Tré ársins er rauðgreni í Elliðaárhólma

Umhverfi

""

Skógræktarfélag Íslands tilkynnti í dag um val á tré ársins 2019. Fyrir valinu varð rauðgreni í Elliðaárhólma.

Tilkynnt var um valið á tré ársins við hátíðlega athöfn í Elliðaárhólma síðdegis í dag og tók Dagur B. Eggertsson við viðurkenningarskjali frá Skógræktarfélagi Íslands um valið. Ekki er vitað um nákvæman aldur rauðgrenisins að sögn Jónatans Garðarssonar formanns Skógaræktarfélagsins en það er líklega 50 – 60 ára gamalt.

Tréð var mælt nákvæmlega og var það sléttir tólf metrar á hæð. Það stendur í miðjum Elliðaárhólma ásamt nokkrum öðrum trjám af sömu tegund sem öll eru svipuð á hæð og sum hærri en það tré sem varð fyrir valinu. Rauðgrenið sem varð fyrir valinu ber þó af í formi og fegurð.

Best er að nálgast tréð með því að velja stíg niður að göngubrú sem er fyrir neðan Rafveituheimilið. Gengið er nærri því inn að miðjum hólmanum en þar er þessi fallegi lundur þar sem rauðgreni var plantað fyrir rúmri hálfri öld.

Við athöfnina minntist borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson, ýmissa ævintýra í Elliðaárdalnum úr barnæsku sinni en hann ólst upp í Árbænum. Hann sagði Elliðaárdalinn vera algjört ævintýrasvæði. Rauðgrenið gæti orðið mörg hundruð ára gamalt og yrði því á sínum stað fyrir margar kynslóðir.

Við athöfnina spilaði Lára Rúnarsdóttir tónlistarkona tvö lög af nýrri plötu sem nefnist Rótin. 

Skógræktarfélag Íslands stendur fyrir árlegu vali á tré ársins.