Skólahljómsveitir styðja hlaupara

Skóli og frístund Menning og listir

""

Fjórtán þúsund hlauparar sem tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardaginn var fengu hvatningu og stuðning frá skólahljómsveitunum sem léku fyrir þá á leiðinni. 

Það voru sveitir eldri nemenda í tveimur skólahljómsveitum sem studdu dyggilega við hlauparana. Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts lék fyrir alla sem hlupu Nesveginn og voru krakkarnir mættir snemma í það verkefni. Um hádegið lék svo sveit úr Skólahljómsveit Grafarvogs við Dómkirkjuna fyrir þá sem hlupu styttra en þar voru margir yngri hlauparar á ferð. 

Hlauparar, ungir sem eldri, voru kátir með hljómsveitarstemninguna og sýndu þakklæti sitt með klappi og gleðihrópum.  

Það er í sjálfu sér afrek að ná að æfa og spila fyrir þúsundir manna áður en sjálft vetrarstarfið hefst hjá skólahljómsveitunum enda voru bæði hljóðfæraleikarar og stjórnendur sveitanna, Snorri Heimisson og Kristjón Daðason, stoltir þegar þessu skemmtilega verkefni lauk.