Borgarráð - Fundur nr. 5662

Borgarráð

Ár 2022, föstudaginn 22. apríl, var haldinn aukafundur borgarráðs nr. 5662. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 09:08. Viðstödd voru auk borgarstjóra, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Alexandra Briem, Líf Magneudóttur, Eyþór Laxdal Arnalds og Valgerður Sigurðardóttir. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúarnir Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldinn fulltrúi tók sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan til heimildar í 2. málsl. 4. mgr. 44. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar sbr. 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Þorsteinn Gunnarsson, Ívar Vincent Smárason og Hulda Hólmkelsdóttir.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

  1. Lagður fram að nýju trúnaðarmerktur ársreikningur A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar 2021, dags. 22. apríl 2022. Einnig er lögð fram skýrsla fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 22. apríl 2022, greinargerð fagsviða og sjóða A-hluta, dags. 22. apríl 2022, greinargerð B-hluta fyrirtækja, dags. 7. apríl 2022, verkstöðuskýrsla nýframkvæmda, ódags., ábyrgða- og skuldbindingayfirlit, ódags., sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. apríl sl. Nú er lögð fram endurskoðunarskýrsla Grant Thornton vegna endurskoðunar ársreiknings Reykjavíkurborgar 2021, dags. 22. apríl 2022, endurskoðunarskýrsla Grant Thornton varðandi meðferð grænna fjármuna, dags. 19. apríl 2022, bréf endurskoðunarnefndar, dags. 21. apríl 2021, varðandi samþykkt nefndarinnar á að formaður gangi frá umsögn til borgarráðs og umsögn endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar um ársreikning Reykjavíkurborgar 2021, dags. 20. apríl 2022. FAS22040002

    Ársreikningur borgarsjóðs (A-hluta) og samstæðureikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 hefur verið undirbúinn af fjármála- og áhættustýringarsviði í samræmi við ákvæði 61. greinar sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Lagt er til að ársreikningi verði vísað til fyrri umræðu í borgarstjórn. 
    Samþykkt.

    Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ársreikningur Reykjavíkur skilar gríðarlega sterkri niðurstöðu við krefjandi aðstæður. Niðurstaðan er mun sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn aukakostnað vegna COVID, sérstaklega í skólum og velferðarþjónustunni. Þar sýndu starfsfólk og stjórnendur ótrúlega útsjónarsemi og seiglu og er öllu því fólki þakkað sérstaklega. Borgin brást einnig við COVID með því að auka fjárfestingar. Þar erum við að fjárfesta í innviðum hverfanna okkar og lífsgæðum fyrir borgarbúa, með grænum áherslum í samræmi við græna planið. Þessi ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina.

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 sýnir gríðarlega skuldasöfnun, en skuldir samstæðu voru komnar í 407 milljarða um síðustu áramót. Samkvæmt þessu hækkuðu skuldirnar um 24 milljarða á síðasta ári. Tvo milljarða á mánuði. Þetta gerist þrátt fyrir að tekjur hafi hækkað um heila 44 milljarða! Áfram er tap á rekstri A-hluta og ef ekki væri bókfærður „hagnaður“ af félagslegu húsnæði og álafleiðum væri tap á samstæðunni allri í heild. Samkvæmt samanteknum reikningsskilum borgarinnar eru Félagsbústaðir að skila gríðarlegum hagnaði sem byggist á endurmati á félagslegu húsnæði upp á meira 20 milljarða. Rétt er að geta þess að leigutekjur Félagsbústaða voru innan við fimm milljarðar króna. Skuldir uxu um nærri fimm milljarða hjá Félagsbústöðum einum. Þessi framsetning skekkir niðurstöðuna umtalsvert enda er hún verulega umdeild meðal annars innan endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar sjálfrar. Rétt er að geta þess að eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga (EFS) og eftirlitsstofnun ESA hafa gert athugasemdir við þessa framsetningu borgarinnar. Þar er spurningum enn ósvarað. Skuldahlutfall samstæðu borgarinnar er komið í 201%. Þetta hlutfall segir sína sögu og er ljóst að skuldasöfnun og útgjöld borgarinnar eru langt umfram tekjur þrátt fyrir mettekjur af sköttum og gjöldum.

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ársreikningur Reykjavíkurborgar árið 2021 var birtur í dag. „Happdrættistekjur“ valda því að samstæðan kemur út í plús – þær eru: tekjufærsla Félagsbústaða nemur 20,5 milljörðum og hækkun heimsmarkaðsverðs á áli um 40% skapar 6,6 milljarða tekjufærslu. B-hluta fyrirtæki skila borginni 3,8 milljarða arði, uppgreiðsla láns frá OR til A-hluta eru 3 milljarðar og ábyrgðargjald lána B-hluta til A-hluta 493 milljónir. Veltufé frá rekstri er um 0% en æskilegt hlutfall er 9%. Rekstrargjöld eru 4,9% yfir áætlun og fjárfestingar eru fjármagnaðar með lántöku. Skuldahlutfallið er komið yfir 150% og séu skuldir Orkuveitu Reykjavíkur taldar með þá er skuldahlutfallið hátt í 200%. Reykjavíkurákvæðið um undanþágu orkufyrirtækja fellur úr gildi í árslok 2022 en COVID-19 ákvæði ríkisstjórnarinnar um undanþágu frá skuldahlutfallinu rennur út 2025. Ekkert bendir til að Reykjavíkurborg nái settu marki um lögbundið skuldahlutfall í langri framtíð því lántökuáætlun á árunum 2022-2026 eru 92 milljarðar og borgin er rekin á lánum.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Ársreikningur 2021. Tap er á A-hluta. Staðan hefur aldrei verið svona slæm. Það er 24 milljarða skuldaaukning á síðasta ári. Þetta er sett á reikning COVID en allir vita að það er meira þarna að baki og staða borgarinnar var ekki góð fyrir COVID. Um reikningsskilaaðferð Félagsbústaða, það eru margir sem bíða eftir að sjá hvað kemur út úr bréfaskriftum ESA við ráðuneytið. Það að það skuli vera bréfaskriftir yfir höfuð um þetta mál er eitt og sér athyglisvert. Ef horft er á A-hlutann þá er veltufé frá rekstri í sögulegu lágmarki, er nú 368 milljónir, en var 5 milljarðar og þar áður 12,4. Búið er að taka mikið af lánum og áframhaldandi lántökur bíða. Afborganir langtímaskulda og leiguskulda eru nú samtals 3,8 milljarðar en var 2,8 milljarðar. Það er búið að ráðstafa tæpum fjórum milljörðum af veltufé sem aðeins telur 368 milljónir rúmar. Það er lítið sem ekkert að koma úr rekstri til að styrkja handbært fé og því þarf sennilega að taka enn meira lán.

    Halldóra Káradóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Erik T. Bjarnason, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Lárus Finnbogason, Hallur Símonarson, Sturla Jónsson og Theodór S. Sigurbergsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lögð fram samantekt fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 7. apríl 2022, yfir breytingar á fjárhagsáætlun 2021. FAS21120117

    Halldóra Káradóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Lárus Finnbogason, Hallur Símonarson, Sturla Jónsson og Theodór S. Sigurbergsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Lögð fram áhrifaskýrsla grænna skuldabréfa vegna ársins 2021, unnin af KPMG, dags. 19. apríl 2022. FAS22020028

    Halldóra Káradóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir, Gísli Hlíðberg Guðmundsson, Lárus Finnbogason, Hallur Símonarson, Sturla Jónsson og Theodór S. Sigurbergsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram trúnaðarmerkt bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 11. apríl 2022, þar sem lögð er fram trúnaðarmerkt áhættuskýrsla vegna fjórða ársfjórðungs ársins 2021. FAS22040024

    Halldóra Káradóttir, Sigurrós Ásta Sigurðardóttir, Fjóla Þorgerður Hreinsdóttir og Gísli Hlíðberg Guðmundsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

  5. Lagðar fram fundargerðir endurskoðunarnefndar frá 4. og 20. apríl 2022. MSS22010020

    Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 20. apríl:

    Vakin er athygli á bókun Einars S. Hálfdánarsonar frá fundi endurskoðunarnefndar þegar kynning á ársreikningi Reykjavíkur og samstæðu var til umræðu. Þar segir að samstæðureikningur Reykjavíkurborgar væri ekki í samræmi við sveitarstjórnarlög, lög um ársreikninga og reglugerð um sama efni. Er þessi skoðun rökstudd með svari til Alþingis frá innviðaráðuneytinu þess efnis. Síðan segir: „Tekjufærsla vegna matsbreytingar fjárfestingaeigna í samstæðuársreikningi að fjárhæð kr. 20.521.219.000 vegna eigna sem notaðar eru til að efna lögbundnar skyldur sveitarfélagsins er ekki í samræmi við alþjóðlegan skilning á efni alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Og noti dótturfélag í samstæðu aðrar matsaðferðir í eigin ársreikningi en móðurfélagið skulu unnin ný reikningsskil fyrir dótturfélagið, sbr. 75. gr. ársreikningalaga, þar sem matsaðferðir eru í samræmi við reikningsskil samstæðu. Vísast jafnframt til bréfs eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga, dags. 3. desember 2021, til Borgarstjórnar Reykjavíkurborgar um þetta efni.“ Seinni hluti bókunarinnar snýr að gagnrýni á „meintan kostnaðarauka“ borgarinnar um að allar skýringar, útreikninga og tölulega útlistun vanti vegna kostnaðarauka borgarinnar vegna áhrifa COVID-19 og því væri ekki hægt að gera sér glögga grein fyrir áhrifum faraldursins í reikningsskilunum.

    Fylgigögn

  6. Lögð fram fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 7. apríl 2022. MSS22010006

    Fylgigögn

  7. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 4. apríl 2022. MSS22010027

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

    Farið er yfir  frístundastarf í Breiðholti. Tekið er undir að mikilvægt er að frístundastarf sé bæði faglegt og fjölbreytt. Mikil uppbygging á sér stað í Breiðholti og því ekki úr vegi að fara yfir þessi mál. Það sem vantar er að ekkert er að finna í  þessum texta um ráðstöfun á húsnæðinu í Austurbergi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir því upp af hverju ekkert er minnst á að í skoðun er ráðstöfun á Austurberginu og áhuga Leiknis til að fá húsið til að geta boðið upp á fjölbreyttara úrval íþrótta. Þarna virðist gert ráð fyrir að ÍR verði áfram í Austurbergi þrátt fyrir að þeir séu að fá nýja húsið í Mjóddinni.

    Fylgigögn

  8. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Grafarvogs frá 6. apríl 2022. MSS22010029

    Fylgigögn

  9. Lögð fram fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 7. apríl 2022. MSS22010031

    Fylgigögn

  10. Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó frá 1. apríl 2022. MSS22010019

    Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðarinnar:

    Ljóst er að rekstur Strætó gengur verr en áætlun gerði ráð fyrir og er lausafjárstaðan verri en ætlað var. Þetta gerist þrátt fyrir að búið sé að skerða þjónustu Strætó. Ekki liggur fyrir hvernig þessi staða verður brúuð eða hvort sveitarfélögin muni koma enn frekar inn í rekstur Strætó. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað varað við vanfjármögnun Strætó og hæpnum forsendum í áætlanagerð. Færri nýta sér þjónustu Strætó þegar þjónustan er skert. Hugmyndir um borgarlínu gagnast lítið á yfirstandandi ári og er ljóst af fundargerðinni sem dagsett er 1. apríl að endurskoða þarf fjárhagsáætlun félagsins þegar aðeins örfáir mánuðir eru liðnir af kosningaárinu 2022.

    Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 3. lið fundargerðarinnar:

    Áfall er að Strætó hefur þurft að draga úr þjónustu. Á meðan ómældir fjármunir fara í borgarlínu getur borgin ekki haldið úti lágmarks almenningsþjónustu í bs.-fyrirtæki sem það er stærsti eigandi að. Tekjur fyrstu þriggja mánaða ársins eru undir áætlun og fyrir utan almennar hækkanir verðbólgu og aðfanga, hækkar olíuverð um 38%. Þarna kemur í bakið sú staðreynd að stjórnin hefur frekar kosið að kaupa vagna sem brenna innfluttu jarðefnaeldsneyti frekar en að nota metan, sem safnað er hjá SORPU. Það á varla að koma á óvart að margir vagnar eru gamlir og það er einnig einkennilegt að hafa ekki vagna sem geta annað akstri á annatímum. Að kaupa verktaka til þess er varla ódýrt. Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um úrlausnir á eineltismálum hjá fyrirtækinu en ekki fengið svör. Háar fjárhæðir hafa farið í að ráða fagfólk til að reyna að leysa eineltismál og önnur samskiptamál hjá Strætó sem ekki hefur skilað árangri eftir því sem heyrst hefur. Beðið hefur verið um upplýsingar um þá fjárhæð sem farið hefur í að greiða utanaðkomandi fagfólki vegna þessara mála. Til hverra hafa greiðslur farið og hverjar eru upphæðirnar? Einnig hefur verið óskað eftir upplýsingum  um lögfræðikostnað Strætó bs. sem tengist málum af þessu tagi.

    Fylgigögn

  11. Lögð fram fundargerð öldungaráðs frá 4. apríl 2022. MSS22010024

    Fylgigögn

  12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls sjö mál. MSS22040031

    Fylgigögn

  13. Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir umsagnir um rekstrarleyfisumsóknir veitinga- og gististaða sem veittar hafa verið skv. heimild í viðauka 2.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1020/2019. MSS22040018

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 10:38

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir Heiða Björg Hilmisdóttir

Alexandra Briem Líf Magneudóttir

Hildur Björnsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
borgarrad_2204.pdf