Skólabyrjun seinkað í von um bættan svefn barna

Heilsa Skóli og frístund

Börn á hjóli
Börn á hjóli

Nemendur á unglingastigi í Vogaskóla munu mæta seinna á morgnana í skólann næsta vetur en verið hefur hingað til. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem skoðað verður hvaða áhrif seinkun skólabyrjunar hefur á svefn, líðan og nám nemenda.

Rannsóknir sýna að 50% nemenda í 10. bekk og 70% framhaldsskólanema fá ekki nægan nætursvefn, það er sjö klukkustundir eða minna. Svefnskortur hefur mikil og slæm áhrif á fólk og má nefna að börn og unglingar sem sofa of stutt eiga erfiðara með einbeitingu, glíma frekar við minnistruflanir, depurð og kvíða, ná sér frekar í pestir, hreyfa sig minna, eru frekar í ofþyngd og sýna aukna áhættuhegðun. 90% unglinga sem segjast alltaf fá nægan nætursvefn telja sig við góða andlega og líkamlega heilsu en aðeins 50% þeirra sem aldrei fá góðan nætursvefn telja líkamlega heilsu sína góða og 35% meta andlega heilsu sína góða. Er hér stuðst við gögn frá Betri svefni, sem stendur að tilraunaverkefninu í Vogaskóla, ásamt Embætti landlæknis og Reykjavíkurborg. Markmið verkefnisins er að skoða áhrif þess að seinka skólabyrjun og hafa markvissa fræðslu um svefn. Vogaskóli mun einn seinka skólabyrjun nú í haust en aðrir skólar verða notaðir til samanburðar. Spurningalistar verða lagðir fyrir í september og janúar til að skoða svefn og vellíðan og verður svefn unglinganna mældur með hreyfiúrum á tveimur tímabilum, í október og mars. 

Stuðst við líkamsklukku barnanna

Snædís Valsdóttir, skólastjóri í Vogaskóla, segir verkefnið spennandi. „Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar leitaði til skólanna um þátttöku og okkur fannst þess virði að prófa. Þetta snýst um að rannsaka hvaða áhrif seinkun skólabyrjunar hefur á svefn og hvaða áhrif vonandi aukinn og bættur svefn hefur á líðan og nám,“ segir Snædís. „Okkur fannst áhugavert að kanna hvort þetta gæti orðið okkar unglingum til hagsbóta. Þetta er náttúrulega bara tilraunaverkefni til eins árs og það er alltaf hægt að snúa til baka ef svo ber undir. En það er líka þannig að ef aldrei er farið af stað með rannsóknir þá öðlumst við ekki nýja þekkingu.“ 

Kennsla í unglingadeild, það er 8.-10. bekk, hefur undanfarin ár hafist klukkan 8.30 í Vogaskóla en mun hefjast klukkan 9.10 í vetur og er því seinkað um eina kennslustund. Verkefnið leggst vel í starfsfólk unglingadeildarinnar. „Fólk hefur auðvitað mismunandi skoðanir á þessu, bæði börn og foreldrar, en flestir fagna þessu. Mörgum finnst þetta spennandi tilraun en öðrum finnst þetta vitleysa, en þannig er það með allt. Það er ekki langt síðan við færðum skólabyrjun frá 8.10 til 8.30, þar sem okkur fannst of mikið stress að ætla börnunum að mæta tíu mínútur yfir átta.. Ég held að enginn vilji snúa til baka núna, en það þarf oft smá aðlögunartíma,“ útskýrir Snædís. „Líkamsklukka unglinga er þannig að þeir eiga betra með að sofna seinna og sofa aðeins lengur fram eftir. Sumir óttast að tilraunin verði bara til þess að þeir fari seinna að sofa í stað þess að fá meiri svefn en rannsóknir benda til að þetta verði betri svefntími sem nýtist þeim betur. Meiri og betri gæðasvefn.“ 

Börnin velkomin fyrr í skólann

Þau sem fagna rannsókninni taka undir rök um að breytt fyrirkomulag henti unglingunum betur. „Dr. Erla Björnsdóttir hjá Betri svefni hélt fræðslufund fyrir foreldra vegna verkefnisins og fjallaði um hvernig niðurstöður erlendra rannsókna  styðja að seinkun á skólabyrjun hafi góð áhrif á líðan unglinga. Líkamsstarfsemi breyttist á unglingsárum og því væri þetta betri svefntími,“ segir Snædís. „Þeir sem eru á móti þessu benda hins vegar á að allir á heimilinu vakni snemma, til dæmis þar sem koma þurfi yngri börnum í skóla fyrr á morgnana og því verði þau eldri hvort sem er vöknuð. Við bendum þá á að þau sem verða vöknuð og vilja mæta snemma verða velkomin í skólann. Hér geta þau þá unnið sitt heimanám eða undirbúið sig fyrir tíma. Fólk hefur líka áhyggjur af að þetta dragi skólastarfið lengra fram á daginn og þetta gerir það auðvitað, við erum ekki að stytta skólatímann, við erum bara að seinka honum. En íþróttastarf barna í unglingadeild byrjar að öllu jöfnu ekki fyrr en seinnipartinn svo við náum að vera búin fyrir þann tíma.“ 

Góð reynsla úr Víkurskóla

Þótt verkefnið sé nýtt er komin dálítil reynsla á seinkun skólabyrjunar, þar sem skólastarf í Víkurskóla hefur síðustu tvö ár hafist klukkan 8.40 alla daga nema mánudaga, þegar það hefur byrjað klukkan 10. „Bæði nemendur og kennarar eru mjög ánægðir og enginn vill snúa til baka,“ segir Þuríður Óttarsdóttir, skólastjóri Víkurskóla. „Nemendur í tíunda bekk eru sérlega ánægðir með að geta sofið lengur á mánudögum. Kennarar mæta til vinnu klukkan átta en þeim finnst gott að hafa þennan undirbúningstíma til að leggja drög að deginum og vikunni. Við höfum líka alltaf kennarafundi á mánudagsmorgnum svo við nýtum tímann vel.“ 

Betri svefn, betra líf

Snædís bendir á að verkefninu í Vogaskóla muni fylgja fræðsla um svefn og heilbrigða lífshætti, bæði fyrir foreldra og nemendur. „Margir foreldrar spurðu hvort ekki væri nær að byrja á skjánotkuninni. Vissulega þarf líka fræðslu um hana og hana höfum við verið með, en þar þurfa foreldrar líka að stíga inn og stýra málum svolítið,“ segir hún. „Við förum inn í þetta verkefni því við höfum trú á að þetta hafi góð áhrif á líðan barnanna og þar með á námið. Erlendar rannsóknir sýna að þegar skólabyrjun er seinkað lengist raunverulega svefn unglinga. Rannsóknir hafa líka sýnt að börn sem fá góðan svefn líður betur. Þau eru hraustari, eiga auðveldara með nám og stunda frekar íþróttir og hreyfingu. Þau upplifa síður kvíða og depurð, eiga auðveldara með félagsleg tengsl og eru almennt hamingjusamari. Það verður spennandi að sjá hvernig þetta kemur út.“