Reykjavíkurborg fær jafnlaunavottun

Velferð Atvinnumál

""

Reykjavíkurborg sem er stærsti vinnuveitandi landsins hefur fengið jafnlaunavottun.

Reykjavíkurborg, stærsti vinnuveitandi landsins, hefur fengið jafnlaunavottun. Sem einn vinnustaður hefur borgin mikla sérstöðu líkt og önnur sveitafélög vegna þeirra fjölbreyttu starfstaða sem borgin rekur, þar sem starfsemi og eðli starfa eru mjög ólík. Hjá Reykjavíkurborg starfa að jafnaði um tíu þúsund einstaklingar.

Reykjavíkurborg hefur í gegnum árin lagt mikla áherslu á jafnrétti. Innan borgarinnar hefur verið unnið markvisst að því að útrýma kynbundnum launamun og hefur starfsmatskerfið nýst vel í þeirri vegferð undanfarin 15 ár. Árið 2013 var samþykkt í borgarráði aðgerðaráætlun í ellefu liðum til þess að draga úr kynbundnum launamun. Í kjölfarið hafa markviss skref verið stigin í þá átt. Í því samhengi má nefna fræðsluátak fyrir stjórnendur, reglulegar úttektir á kynbundnum launamun, endurskoðun starfsmatskerfisins og uppsögn aksturssamninga starfsfólks. Árið 2015 var samþykkt aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum. Markmið hennar er að stuðla að auknu jafnrétti og í henni eru kynntar fjölmargar aðgerðir til að kortleggja betur stöðuna hvað kynbundinn launamun varðar og draga úr honum.

Innleiðingarferlið á jafnlaunakerfi Reykjavíkurborgar var því eðlilegt framhald af því starfi sem þegar hafði verið unnið. Með jafnlaunakerfinu er Reykjavíkurborg komin með öflugt verkfæri í hendurnar sem greiðir leiðina enn frekar að markmiðinu um að árið 2021 verði enginn óútskýrður kynbundinn launamunur til staðar hjá borginni, það er að tryggja að konum og körlum séu greidd jöfn laun og þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Vottunin staðfestir að jafnlaunakerfi Reykjavíkurborgar stenst þær kröfur sem lagðar eru fram í jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Úttektin var framkvæmd af Vottun hf. sem nú hefur staðfest að Reykjavíkurborg hefur innleitt, skjalfest og gert áætlanir um stöðugt viðhald á jafnlaunakerfi sínu sem stenst kröfur jafnlaunastaðalsins.