Reykjavíkurborg hvetur til aukinnar nýtni

""
Nýtnivikan í Reykjavík hefst á mánudaginn með dagskrá sem hefur það að marki að draga úr myndun úrgangs. Það sem af er árinu hefur fallið til 15.120 tonn af blönduðum úrgangi í Reykjavík sem er 3% minna en á sama tíma í fyrra.

Nýtnivikan verður haldin í Reykjavík fjórða árið í röð daganna 23. – 29. nóvember. Þema vikunnar að þessu sinni Afefnisvæðing – að gera meira fyrir minna. Nýtnivikan er hluti af umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar.

Vikan er samevrópsk og er ætlað að vekja fólk til vitundar um nauðsyn þess að draga úr magni úrgangs m.a. með því að lengja líftíma hluta, samnýta hluti og stuðla almennt að því að hlutir öðlist framhaldslíf frekar en að enda sem úrgangur. Hún er haldin árlega með ýmsum atburðum sem stuðla að vitundavakningu um sjálfbæra auðlinda- og úrgangsstjórnun. Áhersla er því lögð á að draga úr, endurnota og endurvinna.

Neysluvenjur hafa áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda

Daglegar venjur hvers og eins hefur áhrif á umhverfið. Flestum vörum fylgja umbúðir og rannsóknir sýna að hluti þess sem keypt er fer í ruslið án þess að vera notað. Úrgangur frá heimilum í Reykjavík sem ekki er flokkaður frá og endurnýttur eða endurnotaður er urðaður í Álfsnesi. Niðurbrot úrgangsins á urðunarstaðnum myndast hauggas sem í eru gróðurhúsalofttegundir sem eru 21 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Losun gróðurhúsalofttegunda sem myndast ræðst m.a. af magni úrgangsins og hlutfalli lífrænna efna. Því minna sem urðað er, því minna losnar af gróðurhúsalofttegundum.

Minna magn blandaðs úrgangs í Reykjavík

Það sem af er árinu hefur fallið til 15.120 tonn af blönduðum úrgangi í Reykjavík sem er 3% minna en á sama tíma í fyrra. Má það að hluta til þakka aukinni flokkun endurvinnsluefna s.s. pappírs og pappa og sífellt fleiri flokka plast frá og skila til endurvinnslu.
 

Á heimilum í Reykjavík, þar sem lítið fellur til af blönduðum úrgangi, geta íbúar lækkað hjá sér kostnað við meðhöndlun úrgangs. Íbúum í sérbýlum stendur til boða spartunna sem er ódýrari og helmingi minni en gráa tunnan. Íbúar í fjölbýlum geta með sama hætti fækkað tunnum ef magnið er minna og greitt lægra gjald. 

Dagskrá Nýtniviku