Stelpur rokka í Reykjavík

Stjórnsýsla Skóli og frístund

""

„Markmið samtakanna Stelpur rokka! er að leiðrétta kynjahalla í íslensku tónlistarlífi og vera leiðandi afl í jafnréttismiðuðu tómstundastarfi á Íslandi,“ segir meðal annars í samstarfssamningi Stelpur rokka! og Reykjavíkurborgar sem undirritaður var nú í vikunni. 

Kjarni starfseminnar eru rokkbúðir fyrir 12 – 16 ára stúlkur þar sem þær læra á hljóðfæri, spila í hljómsveit og semja. Verkefnið fellur vel að mannréttindastefnu borgarinnar sem m.a. kveður á að börnum og unglingum sé veitt hvatning til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi  hefðbundinna kynjamynda.  Stelpur rokka! hafa einnig haldið rokkbúðir fyrir konur 20 ára og eldri og stefna á að bjóða sem flestum aldurshópum upp á að rokka í framtíðinni.

Reykjavíkurborg styður Stelpur rokka! með beinum fjárframlögum samkvæmt samþykkt borgarráðs og er árlegur styrkur 2,5 milljónir 2015 – 2017. Stelpur rokka! munu vekja athygli á Reykjavík í kynningum sínum hérlendis sem erlendis.  Sérstakur samráðshópur verður um framkvæmd samningsins og leiðbeinendum á vegum Stelpur rokka! verður boðið að sækja fræðslunámskeið.

Stelpur rokka! hafa starfað í þrjú ár og hafa samtökin vakið athygli á miklum kynjahalla í íslensku tónlistarlífi og aukið vægi kvenna innan þess. Áhersla hefur verið lögð á að ná til kvenna í minnihlutahópum hvers konar, s.s. vegna uppruna, kynhneigðar, kyngervis og annarra þátta.  Rokkbúðirnar eru m.a. opnar transkrökkum.

Um helgina verða Rokkbúðir í Miðbergi á vegum Stelpur rokka! ætlaðar stelpum á aldrinum 13 – 16 ára.  „Í rokkbúðunum lærir þú á hjóðfæri, tekur þátt í spennandi vinnusmiðjum, kynnist töff tónlistarkonum og spilar lag á hörku lokatónleikum. Námskeiðið kostar 1.000 kr.“ segir í auglýsingu og enn munu nokkur pláss vera laus.  Nánari upplýsingar um Rokkbúðir í Breiðholti 2015

 

Tengt efni: