Spennandi fræðslukynningar um skólastarf

Skóli og frístund

Krakkar að leika á hljóðfæri.

Molinn hefur hafið göngu sína og margt áhugavert er framundan fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi. Molinn er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Um er að ræða fjölbreyttar kynningar á málefnum um skólastarf. Fyrsta kynningin var í síðustu viku og sú næsta á morgun sem fjallar um Uppsprettu.

Í fyrsta molanum kynnti Ásdís Ingólfsdóttir kennari í Kvennaskólanum í Reykjavík einskonar Vísindaveislu eða Science on Stage Europe sem er frábært endurmenntunartækifæri fyrir alla kennara á öllum skólastigum.

Menntabúðir með STEAM áherslu í lok mánaðar

Í tilefni af þessu spennandi og athyglisverða verkefni hefur NýMennt hjá Menntavísindasviði HÍ ásamt Mixtúru hjá skóla- og frístundasviði ákveðið að efna til Menntabúða - Science on Stage með Stem/Steam áherslu. Steam stendur fyrir stendur fyrir Science, Technology, Engineering, Arts og Mathematics og er þverfagleg nálgun þar sem náttúruvísindi, tækni, verkfræði, listir og stærðfræði eru sameinaðar til að efla sköpunarkraft, gagnhæfð og hugmyndaauðgi í menntun. Menntabúðirnar verða í aðdraganda Menntakviku miðvikudaginn 27. september kl.15:00-16:30 í Stakkahlíð. 

Molinn, fræðsla fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi

Tækifæri til að auðga menntun barna

Harpa Rut Hilmarsdóttir er með næsta mola klukkan 15:00, miðvikudaginn 13. september, og mun kynna Uppsprettu sem fjallar um fjölbreytt tækifæri til að auðga menntun barna. Harpa Rut er verkefnastjóri barnamenningar hjá skóla- og frístundasviði og menningar- og íþróttasviði Reykjavíkur. Á næstunni verða svo fleiri kynningar, meðal annars um orkuna í Elliðaárdalnum og um hvatningu til tungumálanáms.

Kynningarnar fara fram í gegnum teams og verða aðgengilegar áfram.