Skrifað var undir viljayfirlýsingar um lóðavilyrði til handa fimm óhagnaðardrifnum íbúðafélögum í dag.
Samkvæmt lóðavilyrðunum geta íbúðafélögin byggt um tvö þúsund íbúðir á næstu tíu árum en þau hafa öll byggt upp húsnæði af miklum krafti á liðnum árum með stuðningi frá Reykjavíkurborg og ríkinu. Íbúðirnar verða byggðar á lóðum víðs vegar um borgina næsta áratuginn, m.a. í Skerjafirði, Breiðholti, Grafarvogi, á umferðarmiðstöðvarreit, í Úlfarsárdal, í Ártúnshöfða, í Gufunesi, á Hlíðarenda og við fyrirhugaðan Miklubrautarstokk en útboð vegna frumhönnunar hans var nýlega auglýst.
Skrifað undir á Klambratúni
Það var því við hæfi að borgarstjóri og forsvarsmenn íbúðafélaganna undirrituðu viljayfirlýsingarnar í dag á horni Klambratúns við Rauðarárstíg og Miklubraut.
Þau undirrituðu viljayfirlýsingarnar: Böðvar Jónsson frá Byggingarfélagi Námsmanna, Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Félagsbústaða, Árni Stefán Jónsson stjórnarformaður Bjargs, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Guðrún Björnsdóttir framkvæmdastýra Félagsstofnunar Stúdenta, Isabel Alejandra Diaz, formaður stúdentaráðs Háskóla Íslands og Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta.
Stórfelld uppbygging félagslegs húsnæðis
Lóðaúthlutunaráætlun Reykjavíkurborgar til óhagnaðardrifinna íbúðafélaga á næstu tíu árum þýðir áframhaldandi stórfellda uppbyggingu húsnæðis á viðráðanlegu verði og félagslegs húsnæðis í borginni en áhersla á fjölbreytt húsnæðisframboð er hryggjarstykkið í húsnæðisstefnu borgarinnar.
Eins og áður sagði heimila lóðavilyrðin uppbyggingu félaganna á allt að tvö þúsund íbúðum víðs vegar um borgina.
Bjarg íbúðafélag - 905 íbúðir
Bjarg, íbúðafélag verkalýðshreyfingarinnar hefur byggt upp leiguíbúðir fyrir félagsfólk af miklum krafti á undanförnum árum. Á næstu tveimur árum verður lokið við að uppfylla viljayfirlýsingu við félagið frá 12. mars 2016 um 1.000 íbúðir í Reykjavík. Bjarg hyggst byggja um 100 íbúðir í Reykjavík á ári eftir það til að mæta þörf sinna félaga. Reykjavíkurborg hefur þegar veitt Bjargi lóðarvilyrði fyrir um 210 íbúðir á fjórum lóðum sem fara í byggingu á næstu misserum. Borgarráð samþykkti einnig tillögu um vilyrði fyrir allt að 190 íbúðir á fjórum lóðum sem gert er ráð fyrir að komi til úthlutunar á árunum 2022-2024. Því til viðbótar var samþykkt viljayfirlýsing fyrir allt að 505 íbúðir sem gert er ráð fyrir að komi til úthlutunar á árunum 2024-2028. Bjarg getur á næstu árum byggt allt að 905 íbúðir á 17 reitum sem eru staðsettir víða um borgina.
Byggingarfélag námsmanna - 205 íbúðir
Byggingarfélag námsmanna fær lóðarvilyrði fyrir um 65 íbúðir fyrir námsmenn í Arnarbakka. Gert er ráð fyrir að lóðinni verði úthlutað á þessu ári. Auk þess var samþykkt viljayfirlýsing fyrir um 140 íbúðir á þremur lóðum sem gert er ráð fyrir að úthlutað verði á árunum 2025-2027. Samkvæmt þessu getur Byggingarfélag námsmanna byggt allt að 205 íbúðir.
Búseti - 335 íbúðir
Búseti hefur á síðustu árum byggt upp af krafti í takt við viljayfirlýsingu við borgina og hefur í auknum mæli farið í samstarf við önnur óhagnaðardrifin félög. Borgarráð hefur samþykkt lóðarvilyrði fyrir um 70 íbúðir á tveimur lóðum sem gert er ráð fyrir að verði úthlutað á árunum 2023-2024. Til viðbótar var samþykkt viljayfirlýsing um allt að 265 íbúðir á fjórum lóðum sem gert er ráð fyrir að verði úthlutað á árunum 2025-2028. Búseti getur því byggt 335 íbúðir á næstu árum.
Íbúðakjarnar Félagsbústaða - 151 íbúðir
Félagsbústaðir hafa á undanförnum árum byggt íbúðakjarna fyrir fatlað fólk. Auk þess hafa Félagsbústaðir fest kaup á íbúðum til útleigu. Samkvæmt viljayfirlýsingunni í dag geta Félagsbústaðir byggt allt að 24 íbúðir á tveimur lóðum. Gert er ráð fyrir að þeim verði úthlutað á næsta ári. Því til viðbótar var samþykkt viljayfirlýsing um allt að 93 íbúðir sem gert er ráð fyrir að verði úthlutað á árunum 2025-2029. Þegar hafa Félagsbústaðir fengið úthlutað lóðum fyrir allt að 35 íbúðir. Samkvæmt þessu vilyrðum er gert ráð fyrir að Félagsbústaðir geti byggt íbúðakjarna með um 151 íbúð.
Félagsstofnun stúdenta - 361 íbúðir
Félagsstofnun stúdenta hefur byggt fjölda stúdentaíbúða á Háskólasvæðinu en einnig í Brautarholti, Fossvogi og við Lindargötu. Samþykkt var lóðarvilyrði fyrir allt að 12 íbúðir við Vatnsstíg. Gert er ráð fyrir að lóðinni verði úthlutað síðar á þessu ári. Þá samþykkti borgarráð viljayfirlýsingu fyrir um 239 íbúðir á fjórum lóðum sem gert er ráð fyrir að verði úthlutað á árunum 2025-2028. Þegar hefur Félagsstofnun stúdenta fengið vilyrði fyrir allt að 110 íbúðum í Skerjafirði. FS getur því byggt allt að 361 stúdentaíbúð á næstu árum.