Umhverfisvitund, náttúrulæsi og listsköpun í leikskólum

Skóli og frístund

""

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráð voru afhent á árlegri leikskólaráðstefnu á Hilton hóteli í morgun. Verðlaunin, sem voru veitt í 12. sinn, hlutu verkefni á sviði umhverfisfræðslu, útináms og listsköpunar en auk þeirra voru veitt einstaklingsviðurkenning fyrir skapandi þróunarstarf.

Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer í leikskólum borgarinnar. 

Ella endurvinnsludúkka

Leikskólinn Fífuborg hlaut verðlaun fyrir verkefnið Umhverfismennt - Ella endurvinnsludúkka. Brúðan Ella er fulltrúi Grænfánaverkefnisins í Fífuborg og verkefni hennar er að stuðla að umhverfismennt barnanna með því að fræða þau um umhverfismál. Í umsögn dómnefndar kom fram að Ella er lýðræðislegt verkefni og mikilvægt á okkar tímum að gera börn meðvituð um umhverfisvernd. Verkefnið er einfalt og auðvelt er fyrir aðra leikskóla að nýta hugmyndina.

Flakkarinn

Leikskólinn Hof hlaut verðlaun fyrir útinám eða Flakkarann. Flakkarinn er skipulagt útinám þar sem börnin fara reglulega út yfir veturinn og leysa þrautir úti í náttúrunni. Í mati dómnefndar kom fram að hver ferð og hvert verkefni hefur skýran tilgang í kennslu og byggist á faglegum grunni.

Tjarnarleiðin

Leikskólinn Tjörn hlaut verðlaun fyrir verkefni sem kallast Tjarnarleiðin. Markmiðið verkefnisins er að efla verkstæðisvinnu/stöðvavinnu í anda Reggio Emilia og er vinnan leidd af öllu starfsfólki skólans. Tilgangurinn er að auka sjálfstæði barna í listsköpun og hugmyndavinnu. Börnin gerðu m.a. stuttmyndir og skipuðu sér sess sem leikarar og leikstjórar, avant-garde kórahópur myndaðist á tímabili og hugmyndaflæðið náði út fyrir skólann því sköpunin af vinnunni smitaðist inn á heimili barnanna.

Nýjasta viðbóti Tjarnarleiðarinnar er jóga og núvitund þar sem börnin gera hópsáttmála um siði og venjur í tímanum. Að mati dómnefndar er verkefnið hvatning fyrir aðra leikskóla í starfi með leikskólabörnum, að velja fjölbreytileika og aldursblöndun. Nefndin var einnig hrifin af notkun stafrænnar tækni og meðvitund foreldra um verkefnið.

Skapandi leikskólastarf

Að lokum hlaut Arndís Gísladóttir viðurkenningarskjal  fyrir: Skapandi starf í Dalskóla/leikskólahluta. Hún hefur undanfarin ár unnið að miklu þróunarstarfi í skapandi vinnu með börnum. Arndís vinnur allaf að heilindum og fagmennsku að þessum verkefnum og drífur verkin áfram með stakri ró og hlýhug. Arndís vinnur metnaðarfullt starf og hún er leikskólakennari sem hefur áhrif á sínum vinnustað.

Í dómnefnd sátu fulltrúar skóla- og frístundaráðs þau Pawel Bartoszek formaður, Alexandra Briem, Katrín Atladóttir og Sigríður Arndís Jóhannsdóttir. En auk þeirra sátu í dómnefnd, Þórhildur Löve (fulltrúi félags foreldra leikskólabarna), Helga Ingimarsdóttir (fulltrúi félags leikskólakennara), Sigurður Sigurjónsson (fulltrúi félags stjórnenda leikskóla) og Sigríður Marteinsdóttir (starfsmaður á skóla- og frístundasviði).