Elsa Yeoman, forseti borgarstjórnar, afhenti í dag fulltrúa Samtaka um kvennaathvarf Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Höfða á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar.
Samtök um kvennaathvarf voru stofnuð árið 1982, og hafa því verið starfrækt í rúm 30 ár. Í upphafi voru úrtöluraddir sem sögðu ekki vera þörf á slíkri þjónustu hérlendis en á daginn kom að þörfin var brýn. Á opnunardegi athvarfsins var fyrsta konan mætt og á þeim nærri þrjátíu árum sem liðin eru hafa 3400 konur dvalið þar um lengri eða skemmri tíma, margar með börn sín líka. Enn fleiri konur hafa þegið þjónustu athvarfsins í ráðgjöf og sjálfshjálparhópum en sími athvarfsins er opinn allan sólarhringinn árið um kring.
Á nýliðnu ári dvöldu 200 gestir, konur og börn, hjá samtökunum í allt frá einum degi upp í 213 daga. Og það vekur athygli hversu mörg börn dvöldu í athvarfinu, en þau voru 87 og dvöldu þar í að meðaltali 24 daga.
Elsa Yeoman sagði við afhendingu mannréttindaverðlaunanna að Samtök um kvennaathvarf væru vel að viðurkenningunni komin. Kvennaathvarfið væri búið að vinna ötult starf í baráttu gegn ofbeldi og komið konum og börnum þeirra til hjálpar í neyð.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, tók við mannréttindaverðlaununum fyrir hönd Kvennaathvarfsins. Verðlaunin er höggmynd eftir Eddu Þórey Kristfinnsdóttur, myndlistarmann.
Mannréttindaverðlaunin eru veitt árlega þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á þeim málum sem varða mannréttindi borgarbúa og á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar.
Margrét Sverrisdóttir, formaður mannréttindaráðs, úthlutaði styrkjum ráðsins til átta aðila:
Vinafjölskyldur kr. 750.000,- Vinatengsl á milli erlendra og íslenskra barna.
Projekt Polska kr. 350.000,- Menningar- og fræðslunámskeið fyrir Íslendinga og Pólverja.
Listahátíðin list án landamæra kr. 750.000,- til árlegrar listahátíðar.
Styrktarfélag Alþjóða geðheilbrigðisdagsins kr. 350.000,- Framkvæmd Alþjóða geðheilbrigðisdagsins 10. október 2013.
Knattspyrnufélagið Valur kr. 300.000,- Samstarfsverkefni Vals, Fálka og Kamps.
Sigurlaug Hauksdóttir kr. 350.000,- gerð fræðslubæklings um klám og áhrif þess á kynverund ungs fólks.