Almenningi gefst nú kostur á því að kynna sér tillögur í hugmyndasamkeppni um skipulag Vogabyggðar í Reykjavík, en það er landsvæðið í kringum Elliðavog. Valdar voru fimm tillögur að undangengnu forvali og eru þær til sýnis í Þjónustuveri Reykjavíkur, Borgartúni 12 - 14.
Tillögurnar eru fimm en þær eru afrakstur úr hugmyndasamkeppni sem Reykjavíkurborg hélt í samstarfi við Arkitektafélag Íslands og Hömlur ehf. Auglýst var eftir þátttakendum í lok október á síðasta ári. Dómnefnd vinnur nú að því að velja eina af þessum tillögum sem verðlaunatillögu og mun hún skila niðurstöðum fljótlega.
Um er að ræða lokaða hugmyndasamkeppni að undangengnu forvali. Þeir aðilar sem voru valdir til þátttöku voru Teiknistofan Tröð, Arkís, THG Arkitektar, Stúdíó Grandi, og jvasntpikjer + Felix frá Hollandi. Skilafrestur á tillögum var til 10. janúar.
Hugmyndasamkeppnin snýst um að útfæra hugmyndir og tillögur að skipulagi svæðisins í samræmi við markmið Aðalskipulags Reykjavíkur 2010–2030 en þar er gert ráð fyrir nýrri blandaðri og vistvænni byggð íbúða og atvinnuhúsnæðis á svæðinu sem samkeppnin tekur til.
Hægt er að kynna sér tillögurnar og skoða uppdrætti og greinargerðir í PDF skjölunum hér að neðan en einnig er hægt að skoða tillögurnar í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, á meðan dómnefnd er að störfum. Fljótlega eftir að dómefnd skilar niðurstöðum verður haldin sýning á keppnistillögum og verða tillögurnar þá sýndar undir höfundarnafni, en nafnleynd hvílir á tillögum þar til dómnefnd hefur skilað áliti sínu.
Tillaga 1, auðkennd 35412: Skoða tillögu (PDF) – greinargerð (PDF)
Tillaga 2, auðkennd 25512: Skoða tillögu (PDF) –
Tillaga 3, auðkennd 01020: Skoða tillögu (PDF) – greinargerð (PDF)
Tillaga 4, auðkennd 10014: Skoða tillögu (PDF) – greinargerð (PDF)
Tillaga 5, auðkennd 19360: Skoða tillögu (PDF) – greinargerð (PDF)