Sjö meistaraverkefni fá viðurkenningu skóla- og frístundaráðs

Skóli og frístund

""

Höfundar sjö meistaraverkefna í leikskóla-, grunnskóla-, og frístundafræðum fá viðurkenningu skóla- og frístundaráðs 2020, hver um sig 250.000 krónur.

Viðurkenning fyrir meistaraprófsverkefni er liður í því að hvetja til og auka hagnýtingu rannsókna í fagstarfi með börnum og unglingum og vekja athygli á skóla- og frístundastarfi í Reykjavík.   

Þau meistaraverkefni sem fá viðurkenningu eru öll unnin á vettvangi Reykjavíkurborgar. Dómnefnd, skipuð sérfræðingum í starfi leikskóla, grunnskóla og frístundastarfs fór yfir umsóknir og valdi eftirtalin sjö verðlaunaverkefni;

1) Helga Þórdís Guðmundsdóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Hljómleikur sem lokið var við listkennsludeild Listaháskóla Íslands. Það er kennslubók í ukulele- og hljómborðsleik fyrir byrjendur á miðstigi grunnskóla eða forskóladeildir tónlistarskóla. Um er að ræða mjög vandað kennsluefni sem auðveldar kennurum að vefa tónlistariðkun og söng inn í starf með börnum og ungmennum. Nánari upplýsingar um verkefnið.

2) Ingunn Elísabet Hreinsdóttir fær viðurkenningu fyrir verkefnið Skapandi dans – Mótun handbókar fyrir danskennara í grunnskólum. Verkefnið er unnið við listkennsludeild Listaháskóla Íslands og er verkfæri í formi handbókar fyrir kennara til þess að sinna danskennslu í grunnskólum, ekki bara dansins vegna heldur vegna sköpunarinnar, hreyfingarinnar, tilfinningaþroska og jákvæðra áhrifa dansins á allt nám ef vel er staðið að.
Nánari upplýsingar um verkefnið.

3) Linda Rún Traustadóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Áskoranir í starfi leikskólastjóra - Dagarnir eru aldrei eins en alltaf uppfullir af einhverju! Verkefnið var unnið við deild kennslu- og menntunarfræða í Háskóla Íslands og setur fram áhugaverðar niðurstöður um þróun leikskólastjórastarfsins í framtíðinni. Nánari upplýsingar um verkefnið. 

4) Melkorka Kjartansdóttir fær viðurkenningu fyrir verkefnið Velkomin til starfa í leikskóla - Stafrænt fræðsluefni fyrir leiðbeinendur við upphaf starfs. Verkefnið var unnið við deild kennslu- og menntunarfræða í Háskóla Íslands og er fræðsluefni fyrir nýja leiðbeinendur í leikskólum og leiðbeiningar fyrir þá sem taka á móti þeim til starfa. Nánari upplýsingar um verkefnið.

5) Rakel Guðmundsdóttir fær viðurkenningu fyrir meistaraverkefnið Undir Regnboganum – Fyrstu skref transbarns í nýju kynhlutverki innan grunnskólans sem unnið var við deild menntunar- og margbreytileika í Háskóla Íslands. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á reynslu foreldra og skólasamfélags af því að styðja barn í gegnum það ferli að lifa samkvæmt öðru kynhlutverki en því var úthlutað við fæðingu. Nánari upplýsingar um verkefnið.

6) Rut Ingvarsdóttir fær viðurkenningu fyrir verkefnið Kraftaverkið ég – Námsefni í kynfræðslu fyrir yngsta stig grunnskóla sem unnið var við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Það skiptist í þrjá hluta, fræðilega greinargerð, kennsluleiðbeiningar og námsbók í kynfræðslu fyrir 5-8 ára nemendur, en  skortur hefur verið á námsefni í kynfræðslu fyrir nemendur á yngsta stigi grunnskólans. Nánari upplýsingar um verkefnið.

7) Steinunn E. Benediktsdóttir fær viðurkenningu fyrir verkefnið Ferðalag nýliða í heimilisfræðikennslu – Þroskasaga. Verkefnið var unnið við deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og er starfendarannsókn í grunnskóla þar sem höfundur gerir grein fyrir eigin reynslu af fyrstu tveimur starfsárum sínum við kennslu. Nánari upplýsingar um verkefnið.

Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu verða viðurkenningar vegna þessara verðlaunaverkefna ekki afhentar við formlega athöfn en verðlaunahöfum eru færðar hamingjuóskir og þakklæti fyrir frábær og hagnýt verkefni sem verða kynnt á vettvangi skóla- og frístundastarfsins í borginni.