Heldur óvenjulegur íbúi er kannski væntanlegur til Reykjavíkur. Er þetta virðulegur eldri borgari, um 65 milljón ára gamall en um er að ræða risaeðlu, nánar tiltekið þríhyrnu. Fimm ára stúlka fann beinagrindina og býðst Íslendingum að taka þátt í uppgreftri á henni næsta sumar.
Marcus Eriksen er hálfíslenskur fornleifafræðingur, sem farið hefur þess á leit að fá að gefa Reykjavíkurborg hluta úr beinagrind af risaeðlu. Um þríhyrnu (e. triceratop) er að ræða og eru gripirnir um 65 milljón ára gamlir. Marcus er framkvæmdastjóri samtakanna Leap Lab, sem hafa meðal annars skipulagt og framkvæmt uppgröft á risaeðlubeinum í Wyoming ríki í Bandaríkjunum og er ástæða þess að hann vill færa Reykjavíkurborg beinagrindina sú að hann á íslenska móður og ættingja hérlendis.
Marcus setur þau skilyrði fyrir gjöfinni að beinagrindin verði gefin í nafni móður hans og höfð til sýnis á safni eða sýningu í Reykjavík. „Gjöfin er gefin í nafni móður minnar og systkina hennar, sem ólust upp í Reykjavík. Þau eru nú á níræðisaldri en móðir mín flutti til Bandaríkjanna þegar ég var þriggja ára gamall. Hún lagði alla tíð hart að sér til að tryggja mér og bróður mínum gott atlæti og ég get þakkað henni þekkingarþorsta minn og sterkt íslenskt vinnusiðferði. Ég hef heyrt ótal sögur um líf hennar í Reykjavík um miðbik síðustu aldar og mig langar að heiðra kynslóð hennar með þessari gjöf til borgarinnar,“ segir Marcus. „Hin ástæðan fyrir þessari gjöf er að mig langar að ýta undir vísindalæsi- og menntun.“
Fimm ára stúlka fann beinagrindina
Beinagrindin sem um ræðir gengur undir nafninu „Ken“ og var það dóttir Marcusar, Avani Cummins, þá fimm ára gömul, sem fann beinagrindina fyrir fimm árum síðan. „Hún fann lítinn hluta úr rifbeini, sem leiddi til herðablaðs þar undir og margra fleiri beina. Meðal mjög áhugaverðra beina í þessari beinagrind er halahryggjarliður sem hefur orðið fyrir meiðslum. Við uppgötvuðum nokkur bitför eftir grameðlu á honum sem segir okkur sögu um risaeðlu sem náði að flýja frá rándýri og lifa af!“ segir Marcus. Um 30% beinanna úr Ken hafa verið grafin upp en Marcus leggur áherslu á að fleiri bein séu enn í jörðu og næsta sumar gefst áhugasömum tækifæri á að taka þátt í uppgreftrinum. „Ég vil gjarnan fá fólk frá Reykjavík til okkar í Wyoming næsta sumar til að taka þátt í að grafa upp fleiri bein sem tilheyra Ken. Það væri gaman að Íslendingar tækju þátt í öllu ferlinu, þar með talið að grafa beinin upp.“
Ken er sem stendur geymdur í vinnustofu Marcusar í Suður-Kaliforníu. Spurður hvort flókið yrði að flytja hana til Íslands svarar hann bæði og. „Hún er auðvitað viðkvæm. Það þarf að pakka hverju beini afar vel inn og svo er notast við stórar grindur til að flytja hana en þetta hefur margoft verið gert svo það ætti ekki að verða neitt vandamál að flytja hana,“ segir hann. „Ég er núna að þrívíddarskanna öll beinin sem vantar og held það væri frábært ef hægt væri að finna þrívíddarprentara í Reykjavík og prenta út beinin sem upp á vantar þar.“
Svara leitað við ýmsum spurningum
Mikil tækifæri eru talin geta falist í því að fá beinagrind af risaeðlu til Reykjavíkur. Gæti hún vakið áhuga barna og annarra á náttúrufræði og veitt almenningi innsýn í þróun lífs á jörðinni og tilveru þessara goðsagnakenndu dýra sem lifðu á jörðinni löngu áður en manneskjan varð til. Þó hafa vaknað upp ýmsar spurningar sem leita þarf svara við og samþykkti borgarráð því í dag að stofnaður yrði starfshópur til að meta gjöfina. Hópinn munu skipa fulltrúar frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, menningar- og ferðamálasviði og frá skrifstofu atvinnuþróunar. Mun starfshópurinn meta kostnað við gjöfina, þar með talið við flutning á beinagrindinni, uppsetningu hennar og varðveislu auk rekstrarkostnaðar, viðhalds og annars slíks á beinunum. Þá metur hópurinn kostnað vegna smíði þeirra beina sem upp á vantar, fær staðfestan uppruna þeirra beina sem um ræðir og kannar áhuga safna og sýningarhaldara á að hýsa beinagrindina og annast kostnað samkvæmt sérstökum samningi.
Gert er ráð fyrir því að starfshópurinn leiti ráðgjafar innan og utan borgarkerfis hjá aðilum með þá sérþekkingu sem til er á viðfangsefninu eftir því sem við á, til að mynda hjá Náttúruminjasafni Íslands, Þjóðminjasafni og fleiri stofnunum sem gætu þekkt til forsögulegra minja. Skal stýrihópurinn skila kostnaðaráætlun og, ef við á, drögum að samningi við Leap Lab um afhendingu á beinagrindinni, eigi síðar en 1. maí 2023.