Starfsfólk Reykjavíkurborgar í viðamiklu hlutverki

Samgöngur

Bjarni og Jón Ásgeir

„Af samtölum við skipuleggjendur og samstarfsaðila heyri ég glöggt að til þess var tekið að öllu því starfsfólki borgarinnar sem kom að verki var hrósað í hástert,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eftir leiðtogafund Evrópuráðsins í Hörpu. „Gengið var í öll verk með bros á vör. Það fyllir mig stolti. Um leið er magnað að sjá borgina taka á móti svo stórum viðburði.“

Starfsfólk borgarinnar vann í þéttu og góðu samstarfi með lögreglunni og utanríkisráðuneytinu að skipulagi og undirbúningi leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn var í Reykjavík dagana 16. og 17. maí. Fimmtíu manns tóku svo til hendinni þegar leiðtogafundinum lauk síðdegis 17. maí og voru að  störfum fram á nótt.

„Þetta gekk allt frábærlega vel, engin óhöpp eða slys hjá okkar fólki þrátt fyrir krefjandi vinnuumhverfi að setja upp og taka niður þrjá km af girðingum ofan í umferðinni,“ segir Hafsteinn Viktorsson hjá umhverfis- og skipulagssviði. 

Um miðnætti á miðvikudeginum var allur búnaður farin úr miðbænum og ekki hægt að sjá að þessi risa fundur hafi átt sér stað nokkrum klukkustundum áður. „Frábært starfsfólk og þriggja mánaða vinna við skipulagningu í samstarfi við lögregluna skilaði góðum árangri,“ segir Hafsteinn sem sagðist hafða heyrt frá mörgum innan lögreglunnar sem allir væru samhljóða að þetta hafi gengið framúrskarandi vel.

Verkefni skrifstofu borgarlandsins fólst meðal annars í umsjón götulokana og merkinga vegna þeirra. Lokanir á sjö stöðum kröfðust sólarhringsvaktar með lögreglubíl og bíl frá borginni, einnig voru tvær lokanir í styttri tíma. Fjöldi starfsfólks var að störfum og unnu meðal annars við það að setja upp þrjá km af girðingum, setja niður 360 metrar af steypuklumpum ásamt 300 skiltum í heild, allt frá miðbænum að Straumsvík.

Vef- og kortalausnir nýttust sérlega vel

Hulda Axelsdóttir hjá Landupplýsingum umhverfis- og skipulagssviðs vann síðustu mánuði með aðgerðadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að því að skipuleggja og kortleggja götulokanir og fleira tengt fundinum. Hún hefur notað vef- og kortalausnir og þróað verkferla sem nýttir hafa verið við ýmsa þætti í þessu verkefni, bæði við skipulagningu og framkvæmd.Það verkefni heppnast feikilega vel og allt gengið upp.

Borgarbúum og gestum þakkað

Hulda Sigurðardóttir rekstrarfulltrúi segir að frágangurinn eftir fundinn hafi gengið hraðar en búist var við og vandræðalaust. Þetta var í heild mjög viðamikið verkefni í í miðborginni sem þurfti bæði úrvals mannskap á að halda, bifreiðar og önnur tiltæk tæki. Hún segir að hafist hafi verið handa strax á sunnudeginum að koma fyrir girðingum og flytja götugöng á staðinn.

Borgarbúar, rekstraraðilar í borginni og gestir fá góðar þakkir frá öllum aðstandendum, lögreglu, Reykjavíkurborg og Vegagerð fyrir umburðalyndi þessa daga. Upplýsingafulltrúar frá Reykjavíkurborg sem og viðburðateymi komu einnig að skipulagi á þjónustu á lokunarsvæðum og almennri upplýsingagjöf. Sáralítið barst af kvörtunum og virtist sem flest hafi verið vel upplýst um lokanir.