Umferðarmerki komin upp við göngugötur

""

Búið er að setja upp skilti til að minna vegfarendur á göngugötur í miðborginni en hluti Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs er orðinn að varanlegum göngugötum.

Skiltin eru á nokkrum stöðum en eftirfarandi götur eru nú varanlegar göngugötur eftir að deiliskipulag var staðfest: Laugavegur frá Klapparstíg að Þingholtsstræti, Skólavörðustígur milli Bergstaðastrætis og Laugavegar og Vegamótastígur frá Laugavegi að Grettisgötu.

Laugavegur hefur fest sig í sessi sem göngugata síðustu ár. Samkvæmt árlegum könnunum er meirihluti borgarbúa ánægður með göngugötur í miðbænum.

Göturnar eru opnar fyrir akstur vegna vöruafgreiðslu virka daga frá kl. 7.00 til 11.00 og laugardaga frá kl. 8.00 til 11.00.