Tvær nýjar andategundir verpa við Reykjavíkurtjörn

Umhverfi

""
Varp anda við Reykjavíkurtjörn er nú í algleymingi og virðist ætla að vera með betra móti í ár eftir niðursveiflu síðustu ára. Merkustu tíðindin eru þó að tvær tegundir hafa verpt í fyrsta sinn frá því athuganir hófust. Rauðhöfðaönd sást með unga í Friðlandinu í Vatnsmýri og á stóru Tjörninni sást tíguleg toppandarkolla með þrjá litla unga. Á síðustu tveimur árum hafa því þrjár nýjar tegundir bæst við því urtönd verpir nú í Vatnsmýrinni þriðja sumarið í röð.
Tvær nýjar andategundir verpa nú við Reykjavíkurtjörn í fyrsta sinn. Þetta kom í ljós í reglulegu eftirliti á fuglalífi Tjarnarinnar og Vatnsmýrinnar í dag. Rauðhöfðaönd sást með tvo vikugamla unga við Húsatjörn í Friðlandinu í Vatnsmýri. Þá sást toppandarkolla með þrjá tiltölulega nýklakta unga á Norðurtjörn í dag. Ekki er vitað til þess að þessar tegundir hafa verpt áður á þessum slóðum. Urtönd verpti í fyrsta sinn í Vatnsmýrinni sumarið 2014 og hefur gert það árlega síðan þá. Gargönd hefur einnig verpt reglulega síðustu þrjú ár í Vatnsmýri eftir óreglulegt varp.
 
Stokkönd, skúfönd og duggönd eru reglulegir varpfuglar við Reykjavíkurtjörn og virðist varp þeirra vera hægt og bítandi að rétta úr kútnum eftir mögur ár undanfarið. Sjá má allmargar kollur þessara þriggja tegunda með unga á Norðurtjörn þessa dagana. Hins vegar verptu engar æðarkollur við Reykjavíkurtjörn í ár og mögulegt að aðstæður fyrir varp æðarfugla við Reykjavíkurtjörn, séu ekki lengur fýsilegar. Tjörnin er ekki lengur hálfsölt og þar sem æðarfuglar forðast almennt að verpa við ferskt vatn má álykta að erfitt mun reynast fyrir þá að verpa í miklum mæli. Mikill þróttur er í kríuvarpinu fjórða árið í röð og má nú fylgjast með fyrstu kríuungunum taka sig á flug í Friðlandinu í Vatnsmýri. Í Friðlandinu hafa auk kríu og áðurnefndra andategunda einnig sést verpa grágæs, hettumáfur, tjaldur, sandlóa, hrossagaukur og stelkur auk þess sem spörfuglar eins og skógarþröstur, þúfutittlingur, stari og maríuerla verpa í og við Friðlandið.
 
Farið var í að bæta kjörlendi fyrir fugla í Friðlandinu í Vatnsmýri fyrir um fimm árum og m.a. breytt flæði vatns um svæðið. Grafnir voru nýjir skurðir og gróður- og jarðvegur fjarlægður. Í kjölfarið sneri krían aftur í miklum mæli og fleiri endur hófu varp þar en áður. Einnig mátti sjá aukningu á votlendis- og vatnagróðri. Þessar breytingar hafa haft áhrif í Tjarnirnar norðan Hringbrautar einnig og í rannsókn á lífríki þeirra í fyrrasumar kom í ljós mikill fjöldi hornsíla sem og mikil aukning á vatnagróðri, einkum háplantna eins og nykra sem og grænþörunga. Aukning á slíkum gróðri ætti að hafa jákvæð áhrif á vistkerfi Tjarnarinnar og þannig m.a. bæta skilyrði fyrir smádýr sem eru mikilvæg fæða fyrir endur. Eins og margir hafa án efa tekið eftir hefur aukning á vatnagróðri haldið áfram í sumar og eru nú bæði Norðurtjörn og Suðurtjörn nær þaktar nykru. Lág vatnsstaða vegna þurrkatíðar gerir gróðurinn enn sýnilegri. 
 
Það er því margt óvænt að eiga sér stað við Reykjavíkurtjörn og verður að teljast merkilegt að svo fjölbreytt fuglalíf geti þrifist í miðborg Reykjavíkur innan um ys og þys borgarlífsins.