin að sópa óþægilegum skýrslum og minnisblöðum undir teppið. Slík vinnubrögð eru augljóslega ekki í anda eigendastefnu Orkuveitu Reykjavíkur en sannarlega í takt við vinnubrögðin sem leiddu til þess að Innri endurskoðun þurfti að gera skýrslu til að byrja með. Þögn borgarfulltrúa meirihlutans gagnvart þeirri staðreynd að þeir sem sitja í þeirra umboði séu með markvissum hætti að halda frá þeim jafn alvarlegri skýrslu og þessari valda undirritaðri áhyggjum. Með þögninni senda þeir skýr skilaboð um að þeim þyki þessi vinnubrögð ásættanleg.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Eftir því er tekið að bjóða eigi viðskiptavinum Orkuveitunnar hleðsluáskrift hvar sem er á landinu. Hér virðist vera um útþenslustefnu að ræða á markaði sem hlýtur að vera af hinu góða. Annað sem tekið er eftir er að óskað er eftir upplýsingum um stöðu rannsóknar- og þróunarvinnu innan Orkuveitu Reykjavíkur á virkjunarmöguleikum sjávarfalla á Íslandi. Óska á eftir hver staðan sé á kortlagningu virkjanakosta og hvaða kostir komi helst til greina. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því fyrir sér hvort Orkuveita Reykjavíkur eigi að verja fjármunum í þetta. Orkuveita Reykjavíkur hefur sérfræðiþekkingu á orkuöflun úr jarðhitakerfum en sjávarföll eru varla á sérsviði Orkuveitu Reykjavíkur. Hér er um rándýrar grunnrannsóknir að ræða sem Orkuveita Reykjavíkur gæti komið að á seinni stigum.

    Fylgigögn

  24. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 13. nóvember 2024.
    7. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 19., 20. og 21. lið fundargerðarinnar:

    19. liður: Fulltrúa Flokks fólksins bárust athugasemdir eftir íbúafund í Grafarvogi 7. október sl. þar sem kynnt voru byggingaráform í Grafarvogi. Sýning á byggingaráformum sem sett var upp á staðnum var rifin niður án nokkurs samráðs við íbúa daginn eftir fundinn. Sumir áttu eftir að kynna sér efni hennar. Þetta er óásættanleg framkoma af hálfu borgarinnar. Sjálfsagt er að upplýsa íbúa um svona lagað, það er hluti af því sem kallað er samráð og almenn samskipti – kurteisi. 20. liður, Flokkur fólksins óskaði upplýsinga um hvar Sundabraut á nákvæmlega að liggja. Stýrihópur er að störfum sem ekkert heyrist frá. Á meðan lega er ekki ákvörðuð situr margt annað fast. Liður 21, Flokkur fólksins spurði af hverju kynningum á 2. áfanga Gufuness er frestað. Afsakanir eru á þá leið að skipulagsvinna standi yfir en hún sé flókin m.a. vegna þess að það skortir greiningu á þörfum framleiðslufyrirtækja í kvikmyndagerð. Þarna er á ferðinni óvissa og tengslaleysi við íbúa á svæðinu. Samráð er hunsað. Einnig var spurt um bráðbirgðaaðkomuveg sem virðist einhver einkavegur en því er svarað til að vegurinn eigi að bæta aðgengi að allri starfsemi á svæðinu sem er auðvitað fráleitt.

    Fylgigögn

  25. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 14 mál (MSS24110064, MSS24010024, MSS24010022, MSS24060032, MSS24110028, MSS24100050, MSS23080113, MSS23110103, MSS24010052, MSS24110043, MSS24110041, MSS24110046, MSS24110038, MSS24110037). MSS24100147

    Fylgigögn

  26. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. MSS24110012

    Fylgigögn

  27. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. nóvember 2024, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 05:00 aðfaranótt 16. nóvember nk. fyrir veitingastaðinn Minigarðinn, Skútuvogi 2, vegna beinnar útsendingar á boxbardaga í Bandaríkjunum. Óskað er eftir að borgarráð samþykki að veita jákvæða umsögn um tímabundið áfengisleyfi með vísan til 2. mgr. 17. gr. l. nr. 85/2007, til kl. 05:00 til Minigarðsins aðfaranótt laugardagsins 16. nóvember nk. Jákvæð umsögn borgarráðs er háð því að aðrar lögbundnar umsagnir séu einnig jákvæðar.
    Samþykkt. MSS24110069

    Fylgigögn

  28. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja til að Reykjavíkurborg endurskoði fyrirkomulag eftirlits með leikskólaþjónustu og daggæslu í Reykjavík. Við þá vinnu verði öryggi og bestu hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi. Þó vissulega sé langalgengast að þeir sem reki daggæslu eða leikskóla í borginni geri það af metnaði og umhyggju, þá hafa komið upp tilvik gegnum árin þar sem aðstæðum ómálga barna reynist ábótavant. Börn verða ávallt að njóta vafans, öryggi þeirra og vellíðan þarf ávallt að vera í forgrunni og þeim þarf að tryggja bestu mögulegu skilyrði. Leggja fulltrúarnir því til endurskoðun á fyrirkomulagi eftirlitsheimsókna en mikilvægt er að hluti þeirra sé fyrirvaralaus, ekki síst á þá starfsstaði sem reka ungbarnadeildir eða daggæslu fyrir ungbörn. Jafnframt þarf að tryggja gott samstarf, ráðgjöf og stuðning við þá aðila sem reka þessa mikilvægu þjónustu fyrir fjölskyldur í Reykjavík. MSS24110084

    Frestað. 

  29. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð samþykkir að í samvinnu við Borgarsögusafn verði tekið saman heildstætt yfirlit yfir þau hús Reykjavíkurborgar sem hafa sögulegt eða menningarlegt gildi vegna aldurs, staðsetningar, fágætis eða annarra viðkomandi ástæðna og það yfirlit gert almenningi aðgengilegt bæði í skýrslu og á Borgarvefsjá. MSS24110085

    Frestað.

  30. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu:

    Borgarráð samþykkir að til viðbótar við núverandi fyrirkomulag auglýsinga og kynninga á deiliskipulagsbreytingum að þeir íbúar sem búa í sama hverfi og væntanlegar skipulagsbreytingar eiga að fara fram fái send smáskilaboð (sms) til upplýsingar um áformin. MSS24110086

    Frestað.

  31. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óska yfirlits yfir alla þá starfshópa, stýrihópa eða sambærilega vinnuhópa sem starfa innan borgarkerfisins. MSS24110087

    Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

  32. Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

    Óskað er eftir upplýsingum um framvindu framkvæmda grunn- og leikskóla borgarinnar frá lokun til opnunar. Óskað er eftir yfirliti yfir: 1. Þann fjölda grunn- og leikskóla í Reykjavík sem þurft hefur að loka eða færa starfsemina annað vegna myglu eða annarra aðkallandi atriða sl. áratug 2. Dagsetningu lokunar og/eða flutnings starfseminnar, hve langur tími leið þar til farið var í útboð vegna viðgerðanna eða framkvæmdanna, og/eða hvenær var farið í viðgerðirnar og framkvæmdirnar. 3. Dagsetningu opnunar skólans og starfsemi hófst á ný. MSS24110088

  33. Áheyrnarfulltrú Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill að borgaryfirvöld og skipulagsyfirvöld endurskoði hugmyndina um bílastæðahús í borgarlandinu eða fjölnotahús eins og þau eru stundum kölluð. MSS24110083

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað.

    Fylgigögn

  34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu:

    Lagt er til að stofnaður verði gagnabanki grunnskóla Reykjavíkur þannig að kallað verði eftir upplýsingum frá grunnskólum um leiðir og nálganir sem eru styrkleikamiðaðar og sem eru til þess fallnar til að hvetja börn til þátttöku og gera þau virk í verkefnum. Gagnabanki sem þessi getur síðan verið aðgengilegur öllum á miðlægum grunni. MSS24110078

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Frestað. 

    Fylgigögn

  35. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Nú liggja fyrir nýjar niðurstöður æskulýðsrannsóknarinnar. Ýmislegt markvert ber þar á góma og í framhaldi er spurt hvernig skóla- og frístundasvið hyggst bregðast við. Hvernig hyggst skóla- og frístundasvið beita sér til að aðstoða foreldra að hjálpa börnum sínum að draga úr skjánotkun í þeim tilfellum þar sem skjánotkun er komin úr böndunum? Hefur skóla- og frístundasvið í hyggju að fræða foreldra sérstaklega um hvernig þeir geta frætt börn sín um hættur á netinu í ljósi þess að rannsóknin sýnir að um og yfir helmingur nemenda á erfitt með að minnka notkun sína á samfélagsmiðlum en þriðjungur ungmenna í 10. bekk upplifir vanlíðan þegar þau hafa ekki aðgang að samfélagsmiðlum og stúlkur eru sérstaklega viðkvæmar fyrir þessum áhrifum? Hefur skóla- og frístundasvið í hyggju að fræða foreldra sérstaklega um hvernig þeir geta frætt börn sín um hvernig þau skuli varast kynferðislega áreitni og ofbeldi í ljósi niðurstaðna um að 10% 10. bekkinga segjast samkvæmt skýrslunni hafa verið snertir kynferðislega af einhverjum fullorðnum? Það eru 15% stúlkna og 4% drengja. 54% stúlkna í 10. bekk hafa fengið beiðni um að senda nektarmyndir, sem eru fimm prósentustigum færri en frá árinu áður. Á sama tíma hafa um 16% stráka í 10. bekk fengið sambærilega beiðni. Hvernig hyggst skóla- og frístundasvið bregðast við þessum niðurstöðum? MSS24110075

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
    Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs. 

    Fylgigögn

  36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu mörg störf hafa verið auglýst á vegum þjónustu- og nýsköpunarsviðs undanfarin tvö ár? Hversu margt starfsfólk var ráðið til sviðsins í kjölfar starfsauglýsinga yfir sama tímabil? Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið inn til sviðsins án auglýsinga? Hversu mörgum hefur verið sagt upp störfum á sama tímabili? Hvernig er launagreiðslum til starfsfólks sviðsins skipt á milli mismunandi kostnaðarstaða og/eða kostnaðarlykla ef um slíkt er að ræða? MSS24110076

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. 

    Fylgigögn

  37. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Hversu margir verktakar hafa verið ráðnir hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði undanfarin tvö ár til þess að sinna daglegum störfum og eru með tölvupóstfang á vegum Reykjavíkurborgar? Hvernig eiga stjórnsýslulög við verktaka sem hafa fengið borgarpóstfang og umboð til þess að koma fram fyrir hönd Reykjavíkurborgar með störfum sínum sem verktakar innan sviðsins? Á hvaða kostnaðarstaði og/eða kostnaðarlykla eru laun verktaka á vegum sviðsins færð? Hefur verið kannað hvort launakjör og aðbúnaður þeirra erlendu verktaka sem starfa fyrir sviðið séu í samræmi við lög og kjarasamninga í viðkomandi landi? Hafa verið gerðir persónuverndarsamningar við þá erlendu aðila sem hafa starfað fyrir sviðið? MSS24110077

    Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs. 

    Fylgigögn

  38. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort haft hafi verið samráð við íbúa í nærumhverfi Skautasvells Nova þegar gildistíminn var ákveðinn en hann nær frá 14. nóvember 2024 til 5. janúar 2025. Í þessu sambandi er minnt á loforð meirihlutans um að hafa samráð við íbúa þegar um er að ræða mál sem hefur mikil áhrif á lífsgæði íbúa í hverfinu, heimilislíf og líðan. MSS24110079

  39. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um kostnað við gerð bráðabirgðabílastæða við smáhýsin í Gufunesi. Hver er almennt kostnaðurinn við að bæta fyrir að hafa ekki strax frá byrjun næg bílastæði? Hvað kostar að breyta blómabeðum í bílastæði? Almenningssamgöngur eru engar í Gufunesi og vonlaust fyrir fólk að lifa þar bíllausum lífsstíl. MSS24110080

  40. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um kostnað við bráðabirgðaveg í Gufunesi sem var gerður 2018 en horfinn 2021. Af hverju var þessi vegur gerður? Hver bað um það og samþykkti að eyða skattfé í hann og af hverju var hann fjarlægður? Hvað kostaði að gera hann og hvað kostaði að fjarlægja hann? Hvað á að gera í framhaldinu? Þarna á að vera vegur skv. skipulagi. Af hverju var hann ekki bara gerður strax? MSS24110081

Fundi slitið kl. 10:55

Dagur B. Eggertsson Andrea Helgadóttir

Dóra Björt Guðjónsdóttir Hildur Björnsdóttir

Magnea Gná Jóhannsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 14.11.2024 - prentvæn útgáfa