Theódóra Guðrún Rafnsdóttir er Reykvíkingur ársins 2012
Theodóra Guðrún Rafnsdóttir hefur verið útnefnd Reykvíkingur ársins 2012. Hún hefur starfað sem flokkstjóri með vinnuhópi ungmenna með skerta starfsgetu við gróðursetningu og fegrun skóglendisins í Breiðholtshvarfi og Arnarbakka í meira en tvo áratugi. Enn fremur hefur hún farið með vinnuhópa sína í Elliðaárhólma til að hreinsa þá og fegra. Theodóra hefur jafnframt starfað í meira en aldarfjórðung sem grunnskólakennari í Seljaskóla og kennir þar yngstu börnunum bókleg fög og leikfimi.
Í sumar vinnur Theódóra með 14 ungmennum með skerta starfsgetu í Breiðholtshvarfi en þar er einnig vinnuhópur ungmenna á vegum Hins Hússins. Vinnumálastofnun velur í hópinn sem starfar á vegum garðyrkjudeildar umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar. Hópurinn vinnur að því að hreinsa skóglendið, lagfæra göngustíga og grisja skóginn svo hann verði greiðfær fyrir almenning.
Sagt er að Theodóra þekki hvert tré í skóginum og hún er öðrum góð fyrirmynd að því leyti til að hún fer reglulega um skóglendið og heldur því snyrtilegu allt árið um kring.
Sjálf segir Theódóra að starfið í Breiðholtshvarfi haldi í henni lífinu yfir veturinn. „Fólk ætti bara að koma í Breiðholtshvarf og fá sér göngutúr um skóglendið. Þetta er eitt best geymda leyndarmálið í Reykjavík,“ segir hún.
Í ábendingu sem Reykjavíkurborg fékk um Theódóru er henni lýst sem kraftaverkakonu sem hafi unnið ómetanlegt starf í þágu ungmenna með skerta starfsgetu. Undir hennar stjórn hafi þau náð að mynda vinatengsl, fengið frábæra fræðslu, lært að vinna í skóginum og öðlast samfélagslega ábyrgð. Á hverju sumri fer Theodóra með hópinn í alls kyns menningar- og fræðsluferðir og gefur sér tíma til vinna með unglingunum úr því sem þau upplifa og sjá. Hún þykir óvenju jákvæð manneskja, mikill mannþekkjari, opin og skemmtileg og forkur til allra verka. Að auki hefur Theodóra ástundað bíllausan lífsstíl um áratuga skeið. Hún gengur eða hjólar til vinnu sinnar og tekur Strætó ef hún þarf að fara um lengri veg á höfuðborgarsvæðinu.
Theódóra opnaði Elliðaárnar í morgun ásamt Jóni Gnarr, borgarstjóra í Reykjavík. Hennar eina reynsla af veiðiskap var sem barn á Ísafirði þar sem hún ólst upp. Þar veiddi hún marhnút á bryggjunni. Í morgun setti hún í maríulaxinn í Fossinum eftir 48 sekúndur og landaði honum fimm mínútum síðar með dyggri aðstoð Ásgeirs Heiðars leiðsögumanns. Henni fannst veiðiskapurinn spennandi og renndi strax aftur og landaði myndarlegum fimm punda hæng.