No translated content text
Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2010, fimmtudaginn 11. febrúar, var haldinn 5102. fundur borgarráðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.42. Viðstödd voru, auk borgarstjóra, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson, Gísli Marteinn Baldursson, Kjartan Magnússon, Óskar Bergsson, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram fundargerð framtalsnefndar frá 26. janúar. R10010007
2. Lögð fram fundargerð hverfisráðs Háaleitis og Bústaða frá 2. febrúar. R10010013
3. Lögð fram fundargerð skipulagsráðs frá 10. febrúar. R10010027
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.
4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. í dag, um embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 6 mál. R10010161
5. Lagt fram bréf byggingarfulltrúa frá 3. þ.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., þar sem óskað er heimildar til að beita dagsektum vegna gáms sem stendur í óleyfi á lóðinni nr. 26 við Grensásveg. R10020011
Samþykkt.
6. Lagt fram bréf Lánasjóðs sveitarfélaga frá 24. f.m. varðandi birtingu upplýsinga um lán Reykjavíkurborgar hjá sjóðnum. Jafnframt lögð fram umsögn fjármálastjóra, dags. 9. þ.m.
Samþykkt. R09020102
7. Lagt fram álit Samkeppniseftirlitsins varðandi skipulag, lóðaúthlutanir og samkeppni, dags. 16. desember sl., sbr. bréf Samkeppniseftirlitsins, dags. s.d. R09060130
Vísað til borgarlögmanns til umsagnar.
8. Lögð fram afrit af bréfum slökkviliðsstjóra til stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins frá 28. f.m. og til heilbrigðisráðherra frá 25. september sl. varðandi endurnýjun samnings um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu. R09090169
Bókun borgarráðs:
Borgarráð tekur undir áhyggjur slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins af sjúkraflutningum á svæðinu, en heilbrigðisyfirvöld hafa ekki enn lokið samningagerð við slökkviliðið vegna umræddrar þjónustu. Lausn málsins varðar velferð og öryggi íbúa á höfuðborgarsvæðinu og því brýnt að samkomulag náist sem fyrst, en bráðabirgðasamningur fellur úr gildi í lok þessa mánaðar. Borgarráð fer þess á leit við heilbrigðisyfirvöld að málinu verði lokið sem fyrst, og tryggt að þessi mikilvæga grunnþjónusta haldist óskert.
9. Lagt fram bréf borgarlögmanns frá 2. þ.m. varðandi uppgjör bóta vegna Lækjargötu 8.
Samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum. R04120052
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska bókað:
Málefnaleg rök geta verið fyrir því að Reykjavíkurborg ljúki deilumálum með sátt fremur en fyrir dómstólum. Fulltrúar Samfylkingarinnar og VG geta þó ekki stutt afgreiðsluna og greiðslu 45 milljóna króna enda kom fram við fyrri umfjöllun borgarráðs að hugmyndir um 40 milljónir króna þóttu of háar. Í þessu tiltekna máli er borgin því miður í erfiðri stöðu vegna þeirrar ábyrgðarlausu ráðstöfunar Sjálfstæðisflokksins að kaupa gömlu húsin að Laugavegi 4 og 6 á yfirverði, 580 milljónir króna, í tengslum við meirihlutamyndun flokksins með Ólafi F. Magnússyni. Mikilvægt er að sá fordæmalausi gjörningur gefi ekki tóninn fyrir úrslit erfiðra deilumála um ónýttan byggingarétt sem fella þarf niður í miðborg og Kvos. Þá ábyrgð verður Sjálfstæðisflokkurinn að axla einn þótt borgarbúar sitji uppi með reikninginn.
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks óska bókað:
Sú tillaga borgarlögmanns sem hér hefur verið samþykkt felur ekki í sér mat á verðgildi óbyggðra fermetra eins og minnihlutinn nefnir í bókun sinni. Öðru nær felur niðurstaðan í sér samkomulag í máli er varðar lögbundna bótaskyldu, þar sem eigandi Lækjargötu 8 gat skv. skipulagi frá 1987 rifið umrætt hús og byggt stórhýsi. Sú heimild byggði einnig á einkaréttarlegum samningi frá árinu 1981 og því var það samdóma álit starfshóps lögmanna Reykjavíkurborgar að bótaskylda borgarinnar væri óumdeild og niðurstaðan sem nú er fengin sé ásættanleg fyrir báða aðila. Um nokkurra ára skeið hefur ríkt þverpólitísk samstaða um það á vettvangi borgarstjórnar að af svo mikilli uppbyggingu, á þessum mikilvæga stað, mætti ekki verða og því er það góð niðurstaða að samkomulag um það hafi náðst.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Verndun gamallar götumyndar og menningararfs miðborgarinnar verður ekki metin til fjár. Hún er forsenda góðrar sjálfsmyndar Reykvíkinga og öflugs atvinnulífs í borginni. Allt frá því að Bernhöftstorfunni var árið 1974 forðað undan þeirri steinsteypu- og fermetrafjöldahugsun sem ríkti í borginni þar til meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks var myndaður árið 2008 hefur þurft að standa vaktina gegn skammsýnni efnishyggju og verktakaþjónustu, m.a. hjá kjörnum fulltrúum. Þessa vakt þarf að standa áfram jafnt á Laugaveginum sem við Lækjargötu, í elstu götu borgarinnar, Aðalstræti, og víðar.
10. Lagt fram bréf skrifstofustjóra menningar- og ferðamálaráðs frá 2. þ.m., sbr. samþykktir ráðsins 25. f.m. og 12. október sl., varðandi verklag við styrkveitingar ráðsins. R10020007
Samþykkt.
11. Lögð fram tillaga forsætisnefndar frá 5. þ.m. um að borgarráð beini þeim tilmælum til stjórnmálasamtaka, sem fengu fulltrúa kjörna í borgarstjórn við borgarstjórnarkosningar 2006, að þau geri grein fyrir því hvernig framlögum borgarinnar til þeirra á kjörtímabilinu 2006-2009 hefur verið varið. R08120099
Samþykkt.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Á fundi forsætisnefndar 5. febrúar sl. var lögð fram svohljóðandi tillaga Ólafs F. Magnússonar, sem vísað var til forsætisnefndar á fundi borgarstjórnar 3. febrúar sl. „Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir að öllum borgarstjórnarframboðum sé gert skylt að gera grein fyrir því hvernig styrkjum til þeirra hefur verið varið á þessu kjörtímabili, nánar tiltekið framlög borgarinnar árin 2006-2009“. Forsætisnefnd leggur til við borgarráð að þeim tilmælum verði beint til stjórnmálasamtaka, sem fengu fulltrúa kjörna í borgarstjórn við borgarstjórnarkosningarnar 2006, að gera grein fyrir því hvernig framlögum borgarinnar til þeirra á kjörtímabilinu 2006-2009 hefur verið varið. Ég vænti þess að hinir borgarstjórnarflokkarnir taki F-listann til fyrirmyndar og geri þegar í stað grein fyrir því hvernig styrkjum til þeirra er ráðstafað. Jafnframt vonast ég til að allir borgarstjórnarflokkarnir sameinist um að fella niður styrki til sjálfra sín eða stjórnmálasamtaka í samræmi við tillögur mínar þar um og vilja almennings.
12. Lagt fram álit samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 4. þ.m. varðandi greiðslu framlags Reykjavíkurborgar á grundvelli 5. gr. laga nr. 162/2006 vegna F-lista Frjálslyndra og óháðra. R08120099
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Á forsíðu Fréttablaðsins í fyrradag er því haldið fram að F-listi Frjálslyndra og óháðra hafi fengið 10#PR af 130 milljón króna framlagi borgarinnar til stjórnmálasamtaka vegna áranna 2007-2010. Fréttina má skilja sem svo að borgarstjórnarflokkur F-lista Frjálslyndra og óháðra að hafi fengið kr. 13 milljónir í styrki frá borginni til rekstrar borgarstjórnarframboðsins. Hið sanna er að árið 2007 fór allt framlagið til skrifstofu Frjálslynda flokksins sem nú er gjaldþrota. Ekki ein einasta króna af framlagi borgarinnar ætlað borgarstjórnar- eða sveitarstjórnarframboði F-lista, rann til framboðsins. Ólafi F. Magnússyni oddvita F-listans var því ætlað að greiða alla reikninga vegna borgarstjórnarflokksins úr eigin vasa. Það var ekki fyrr en 20. júní árið 2008, sem borgarmálafélag F-lista fékk fyrstu og einu greiðsluna frá borginni kr. 3,4 m.kr. inn á reikning sinn. Ólafur F. Magnússon hefur lagt fram í borgarráði alla reikninga borgarmálafélagsins vegna ársins 2008 og 2009, en seinna árið fékk borgarstjórnarflokkur F-lista engin framlög frá borginni. Skylt er að taka fram að borgarstjórnarflokkur F-lista hefur frá því að hann var myndaður árið 2002 samanstaðið af óháðum fulltrúum og fulltrúum Frjálslynda flokksins. Allir kjörnir fulltrúar F-listans í 9 fagráðum borgarinnar, nema Ólafur F. Magnússon, sem situr í borgarstjórn, borgarráði, forsætisnefnd, umhverfisráði og menningarráði og Magnús Skúlason, sem situr í skipulagsráði eru meðlimir í Frjálslynda flokknum og sitja í kjördæmastjórnum Frjálslynda flokksins í borginni, sem hafa ályktað hart gegn röngum fullyrðingum formannsins, Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Það er því hrein fjarstæða að borgarmálafélag F-lista sé einkahlutafélag Ólafs F. Magnússonar. Í borgarmálafélaginu sitja m.a. eftirtaldir meðlimir Frjálslynda flokksins: Kjartan Eggertsson, fulltrúi í framkvæmdaráði og menntaráði og Ásdís Sigurðardóttir, fulltrúi í mannréttindaráði, en þau skipa ásamt Ólafi stjórn borgarmálafélagsins. Gunnar Hólm Hjálmarsson er fulltrúi F-lista í velferðarráði, Egill Örn Jóhannesson, fulltrúi í íþrótta- og tómstundaráði og Sigurlaug Sveinbjörnsdóttir, fulltrúi í leikskólaráði. Allir þessir meðlimir Frjálslynda flokksins sitja í kjördæmastjórnum Frjálslynda flokksins í borginni. Í 10 hverfisráðum borgarinnar sitja m.a. Sveinn Valgeirsson, Guðsteinn Haukur Barkarson og Sigurður Þórðarson, allir meðlimir Frjálslynda flokksins og er Sigurður formaður stjórnar kjördæmaráðs Frjálslynda flokksins í Reykjavík norður. Kjartan Eggertsson, sem áður er nefndur, er formaður stjórnar kjördæmaráðs Frjálslynda flokksins í Reykjavík suður. Skýrara getur það varla verið að borgarmálafélag F-lista er ekki einkahlutafélag Ólafs F. Magnússonar. Eftir fund borgarstjóra og borgarlögmanns með Guðjóni Arnari Kristjánssyni rétt fyrir jól sendi borgarlögmaður bréf til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, þar sem hún leitar álits ráðuneytisins um hvort ekki beri að greiða styrk borgarinnar ætlaðan borgarstjórnarframboði F-listans til Frjálslynda flokksins á landsvísu. Það myndi þýða að ekki ein einasta króna rynni til borgarstjórnarflokksins og þar með borgarmálanna. Fjármunirnir færu allir í að greiða óráðsíu Frjálslynda flokksins. Þetta gengur þvert á álit Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., sem áður sat í embætti borgarlögmanns, frá í desembermánuði árið 2008, um að framlög til stjórnmálasamtaka í borginni skuli renna til framboða til sveitarstjórnar, eins og segir í lögum.
13. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga Ólafs F. Magnússonar frá 4. þ.m.:
Borgarráð samþykkir að á meðan ekki hefur verið að fullu gengið frá úthlutun styrkja borgarinnar til stjórnmálasamtaka vegna ársins 2009 verði styrkir vegna ársins 2010 ekki greiddir út. R08120099
Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks leggja fram svohljóðandi frávísunartillögu:
Tillögunni er vísað frá með vísan til niðurstöðu samgöngu- og sveitarstjórnar-ráðuneytisins og þess að tillaga Vinstri grænna um stuðning til stjórnmálaflokka er til meðferðar á vettvangi forsætisnefndar.
Frávísunartillagan samþykkt með 4 samhljóða atkvæðum.
Ólafur F. Magnússon óskar bókað:
Ég tel það fullkomlega óverjandi ef borgarstjórnarflokkar fjórflokksins halda áfram að úthluta sjálfum sér tugmilljóna króna styrkjum frá borgarbúum, sem þeir einir sitja að, vegna ársins 2010.
14. Lögð fram bréf framkvæmdastjóra íþrótta- og tómstundasviðs frá 5. þ.m., sbr. samþykkt íþrótta- og tómstundaráðs s.d., fræðslustjóra frá 8. s.m., sbr. samþykkt menntaráðs 27. f.m., og sviðsstjóra leikskólasviðs frá 8. þ.m., sbr. samþykkt leikskólaráðs 20. f.m., varðandi stofnun skóla í Úlfarsárdal sem sameinar í eina stofnun leikskóla og grunnskóla ásamt frístundastarfi fyrir börn. R10020024
Samþykkt.
15. Lagt fram bréf borgarstjóra frá 10. þ.m. um skipan starfshóps sem móti tillögur um framtíðarnotkun Höfða. R09090171
Samþykkt. Hópinn skipa Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson formaður, Sigrún Magnúsdóttir og Guðrún Erla Geirsdóttir.
16. Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar leggja fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er upplýsinga um hvað líði áhættugreiningu vegna stöðu Orkuveitu Reykjavíkur og upplýsinga um stöðu framkvæmda, orkusölusamninga og lánsfjármögnunar þeirra. R09120028
Fundi slitið kl. 13.20
Óskar Bergsson
Björk Vilhelmsdóttir Dagur B. Eggertsson
Gísli Marteinn Baldursson Kjartan Magnússon
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson Þorleifur Gunnlaugsson