Starfshópur um móðurmálskennslu fyrir börn af erlendum uppruna

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð hefur samþykkt að setja saman starfshóp um móðurmálskennslu fyrir grunnskólabörn af erlendum uppruna. 

Starfshópurinn skal m.a. skipaður fulltrúum meirihluta og minnihluta ráðsins og skal formaður hans vera Sabine Leskopf varaborgarfulltrúi. Starfshópurinn á m.a. að leggja mat á þörfina fyrir móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna, faglegar kröfur og menntun kennara, námskrá og viðurkenningu á náminu. Hann leggi fram tillögu að áætlun um móðurmálskennslu í algengustu tungumálunum í grunnskólum borgarinnar. Hópurinn skal hafa samráð eftir þörfum við fagfélög grunnskólakennara og skólastjóra auk frjálsra félagasamtaka á þessu sviði.

Í greinargerð með tillögu meirihlutans í ráðinu segir m.a.

- Fjölmenningarlegt samfélag er orðið að veruleika í Reykjavík og landinu öllu. Fjöldi innflytjenda jókst verulega á árunum fyrir hrun og er nú svo komið að tíundi hver nemandi í grunnskólum borgarinnar er af erlendum uppruna. Í því felast gríðarleg tækifæri fyrir Reykjavíkurborg að standa sig betur en víða hefur orðið raunin í öðrum löndum, en tíminn til þess er naumur.

Helstu sérfræðingar í þessum málefnum telja, þ.á m. Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands, að virkt tvítyngi sé mikilvæg undirstaða náms í
íslensku og jafnframt almennt góðs námsárangurs, jákvæðrar sjálfsmyndar og virkrar þátttöku í samfélaginu. Hins vegar getur úrræðaleysi í þessum efnum leitt af sér svokallað
neikvætt tvítyngi þar sem nemandinn hefur í lok grunnskóla hvorki nægilegt vald á íslensku né móðurmálinu og má fullyrða að slíkt neikvætt tvítyngi útilokar barn frá frekari menntun og velgengni í samfélaginu. Það er verulegt áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag að dæmi eru um allt að 90% brottfall unglinga af erlendum uppruna í framhaldsskólum sem kallar á skýr viðbrögð af hálfu skólasamfélagsins alls.

Þó ekki sé lögbundinn réttur til móðurmálskennslu fyrir börn af erlendum uppruna er skýrt að margir alþjóðasáttmálar og innlendar reglugerðir styðja málefnið. Þar má nefna:
- Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var lögfestur á Íslandi 2013, þar sem tekið er fram að börn í minnihlutahópum eigi rétt á því að læra um og njóta menningar foreldra
sinna og læra móðurmál þeirra (29. grein).
- Tilmæli frá ECRI, Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi sem mælir með því að „íslensk stjórnvöld bjóði nemendum, sem eru með annað móðurmál en íslensku, upp á aukin tækifæri til að læra íslensku sem annað tungumál á öllum skólastigum, einkum á framhaldsskólastigi, ásamt því sem stjórnvöld eru hvött að bjóða nemendum með annað móðurmál en íslensku „upp á aukna kennslu í sínu eigin tungumáli“.
- Lög um grunnskóla nr. 91/2008, 16. grein og aðalnámskrá 19. grein.