Sýningin The Art of Being Icelandic

Mannlíf Menning og listir

""

Sýningin The Art of Being Icelandic verður haldin í Ráðhúsi Reykjavíkur frá 27. júní til 27. júlí. Sýningin beinir sjónum að íslenskum bókmenntum í þýðingum og umgjörð hennar er íslensk hönnun. Ráðhús Reykjavíkur er opið frá kl. 8 til 19 virka daga og frá kl. 12 til 18 um helgar. 

 

The Art of Being Icelandic sýningin er nú haldin í annað sinn í Tjarnarsal Ráðhúss en um er að ræða samstarfsverkefni Ráðhússins og Reykjavíkur Bókmenntaborgar UNESCO

Á sýningunni verður skáldskapur af öllum toga í brennidepli, svo og bækur um Ísland sem gefnar eru út hér á landi. Verk íslenskra höfunda koma nú út í þýðingum í vaxandi mæli víða um heim. 

Þá gefst gestum færi á að skoða úrval vandaðra húsgagna frá Syrusson Hönnunarhúsi. Húsgögnin eru velflest íslensk hönnun og framleiðsla þar sem mikil áhersla er lögð á fágun og fagmennsku við smíðina.   

Kvikmyndin Heild eftir Pétur Kristján Guðmundsson verður sýnd á sýningunni. Pétur Kristján lenti í slysi árið 2010 og lamaðist fyrir neðan mitti. Hann var þá þegar að útfæra hugmynd um að gera kvikmynd um náttúru Íslands. Þrátt fyrir að vera bundinn hjólastól lét hann draum sinn rætast og hefur unnið að kvikmyndinni í á fjórða ár. Í kvikmyndinni fá áhorfendur að kynnast Íslandi frá nýjum sjónarhóli í gegnum augu hátæknikvikmyndatökuvéla; jafnt stöðum og landslagi sem flestir þekkja vel, sem földum gimsteinum sem skipta þúsundum og fáir hafa séð. Sýnishorn úr myndinni Heild

Mikill fjöldi erlendra ferðamanna kemur í Ráðhúsið yfir sumartímann,  meðal annars  til að skoða Íslandskortið sem þar er, og gefst þessum gestum nú einnig kostur á að kynna sér bókmenntir sögueyjunnar í umgjörð íslenskrar hönnunar.

Sýningin stendur yfir frá 27. júní til 27. júlí. Ráðhús Reykjavíkur er opið frá kl. 8 til 19 virka daga og frá kl. 12 til 18 um helgar.