Sýnum tillitsemi og þolinmæði

Covid-19 Umhverfi

""

Mikið hefur mætt undanfarið á starfsfólki borgarinnar sem starfar við þjónustu sem við þurfum öll á að halda eins og sorphirðu, mokstri gatna og göngustíga, umhirðu í borgarlandinu og að svara í síma og tölvupósti. Reykjavíkurborg hefur þurft að bregðast við með margvíslegum hætti til að tryggja öryggi starfsfólks og borgarbúa allra. Reynt er eftir besta megni að halda uppi eðlilegri þjónustu en sökum viðbúnaðar og sóttvarna vegna COVID-19 er það ekki alltaf mögulegt.

Endurskipulagning vegna heimsfaraldurs

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar heldur úti allri sinni starfssemi en hefur þurft að endurskipuleggja sig eftir fyrirmælum almannavarna. Þjónustan birtist því stundum með öðrum hætti og getur tekið lengri tíma. Allir leggja sitt af mörkum. Borgarbúar þurfa að sýna þessum óvenjulegum aðstæðum skilning og þolinmæði á meðan heimsfaraldurinn stendur yfir.

Mikilvægt er að týna ekki gleðinni en rannsóknir hafa sýnt að jákvæðar tilfinningar geta eflt ónæmiskerfið eins og Embætti landlæknis hefur bent á.

Við stöndum öll saman vörð um borgina okkar og komum vel fram hvert við annað. Gott er að sýna kurteisi og skilning á stöðu mála á þessum tímum. Takk fyrir að taka tillit til fólksins sem vinnur þessi mikilvægu störf.