Deiliskipulag fyrir Vogabyggð - svæði 2 var samþykkt í borgarráði 30. júní. Gert er ráð fyrir að á öllu skipulagssvæði Vogabyggðar verði 1.100 – 1.300 íbúðir og um 105.000 fermetrar atvinnuhúsnæði.Tillagan fer á næstunni í lögformlegt auglýsingaferli.
Deiliskipulag fyrir Vogabyggð - svæði 2 var samþykkt í borgarráði 30. júní. Það er hluti skipulagssvæðis Vogabyggðar, sem afmarkast af Sæbraut, Kleppsmýrarvegi, Elliðaárósum og frárein Miklubrautar að Sæbraut. Tillagan fer á næstunni í lögformlegt auglýsingaferli ásamt breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur.
Staðarandi Vogabyggðar mun einkennast af þéttu borgarumhverfi í mannlegum mælikvarða, blöndun byggðar, íbúðar- og atvinnuhúsnæðis með verslun og þjónustu og fallegum götum og torgum. Uppbygging svæðisins felst í nýbyggingum og varðveislu nokkurra fyrirliggjandi bygginga sem fá nýtt hlutverk. Áhersla er á randbyggð, sem er samfelld 3-5 hæða húsaröð þétt við götu og myndar borgarmiðað gatnakerfi fyrir hæga og örugga umferð allra ferðamáta. Þetta eru umhverfisleg gæði sem stuðla að góðu og fjölbreyttu samfélagi.
Borgarbragur og nálægð við náttúru
Skipulag Vogabyggðar vinnur með samspil byggðar og opinna svæða, sem og verndar einstök svæði vegna lífríkis, jarðfræði, minja eða annarra þátta sem einkenna þau og gefa þeim sérstöðu í borginni. Þannig verður hverfið eftirsóttur valkostur fyrir fólk sem kýs að búa og starfa í umhverfi sem einkennist af hvoru tveggja í senn, borgarbrag og nálægð við náttúru.
Reykjavíkurborg, í samstarfi við helstu lóðarhafa á svæðinu, efndi til hugmyndasamkeppni um skipulag Vogabyggðar og lá niðurstaða fyrir 23. janúar 2014. Tvær tillögur voru valdar til verðlauna. Á grundvelli beggja verðlaunatillagna unnu skipulagshöfundarnir, Teiknistofan Tröð, jvantspijker + FELIXX frá Hollandi í samstarfi við Reykjavíkurborg og helstu hagsmunaaðila á svæðinu rammaskipulag fyrir Vogabyggð, strandsvæðið og aðliggjandi útivistarsvæði.
Tilgangur deiliskipulagsins er að endurnýja svæði, sem þjónað hefur hlutverki sínu sem iðnaðar- og athafnasvæði, til að mæta aukinni þörf fyrir íbúðir og þjónustumiðaðan atvinnurekstur. Svæðið er hluti af stærra þróunarsvæði við Elliðaárvog og Ártúnshöfða í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 um að endurmeta, bæta og þétta miðlæg svæði.
Íbúðir og atvinnuhúsnæði
Í janúar sl. var skrifað undir samninga um endurbyggingu á þessu svæði sem nú nefnist Vogabyggð. Samningarnir ná til hluta Vogabyggðar, svæðis 2, en stærstu lóðarhafar þar eru Gámakó og Vogabyggð dótturfyrirtæki Hamla, sem eru í eigu Landsbankans.
Miðað við þær skipulagsáætlanir sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að á öllu skipulagssvæði Vogabyggðar verði 1.100 – 1.300 íbúðir og um 105.000 fermetrar atvinnuhúsnæði. Fjórðungur íbúðanna sem þarna rísa verða undir leigu- og búseturéttaríbúðir samkvæmt samningum. Fjöldi íbúða í hverfinu kallar á byggingu grunn- og leikskóla, en miðað er við að ráðist verði í þær framkvæmdir samhliða uppbyggingu íbúðabyggðar.
Skipulag svæðisins gerir ráð fyrir metnaðarfullri uppbyggingu með áherslu á góða hönnun og vandaðar útfærslur. Í Vogabyggð eru áformaðar framkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar og Veitna við gerð gatna, torga, stíga, strandstíga, landfyllinga, grjótvarna og nýrra stofnlagna, útsýnis- og göngupalla í samræmi við hugmynd að nýju deiliskipulagi. Auk þess er gert ráð fyrir göngubrú yfir Ketilbjarnarsíki, sem tengir íbúðarbyggðina við hverfisgarð og skólasvæðið við Elliðaárvog.
Áherslu á lífsgæði og lýðheilsu
Stefna deiliskipulagsins byggir á meginmarkmiðum um sjálfbæra þróun og eru þrenns konar; umhverfisleg, hagræn og samfélagsleg. Markmiðið er vistvænt og heilbrigt borgarumhverfi með áherslu á lífsgæði og lýðheilsu. Mörkuð er stefna um vistvænar samgöngur, sjálfbæra nýtingu orku og auðlinda, gróðursæld og úrgangsstjórnun sem felur í sér þægilegri flokkun og endurvinnslu. Vogabyggð skal einkennast af þéttri byggð og fjölbreyttri blöndu atvinnu- og íbúðarhúsnæðis í samspili við strandsvæði Elliðaárvogs.
Líklegt er að deiliskipulag Vogabyggðar – svæði 2 taki gildi á haustdögum.
Tengill