Fjöldi fólks mætti á ráðstefnuna í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins í dag. Fjallað var um verkefnið Saman gegn ofbeldi sem er samstarfsverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborgar, Kvennaathvarfsins og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu í heimilisofbeldismálum.
Markmið verkefnisins Saman gegn ofbeldi er m.a. að tryggja öryggi borgarbúa á heimilum sínum, veita þolendum og gerendum betri þjónustu og bæta stöðu barna sem búa við heimilisofbeldi. Á ráðstefnunni var farið yfir árangurinn af þessu samstarfi, bættu verklagi og þann lærdóm sem draga mætti af verkefninu.
Dr. Berglind Guðmundsdóttir fjallaði um afleiðingar ofbeldis í nánum samböndum og Andrés Proppé Ragnarsson sálfræðingur fjallaði um meðferð fyrir gerendur en hann starfar hjá Heimilisfriði sem er meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum.
Erla Hlín Hjálmarsdóttir og Kristín Pálsdóttir frá RIKK, rannsóknarstofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, kynntu mat á verkefninu Saman gegn ofbeldi. Í matinu kom fram að lögreglunni finnst mikill kostur að hafa félagsráðgjafa með í útköllum vegna heimilisofbeldismála og félagsráðgjafarnir bera virðingu fyrir störfum lögreglunnar við erfiðar aðstæður. Þá kom einnig fram að mikil ánægja var með starf Barnaverndar Reykjavíkur á vettvangi en sérfræðingar á vegum Barnaverndar sinna börnum á vettvangi.
Skúli Jónsson og María Gunnarsdóttir fjölluðu um reynsluna af sambærilegu verkefni á Suðurnesjum sem farið var í eftir að í ljós kom að meira var um heimilisofbeldi á því landsvæði en annars staðar. Það verkefni varð síðan fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög og lögregluumdæmi.
Að lokum voru sagðar stuttar reynslusögur af vettvangi. Þar stigu á stokk Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, starfskona Kvennaathvarfsins og sérfræðingur Barnaverndar sem og félagsráðgjafi á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.