Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær að sjö metra hárri vatnsrennibraut verði bætt við nýja útisundlaug sem verður byggð í Úlfarsárdal
Nýja útisundlaugin í Úlfarsárdal er staðsett í miðjum dalnum og verður hún samtengd menningarmiðstöð og bókasafni hverfisins sem tengir skólann og íþróttamannvirki Fram.
Upphafleg tillaga að útisundlauginni gerði ekki ráð fyrir vatnsrennibraut við laugina, en ÍTR sem rekur laugina hefur fengið ábendingar um að rennibrautin muni auka til muna afþreyingargildi nýju laugarinnar. Sundlaugin verður því til muna fjölskylduvænni í hjarta íbúðabyggðarinnar í Úlfarsárdal.
Tillaga VA arkitekta, sem teikna sundlaugina og vatnsrennibrautina, gerir ráð fyrir braut sem byrjar í um sjö metra hæð og tilheyrandi tröppuhúsi og lendingarlaug sunnan við bygginguna. Stækkun á sundlaugarsvæðinu verður um 200 fermetrar.
Starfshópi um uppbygginguna verður falið að láta vinna nánari útfærslu á rennibraut og lendingarlaug í samráði við íþrótta- og tómstundasvið.
Frumkostnaðaráætlun vegna rennibrautar ásamt tilheyrandi stækkun á sundlaugarsvæði er 200 mkr. á verðlagi í júní 2019.
Framkvæmdir við sundlaugina eru þegar hafnar.