Borgarráð - Fundur nr. 5754

Borgarráð

Ár 2024, fimmtudaginn 19. september, var haldinn 5754. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:04. Viðstaddar voru Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Hildur Björnsdóttir, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir og Líf Magneudóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ebba Schram og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 18. september 2024, ásamt trúnaðarmerktum fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki tilboð að nafnvirði 4.130 m.kr. í nýjan verðtryggðan skuldabréfaflokk borgarsjóðs RVK 44 1 á ávöxtunarkröfunni 3,90% en það eru 4.143 m.kr. að markaðsvirði. Skuldabréfaflokkurinn ber 3,75% fasta vexti með tveimur gjalddögum á ári og lokagjalddaga 21. maí 2044. Ofangreind tillaga var tekin fyrir og samþykkt á fundi fjárstýringarhóps þann 18. september 2024.

    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Það er afar ánægjulegt að sjá góðar viðtökur við nýjum skuldabréfaflokki í þessu fyrsta útboði í flokkinum. Álag markaðarins fer lækkandi og helst í hendur við ríkt aðhald í rekstri borgarinnar og jákvætt 6 mánaða uppgjör.

    Hörður Hilmarsson og Bjarki Rafn Eiríksson taka sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. FAS24010012

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. september 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2024 á auglýsingu á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar vegna lóðarinnar nr. 15 við Tryggvagötu, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24070146

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Með þessari samþykkt er verið að aðlaga deiliskipulag fyrir Grófarhús að hönnun hússins. Í þessari ákvörðun er ekki falin fjárhagsleg skuldbinding um að setja framkvæmdina sjálfa í sérstakan forgang heldur snýr breytingin einungis að undirbúningi og hönnunarvinnu. Þegar svigrúm skapast verður farið í framkvæmdina og þá skiptir máli að hönnunin sé klár. Það er hinsvegar ekki í áætlunum að það verði gert fyrr en eftir nokkur ár.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Þegar Borgarbókasafn, Borgarskjalasafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur fluttu í Grófarhús um síðustu aldamót, var ráðist í miklar og kostnaðarsamar endurbætur á húsinu í þágu safnanna. Grófarhús þjónar hlutverki sínu vel og er því ekki brýn þörf fyrir algera og fokdýra umbreytingu á húsinu eins og nú virðist vera stefnt að. Ljóst er að kostnaður við umbreytingu Grófarhúss verður gífurlegur og varla undir tíu milljörðum króna. Vegna alvarlegrar fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar sætir furðu hversu mikil áhersla er lögð á umbreytingu hússins. Ekki er verjandi að ráðast í svo dýra framkvæmd, sem þar að auki felur í sér mikla kostnaðaráhættu, á meðan húsnæði skóla og annarrar grunnþjónustu liggur víða undir skemmdum vegna vanrækslu.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja ræða um kostnaðartölur á þessu stigi. Vinningstillagan er mjög kostnaðarsöm og kannski varla verjandi. Grófarhús er skemmtileg hugmynd vissulega en sannarlega ekkert brýnt verkefni. Útfærsla hússins er úr takti við ákveðinn raunveruleika. Umbylta á húsinu, breyta útliti á veggflötum hússins til að líkjast upprunalegu útliti. Rífa á niður hæðir innanhúss til að opna milli hæða, breyta þakformi með tveimur glerjuðum þakhæðum í stað núverandi þakhæðar og hækka á hæðarkóta þaks sem nemur um hálfum metra. Til dæmis eru framkvæmdir á borð við að gera framtíðartengingu við starfsemi Listasafns Reykjavíkur við Tryggvagötu 17 með að hámarki tveimur göngubrúm. Það er eins og „við“ kunnum okkur ekkert hóf, séum sífellt að reyna að „toppa“ sem er auðvitað fáránlegt í ljósi ástandsins hér í húsnæðismálum og vaxandi ójafnaðar og fátæktar. Borgin þarf að geta stillt málum í hóf og hugsað meira á grunni hagsýni og skynsemi.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. september 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2024 á breytingu á deiliskipulagi Hlíðarenda vegna reits I við Haukahlíð, lóðar nr. 6, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK23010208

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Málið snýst um fjölgun íbúða frá fyrri áætlun úr 70 í 86. Þessu er mótmælt af mörgum sem þegar eru á svæðinu. Uppbygging með 85 íbúðum og 54 bílastæðum innan lóðar mætir tæplega kröfum um fjölda bílastæða fyrir íbúa en kannski svo lengi sem gert er ráð fyrir að gestastæði séu leyst í borgarlandi. Er ætlast til að gengið sé á önnur stæði í borgarlandinu? Hér er óneitanlega þrengt að þeim sem fyrir eru. Í þessu tilfelli virðist skorta að samráð sé nægilegt. Einnig er sagt að væntanlegir íbúar geti notast við deilibílakerfi. Það er hins vegar óþekkt hvernig það muni reynast. Um deilibílakerfi má segja að það sé enn á tilraunastigi.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. september 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. september 2024 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.240, Hlemmur og nágrenni, og Hlemmur, umferðarskipulag, vegna breytinga á gatnamótum Laugavegs og Katrínartúns, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

    Málið fer til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan til ákvæða 2. mgr. 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24080215

    Fylgigögn

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. september 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki að koma á árlegum námsstyrk í nafni Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur lögfræðings og fyrrum sviðsstjóra og borgarritara. Styrkurinn verði veittur einu sinni á ári í fimm ár fyrir meistararitgerð eða meistaraverkefni á sviði umhverfis- og/eða loftslagsmála. Í forgangi verði styrkir til verkefna eða ritgerða sem varða Reykjavíkurborg beint eða sveitarfélög almennt. Einnig er lagt til að borgarráð samþykki meðfylgjandi reglur um námsstyrkinn. Styrkurinn verður greiddur af umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt.

    Ólöf Örvarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið. USK24090178

    Fylgigögn

  6. Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. september 2024, þar sem erindisbréf starfshóps um endurskoðun á skipulagi Menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons er lagt fram til kynningar, ásamt fylgiskjölum.

    -    Kl. 9:30 taka borgarstjóri og Björg Magnúsdóttir sæti á fundinum. MSS24090075

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Full ástæða er til að endurskoða skipulagningu beggja viðburða í ljósi þeirra alvarlegu ofbeldistilvika sem átt hafa sér stað á Menningarnótt síðustu ár, nú síðast hnífaárásar sem leiddi til dauða ungrar stúlku. Það er mat margra án efa að Menningarnótt sé komin úr böndunum og er sannarlega komin langt frá því sem hún var hugsuð í upphafi sem var fyrst og síðast að vera fjölskylduhátíð. Þegar líða tekur á kvöldið á Menningarnótt er fátt sem minnir á fjölskylduhátíð. Eins og fulltrúi Flokks fólksins sagði í ræðu sinni í borgarstjórn í umræðu um ofbeldistilvik á Menningarnótt er kominn tími til að breyta skipulagi Menningarnætur. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi í ræðu sinni að stytta þurfi dagskrá t.d. þannig að henni yrði lokið kl. 22 og þá verði hafist handa við að rýma bæinn. Það þýðir eðli málsins samkvæmt að engin verði flugeldasýningin. Flugeldasýning er þess utan umdeilt fyrirbæri þar sem mengun hlýst af slíkri sýningu. Það þykir því einhverjum ekki mikill missir af henni. Öryggi borgaranna þarf að vera í fyrirrúmi og áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir en ekki einungis að slökkva elda þegar skaðinn er skeður.

    Fylgigögn

  7. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 9. september 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki meðfylgjandi drög að endurnýjuðum samningi við Háskóla Íslands um fjárframlag að upphæð 5 m.kr. auk vinnuframlags að verðmæti 1 m.kr. og samþykki þar með áframhaldandi samstarf við Háskóla Íslands um þróun og rekstur samfélagshraðalsins Snjallræðis þar sem sjálfbærar lausnir fyrir umhverfi og samfélag eru í forgrunni. Samningurinn gildir til eins árs. Kostnaðurinn verði færður af kostnaðarstað 09510, ýmsar samningsbundnar greiðslur.

    Greinargerð fylgir tillögunni.
    Samþykkt. MSS22010044

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2024, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 9. september 2024 á breytingum á reglum um leikskólaþjónustu, ásamt fylgiskjölum.
    Samþykkt.
    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

    Helgi Grímsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. SFS24080312

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sitja hjá við afgreiðslu málsins, enda fela uppfærðar reglur um leikskólaþjónustu í sér einhverjar jákvæðar breytingar. Hins vegar leggjast fulltrúarnir gegn þeirri breytingu að foreldrar þurfi nú sérstaklega að skrá börn sín til leikskóladvalar milli jóla og nýárs, í dymbilviku og alla virka daga öðru hvoru eða báðum megin við vetrarleyfi grunnskóla. Hafi börnin ekki verið skráð með ríflegum fyrirvara megi þau ekki mæta til leikskóla þessa daga. Nú þegar reynist íþyngjandi fyrir vinnandi foreldra að bregðast við lögbundnum frídögum, starfsdögum leik- og grunnskóla og sumarleyfum, enda frídagar barna töluvert fleiri en frídagar vinnandi fólks. Virðist ofanrituð breyting fyrst og fremst unnin í þágu kerfisins en ekki í þágu fjölskyldna í borginni. Mikilvægt er að vinna betur með fjölskyldum í borginni að einfaldari hversdegi.

    Borgarráðsfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

    Sósíalistaflokkur Íslands samþykkir breytingar á reglum um leikskólaþjónustu en minnir á að tryggja þarf að allir foreldrar séu vel upplýstir um breytingarnar og áhrif breytinganna á sína persónulegu hagi.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem hér sé verið að herða ýmis ákvæði. Eitt er hér dregið fram sem er býsna bratt: „Hafi leikskóla verið úthlutað án þess að lögheimili barnsins hafi verið flutt til Reykjavíkur verður lögheimilið að vera komið til Reykjavíkur eigi síðar en 7 dögum áður en leikskóladvöl hefst. Réttur til leikskólans fellur niður á fyrirhuguðum upphafsdegi vistunar og öðru barni boðið plássið ef skilyrðum er ekki fullnægt“. Þetta má teljast nokkuð knappt og er því velt upp hvort ekki sé einhver sveigjanleiki ef þetta næst ekki. Um breytingar á reglum um forgang vill fulltrúi Flokks fólksins hafa sérstakan forgang fyrir einstætt foreldri með fullt forræði þar sem hinu foreldrinu nýtur ekki við né nýti það fæðingarorlofsrétt sinn. Í þessum tilfellum þarf einstæða foreldrið að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella, þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi. Annað sem er ósanngjarnt er að foreldrar sem neyðast til að fara með barn sitt á einkarekinn leikskóla þar sem ekki er pláss í borgarreknum skóla eigi að greiða sama gjald og það gerði ef barnið væri í borgarreknum leikskóla.

    Fylgigögn

  9. Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra, dags. 17. september 2024, ásamt fylgiskjölum:

    Lagt er til að borgarráð samþykki hjálögð drög að samkomulagi Seljahlíðar, heimili aldraðra, og Sjúkratrygginga Íslands um frestun uppsagnar á samningi um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimilis að Hjallaseli 55.

    Samþykkt.

    Anna Sigrún Baldursdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með rafrænum hætti. MSS24010165

    Fylgigögn

  10. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um styttingu vinnuvikunnar, sbr. 27. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. september 2023. Einnig lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 13. september 2024. MSS23090177

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það er fulltrúa Flokks fólksins vel minnisstætt að skilyrði fyrir að fara í verkefnið „stytting vinnuvikunnar“ var að það mátti ekki kosta krónu. Þetta var auðvitað fráleitt og útilokað eins og kom á daginn. Að stytta vinnuviku starfsmanna er aldrei ókeypis, ekki nema ætlast sé til að einhver annar bæti á sig aukaálagi eða að þjónusta verði skert. Ef horft er til leikskólanna og frístundaheimila þá gleymdist að reikna með að þar er rótgróinn mannekluvandi og ef dæmið átti að ganga upp varð í raun að yfirmanna. Allir vilja auðvitað stytta vinnuvikuna en með þennan drösul að draga að styttingin mætti ekkert kosta reyndist hún mörgum erfið og jafnvel ómöguleg. Ábyrgðin var sett í hendur starfsmanna og leit út eins og meirihlutinn fríaði sig ábyrgðinni. Síðan vinnutímastytting tók gildi í leikskólum hefur álag á starfsfólk aukist enn frekar. Vinnutímastyttingin bættist þá ofan á þá manneklu og langtímaveikindi sem lengi hafa hrjáð starfsemi leikskólanna. Í svari kemur fram að kostnaðarauki við verkefnið var síðan þegar upp var staðið rúmlega 6% en ólíkur eftir starfsemi og vaktafyrirkomulagi.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fundi aðgengisfulltrúa, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2024. Einnig lagt fram svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 16. september 2024. MSS24050003

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Flokkur fólksins óskaði eftir upplýsingum um hvort haldinn hafi verið fundur með aðgengisfulltrúa vegna aðgengis blindra og sjónskerta að nýju snertilausu skápakerfi í sundlaugum og hverjar niðurstöður þess fundar voru, hafi hann átt sér stað. Fram kemur að aðgengisfulltrúi hefur verið í samskiptum við menningar- og íþróttasvið Reykjavíkur og forstöðumenn allra sundlauga um ýmis aðgengismál í sundlaugum borgarinnar. Málið er því ljóslega í skoðun og hugmyndir að lausnum í farvatninu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að nota einfaldar lausnir og varla er hægt að hafa það einfaldara en að útbúa sérstakar leiðbeiningar vegna notkunar á læsingum fataskápa sem er á hendi menningar- og íþróttasviðs. Einnig er hægt að kaupa armband til eignar sem læsir/aflæsir skápum sem viðkomandi kýs að nota í búningsklefanum. Ástæða þess að fyrirspurnin var lögð fram í upphafi var forvitni fulltrúa Flokks fólksins um hvað kom út úr fundi með aðgengisfulltrúa um málið en til stóð að funda í apríl síðastliðnum.

    Fylgigögn

  12. Lögð fram fundargerð fjölmenningarráðs frá 10. september 2024. MSS24010005

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðarinnar:

    Lögð fram skýrsla OECD, Efnahags- og framfarastofnunar, Skills and Labour Market Integration of Immigrants and their Children in Iceland 2024. Flokkur fólksins telur að skýrsla OECD um stöðu innflytjenda á Íslandi sé mjög mikilvæg og gefur skýrslan greinargóða lýsingu á stöðu mála í þessum málaflokki. Það sem var hvað mest sláandi í skýrslunni var að hlutfall þeirra sem segjast hafa góða kunnáttu í tungumálinu er lægst hér á landi á meðal svarenda í OECD-ríkjum eða 18% samanborið við 60% að meðaltali innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er einnig bent á að námsárangur barna sem fædd eru á Íslandi en eiga foreldra með erlendan bakgrunn sé áhyggjuefni. Meira en helmingi þessara barna gangi illa í PISA-könnuninni sem þýðir að þau eiga erfitt með verkefni á borð við að skilja og túlka einfalda texta. Það er augljóst að við sem samfélag þurfum að gera betur í þessum málaflokki. Flokkur fólksin telur að það þurfi þjóðarátak í þessum málaflokki. Ábyrgðin er okkar. Hvernig mætum við innflytjendum sem ekki tala íslensku og hvernig hvatningu sendum við til þeirra um að það sé mikilvægt að læra íslensku og síðast en ekki síst hvernig leiðbeinum við þeim í þeirri vegferð? Við verðum að senda skýr skilaboð til innflytjenda um að íslenskan sé lykillinn að samfélaginu.

    Fylgigögn

  13. Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 12. september 2024. MSS24010007

    Fylgigögn

  14. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 12. september 2024. MSS24010008

    Fylgigögn

  15. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts frá 10. september 2024. MSS24010009

    Fylgigögn

  16. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 11. september 2024. MSS24010010

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

    Því er fagnað að verið sé að kynna og ræða viðbrögð og fyrirbyggjandi aðgerðir vegna ofbeldis. Gott væri að fá lista yfir hvaða viðbrögð þetta eru og hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir eru í gangi hverju sinni. Umfram allt skiptir máli að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Mest um vert er að fagfólk/sérfræðingar skólaþjónustu grípi strax inn þegar vandi sýnir sig eða þegar grunur leikur á erfiðleikum. Hvað varðar stefnumótandi áherslur er verkefnið að styrkja fjölskyldur. Mörg nýleg alvarleg dæmi sem og þróun síðustu missera á auknum vopnaburði ungmenna kallar á alveg sérstaka endurskoðun á aðstoð velferðar- og skólayfirvalda til foreldra. Hlusta þarf á börn og foreldra þeirra og svara ákalli þeirra um aðstoð strax en ekki eftir nokkra mánuði. Fræðsla er grunnþáttur, t.d. fræðsla í uppeldistækni. Fræðsla sem miðast að því að styðja foreldra í foreldrahlutverkinu og fræðsla um hvernig foreldrar geta stutt börn sín í daglegu lífi. Fræðsla um mikilvægi tengslamyndunar foreldra og barna er mikilvæg nú á dögum tölvu, síma og samfélagsmiðla. Samvinna og samstillt átak er gulls ígíldi og það þarf að efla.

    Fylgigögn

  17. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 12. september 2024. MSS24010014

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar:

    Það er í raun átakanlegt að sjá alla þá vinnu sem búið er að leggja í þetta mál svo ekki sé talað um kostnað. Tugir athugasemda hafa borist frá íbúum sem hafa mótmælt hástöfum. Að búa næst skotsvæði er martröð. Truflun er af völdum hávaða og mengunarhætta og hávaði oft yfir hávaðamörkum sama hvað hver segir. Engin klár tímamörk eru í skipulagstillögunni og svæðið gæti þess vegna vera komið til að vera næstu hundrað árin. Þegar vel viðrar og skotæfingar eru í gangi er ekki hægt að vera utandyra. Í glænýrri athugasemd kemur fram að opnunartímar séu ekki virtir og reglur um blýskot ekki heldur. Er ekki verið að níðast gróflega á mönnum, dýrum og lífríki? Það er óskiljanlegt af hverju ekki er hægt að finna þessu sporti viðeigandi svæði fjarri lífi. Hvaða sérhagsmunir réttlæta allar þessar kostnaðarsömu aðgerðir? Íbúar upp til hópa hafna breytingu á Aðalskipulagi 2040. Íbúar reyna að selja eignir sínar og flýja, allt vegna tilkomu skotsvæðanna. Lesa má áhyggjur úr umsögnum Náttúrufræðistofnunar, Skipulagsstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins er eiginlega miður sín eftir yfirferð athugasemda. Ekki er annað hægt en að fyllast sorg yfir þessu máli. Hvað þarf eiginlega til, til að fá hlustun og skilning í þessu máli?

    Fylgigögn

  18. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 9. september 2024. MSS24010015

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

    Flokkur fólksins vill vekja athygli á samþykkt íbúaráðs Laugardals um umferðaröryggi við Dalbraut og Sæbraut. Kallað er eftir að umhverfis- og skipulagsráð bæti umferðaröryggi bíla með beygjuljósi þegar keyrt er upp Dalbraut að Sundagörðum og beygt til vinstri inn á Sæbraut. Þarna hefur fólk oft komist í hann krappan þegar stór ökutæki byrgja ökumönnum sýn á umferð úr gagnstæðri átt. Ökumenn sem keyra frá Sundagörðum til suðurs yfir gatnamótin og inn á Dalbraut hindra sýn á aðra sem koma samsíða og eru á leið beint yfir, stundum á töluverðum hraða sem gerir fyrrgreinda vinstri beygju hættulega eins og segir í samþykktinni.

    Fylgigögn

  19. Lögð fram fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. september 2024.
    2. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031

    Fylgigögn

  20. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 10 mál (MSS22030265, MSS24010024, MSS24010022, MSS24090016, MSS24010051, MSS24010049, MSS24090067, MSS24080075, MSS24030167, MSS24090087). MSS24090001

    Fylgigögn

  21. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS24090002

    Fylgigögn

  22. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um stöðu hljóðvistar á vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Hvernig er eftirliti háttað, hversu oft eru þessi mál skoðuð og hvernig? Hvernig er dregið úr hávaða á hávaðasömum vinnustöðum eins og í skrifstofurýmum og skólum? Hefur verið gerð úttekt á hljóðvist eftir að opin rými komu til sögunnar? MSS24090104

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.

    Fylgigögn

  23. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Vísað er til 4. liðar í fundargerð stafræns ráðs frá 11. september um fundargerð verkefnaráðs frá 18. apríl 2024 um samnýtingu skólalausna. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig standi á því að Reykjavíkurborg sé að eyða bæði tíma og fjármagni í að þróa sérlausnir eins og Bjargey til innritunar í grunnskóla án þess að hafa talað við ríkið og önnur sveitarfélög með það að markmiði að vinna saman að innleiðingu slíks kerfis fyrir alla grunnskóla landsins. MSS24090105

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. 

    Fylgigögn

  24. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvers vegna ekki er búið að innleiða greiðslugátt og koma öllum plastkortum Reykjavíkurborgar rafrænt í síma. MSS24090106

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. 

    Fylgigögn

  25. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir því að fá að vita af hverju þjónustu- og nýsköpunarsvið, eða forveri þess, skrifstofa þjónustu og reksturs, hafi ákveðið að innleiða Workplace frá Facebook sem samskiptamiðil í stað þess að nýta sér Yammer (Viva Engage í dag) sem borgin var þá þegar að greiða leyfi fyrir. Einnig er óskað upplýsinga um hvort vistun persónugagna Workplace utan Evrópusambandsins hafi verið brot á persónuverndarlögum. MSS24090107

    Greinargerð fylgir fyrirspurninni.
    Vísað til meðferðar stafræns ráðs. 

    Fylgigögn

Fundi slitið kl. 09:55

Árelía Eydís Guðmundsdóttir Dóra Björt Guðjónsdóttir

Heiða Björg Hilmisdóttir Hildur Björnsdóttir

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sanna Magdalena Mörtudottir

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Borgarráð 19.09.2024 - prentvæn útgáfa