Borgarráð - Fundur nr. 5757

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 10. október, var haldinn 5757. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 08:05. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Sanna Magdalena Mörtudóttir  Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Stefán Pálsson. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Dóra Björt Guðjónsdóttir, Hildur Björnsdóttir, Skúli Helgason og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Björg Magnúsdóttir, Eiríkur Búi Halldórsson, Theodór Kjartansson og Þorsteinn Gunnarsson.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. október 2024, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurbóta á húsnæði leikskólans Brákarborgar, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir og Ámundi Brynjólfsson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. USK24100061

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Stefnt er að því að framkvæmdum vegna endurbóta á húsnæði leikskólans Brákarborgar verði lokið á fyrsta ársfjórðungi 2025 sem þýðir að framkvæmdum verði lokið eftir rúmt hálft ár. Eins mikilvægt og það er að drífa af þessar framkvæmdir þarf líka að gæta þess að lofa ekki upp í ermina á sér. Fátt fer meira fyrir brjóstið á borgarbúum en svik og falsboð. Nóg er komið af slíku. Brákarborgarmálið er allt hið vandræðalegasta og eiginlega ótrúlegt þegar horft er til allra þeirra sérfræðinga sem áttu aðkomu að því. Hver vísaði á annan og hefur verið gripið til þess að innri endurskoðun finni þann eða þá sem bera ábyrgðina. Til upprifjunar, þá var lagt torfþak á Brákarborg sem reyndist þyngra en reiknað var með og tilgreint var á teikningum en á flötu þaki varð torfþakið eiginlega að mýri. Fulltrúi Flokks fólksins lýsti yfir áhyggjum sínum á þeim tíma sem hönnunartillagan var kynnt, áhyggjur sem lutu að gerð torfþaks. Flokkur fólksins lagði þá fram viðvörunarbókun. Í ofanálag er það stórskrýtið að svona hönnun hafi verið verðlaunuð. Mistökin koma ekki aðeins illa við borgarsjóð heldur einnig börnin á Brákarborg og foreldra þeirra. Flytja þurfti leikskólann í húsnæði í Ármúla.

    Fylgigögn

  2. Afgreiðsla og bókanir undir þessum lið eru færðar í trúnaðarbók. MSS22070086
     

  3. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. október 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að Kirkjubyggingasjóði Reykjavíkur verði slitið, en sjóðurinn er eignalaus, með fyrirvara um samþykki sýslumannsins á Norðurlandi vestra að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Halla Björg Evans taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24090027

    Fylgigögn

  4. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. október 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að fjármunum Minningarsjóðs Ingibjargar Hansen verði ráðstafað til Hjálparstarfs kirkjunnar og að sjóðnum verði slitið við sama tækifæri, með fyrirvara um samþykki sýslumannsins á Norðurlandi vestra að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Halla Björg Evans taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24090028

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. október 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að fjármunum Músíksjóðs Guðjóns Sigurðssonar verði ráðstafað til verkefnisins Tónlistarborgin Reykjavík og að sjóðnum verði slitið við sama tækifæri, með fyrirvara um samþykki sýslumannsins á Norðurlandi vestra að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Halla Björg Evans taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24090029

    Fylgigögn

  6. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. október 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að fjármunum sjóðsins Viðeyjarkirkja verði ráðstafað til Viðeyjarkirkju til viðhalds og uppbyggingar kirkjunnar og að sjóðnum verði slitið við sama tækifæri, með fyrirvara um samþykki sýslumannsins á Norðurlandi vestra að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Halla Björg Evans taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24090030

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. október 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að fjármunum Styrktarsjóðs Guðrúnar Daníelsdóttur verði ráðstafað til Barnaspítala Hringsins og að sjóðnum verði slitið við sama tækifæri, með fyrirvara um samþykki sýslumannsins á Norðurlandi vestra að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Halla Björg Evans taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24090031

    Fylgigögn

  8. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 7. október 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að fjármunum Verðlaunasjóðs fullnaðarprófsbarna í Reykjavík, gjafasjóði Hallgríms Jónssonar, skólastjóra verði ráðstafað til skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur svo sviðið geti staðið fyrir handritasamkeppni um stuttmynd meðal nemenda í 9. bekk í grunnskólum Reykjavíkur. Einnig að sjóðnum verði slitið við sama tækifæri, með fyrirvara um samþykki sýslumannsins á Norðurlandi vestra að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

    Halldóra Káradóttir og Halla Björg Evans taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24090032

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 8. október 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að fallast á hjálagt erindi Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 3. júlí 2024, varðandi ósk um undanþágu frá upplýsingalögum fyrir dótturfélög Orkuveitu Reykjavíkur á samkeppnismarkaði. Vísað er til umsagna borgarlögmanns varðandi rökstuðning í því efni. Um er að ræða dótturfélögin Orku náttúrunnar ohf., ON Power ohf., Ljósleiðarann ehf., Eignarhaldsfélagið Carbfix ohf., Carbfix hf. og Coda Terminal hf. Jafnframt er lagt til að Reykjavíkurborg fari þess á leit við forsætisráðherra að félögin fái undanþágu frá gildissviði upplýsingalaga nr. 140/2012, með vísan í hjálagðar umsagnar borgarlögmanns, dags. 1. október 2024. Þrátt fyrir ofangreint beinir borgarráð þeim tilmælum til Orkuveitu Reykjavíkur að huga að gagnsæi í framsetningu á fjárhagsupplýsingum og bókhaldi eftir því sem kostur er.

    Frestað. MSS24070017 

  10. Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna, dags. 10. október 2024:

    Nú hækka Félagsbústaðir leigu umfram verðlag. Borgarráð samþykkir að verja leigjendur Félagsbústaða fyrir þessum hækkunum og hækka sérstakan húsnæðisstuðning sem nemur hækkunum Félagsbústaða.

    Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs. MSS24100035

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 9. október 2024.
    6. liður fundargerðarinnar er samþykktur MSS24010031

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Rafhlaupahjól eða öllu heldur rafskreppur eins og betra er að kalla þessi farartæki hafa verið bönnuð í sumum borgum, t.d. París. Þar sem rafskreppur eru leyfðar verður að vera meira regluverk í kringum þær og skoða af alvöru að setja aldurstakmark á þær t.d. að fólki yngra en 18 ára verði óheimilt að fara um á rafhlaupahjólum, nái þau meira en 25 kílómetra hraða. Leigurnar þurfa sjálfar að beita sér og að ýta við löggjafanum til að fá betra regluverk í kringum skreppurnar og að sett verði á aldurstakmark. Vandamálið er ekki síst að skreppurnar eru skildar eftir á miðjum gangstéttum og hjólastígum í andstöðu við lögin. Þetta eru regluleg og ítrekuð tilfelli og kerfisbundið ástand. Slys eru tíð. Fjórðungur allra alvarlegra slysa í umferðinni verða á skreppum. Fram hefur komið í fréttum að endurhæfingardeild Grensáss tekur á móti alvarlegustu tilfellunum; fólki með mænu- og heilaskaða og sumir ná sér aldrei til fulls. Á sama tíma og innreið rafskreppa markaði ákveðna byltingu í samgöngum fór hópur þeirra sem slasast alvarlega í umferðinni að taka miklum breytingum. Fyrstu slysin á skreppum voru skráð árið 2020 og hlutdeild þeirra í slysatölum hefur vaxið hratt. Slysafaraldur er staðreynd og nálgast tuginn á  sólarhring.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 2. október 2024. MSS24010010

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. og 4. lið fundargerðarinnar:

    3. liður: kynning á áhrifum óhóflegs skjátíma. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að íbúaráð vilji fræðast um málefni barna eins og áhrif óhóflegs skjátíma. 4. liður: Lagt er til að íbúaráð Breiðholts óski eftir því við borgarráð að gerður verði samningur við íþróttafélagið Leikni um stuðning borgaryfirvalda við starf íþróttafulltrúa á vegum félagsins. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta afar mikilvægt mál og löngu tímabært. Leiknir er að skila ómetanlegu starfi við einstakar aðstæður. Tillaga um íþróttafulltrúa hjá Leikni hefur verið lögð fram áður og felld með þeim rökum að Leiknir njóti nú þegar hlutfallslega hærri styrkja en önnur íþróttafélög borgarinnar. Þetta eru auðvitað fráleit rök. Leiknir er félag sem hefur lengi verið undir í baráttunni um krónuna og aurinn til að geta haldið úti metnaðarfullu íþróttastarfi með þau spil sem félagið hefur á hendi. Meira en tíu þúsund manns búa nú í efra-Breiðholti og íbúum þar fjölgar. Leiknir vill fjölga iðkendum. Það háir starfsemi félagsins að hafa ekki íþróttafulltrúa í fullu starfi. Efra-Breiðholt hefur mikla félagslega sérstöðu og myndi íþróttafulltrúi í fullu starfi styrkja starfsemi félagsins t.d. með því að fjölga iðkendum af báðum kynjum, sem og af erlendum uppruna.
     

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 3. október 2024. MSS24010035

    Fylgigögn

  14. Lagðar fram fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 4. og 18. september 2024. MSS24010027

    Fylgigögn

  15. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál. MSS24090166

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið yfirlitsins:

    Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á áminningarbréf frá eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Minnt er á í bréfinu að þrátt fyrir að bráðabirgðaákvæði VII i sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 heimili sveitarstjórn að víkja frá skilyrðum um jafnvægisreglu út árið 2025. Eftirlitsnefndin bendir á að á árinu 2026 þarf Reykjavíkurborg að uppfylla framangreind skilyrði. Ekki er annað hægt en að vera uggandi yfir þessu. Fjármálastaða borgarinnar er enn grafalvarleg og árið 2026 er handan við hornið ef svo má segja. Borgin hefur um eitt ár til að rétta úr kútnum. Samkvæmt ársskýrslu hefur Reykjavík ekki uppfyllt þau lágmarksviðmið sem kveðið er á um í lögum, væru þau virk, né heldur lágmarksviðmið eftirlitsnefndarinnar. Reykjavíkurborg er hvött nú þegar til að leita allra leiða til að uppfylla þessi lágmarksviðmið.

    Fylgigögn

  16. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24090167

    Fylgigögn

  17. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Vísað er til svars þjónustu- og nýsköpunarsviðs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innkaupabeiðnir sbr. fundargerð stafræns ráðs frá 9. október 2024. Spurt er hvort margra ára bið eftir hinu fullkomna kerfi, sbr. það sem fram kemur í svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins að „rafrænt kerfi þarf að uppfylla ríkar kröfur borgarinnar um öryggi gagna“ réttlæti áframhaldandi notkun pappírsbeiðna frekar en að innleiða rafrænt símakort eins og flestar aðrar stofnanir og sveitarfélög eru fyrir löngu komin með og hafa virkað frábærlega? Mun stærri vinnustaðir og stofnanir í löndunum hér í kringum okkur eru varla enn að notast við það úrelta pappírskerfi sem enn er við lýði hjá borginni.

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. MSS24050116
     

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 09:12

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Hildur Björnsdóttir Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir

Sanna Magdalena Mörtudottir Skúli Helgason

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 10.10.2024 - prentvæn útgáfa