Ýmsar leiðir færar til að komast í aukna virkni

Frummælendur á velferðarkaffi 27. janúar 2023

Velferðarkaffi, opinn fundur velferðarráðs Reykjavíkurborgar, var vel sótt á föstudaginn. Þar var fjallað um ólík og fjölbreytt úrræði sem standa ungu fólki til boða sem af einhverjum ástæðum hefur ekki náð að fóta sig í lífinu. Uppúr stóðu erindi þriggja ungra einstaklinga, sem deildu sínum sögum með viðstöddum og lýstu sinni leið að aukinni virkni og betri líðan.

Um það bil 6% ungs fólks á aldrinum 18–24 ára er hvorki í vinnu, námi eða starfsþjálfun.  Markmiðið með velferðarkaffi var að ræða þarfir þess hóps, skoða hvað er vel gert og virkar en einnig hvað þarf að gera betur. Fundurinn var haldinn í Virknihúsi en þar eru hin ýmsu virkniúrræði Reykjavíkurborgar skipulögð, til dæmis Grettistak, Bataskólinn, Kvennasmiðjan, IPS-atvinnuráðgjöf, verkefnið Tinna, og Vinnu- og virknimiðlun. Í fyrra tóku 584 einstaklingar þátt í þeim úrræðum. Þar að auki rekur Reykjavíkurborg Hitt húsið sem vinnur mikilvægt starf fyrir ungt fólk.

Sögðu frá sinni reynslu og bentu á leiðir til úrbóta

Reykjavíkurborg á einnig í samstarfi við frjáls félagasamtök sem sinna bjóða virkniúrræði og hafa ólíkar nálganir á sína þjónustu. Forsvarsmenn þriggja þeirra, þau Sigurþóra Bergsdóttir í Berginu, Heiða Kristín Harðardóttir hjá Fjölsmiðjunni og Björk Vilhjálmsdóttir hjá Tækifærinu héldu erindi á velferðarkaffi. Þar að auki sagði Breki Bjarnason, atvinnuráðgjafi frá Hinu húsinu, frá verkefninu Vítamín. Síðast en ekki síst var mikilvægt að heyra raddir þriggja notenda mismunandi þjónustu – þeirra Ingiríðar Halldórsdóttur, Alexanders Teits Valdimarssonar og Amadeusz Korzeniewski. Af ólíkum ástæðum hafa þau öll verið í lengri tíma utan vinnu eða náms en fundið sína leið til aukinnar virkni. Þau gáfu dýrmæta innsýn í hvaða þjónusta hefur nýst þeim og hvernig megi gera betur, til að færra ungt fólk lendi í sömu stöðu.

Velferðarkaffið í heild má horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.