Reglur settar til að hemja nethagkerfi eins og Airbnb

Atvinnumál Skipulagsmál

""

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra, situr nú leiðtogafund Sharing Cities í Barcelona fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Á leiðtogafundinum koma saman borgarstjórar eða staðgenglar þeirra auk háttsettra embættismanna frá borgum um allan heim. Alls tekur 31 borg þátt í fundinum. Á fundinum hefur verið rætt um áhrifin sem stöðugur vöxtur nethagkerfa eins og Airbnb, Uber, Booking.com og fleiri stórfyrirtækja hefur á mannlíf og efnahagsþróun í borgunum. Tilgangur leiðtogafundarins er að finna nýjar leiðir til að takast á við vandamál sem upp koma í tengslum við slíka starfsemi en einnig að skoða hvernig nýta má þau tækifæri sem þróunin opnar fyrir borgir með hagkvæmum og sanngjörnum hætti fyrir íbúa og ferðamennsku.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir segir að Reykjavíkurborg fagni þróuninni í þessum mikilvæga málaflokki, deilihagkerfið sé komið til að vera og muni bæði stækka og umbreytast gríðarlega á komandi árum. „Reykjavíkurborg vill vera frjór jarðvegur fyrir þessa þróun. Við viljum mæta henni með nýsköpun, krafti og skýrum línum. Það er nauðsynlegt að hafa skýran ramma utan um starfsemina og huga að því hvernig hægt er að koma sem best til móts við ólíkar þarfir fólks,“ segir Þórdís Lóa og leggur um leið áherslu á að fundnar verði leiðir til að bæta notendaviðmót allrar þjónustu.

Leiðtogafundur Sharing Cities hefur sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um meginreglur borga og skuldbindingar um sjálfsstjórn borga gagnvart nethagkerfinu. Í yfirlýsingunni er einnig að finna ítarlega aðgerðaáætlun um mikilvæg atriði eins og sameiginlegar lágmarkskröfur í samningaviðræðum og leiðir til að styðja borgir í slíkum viðræðum við fyrirtæki sem reka nethagkerfi; hagsmunagæslu gagnvart öðrum stjórnsýslustigum og myndun tengslanets til að sporna við ólöglegri leigu húsnæðis til ferðamanna svo eitthvað sé nefnt.

Þá verður stofnaður starfshópur til að efla samskipti, samstarf og samhæfingu aðgerða á milli borga.

Yfirlýsingin fylgir hér á eftir í heild sinni.

 

Yfirlýsing Sharing Cities: Sameiginlegar meginreglur og skuldbindingar borga

Leiðtogafundur Sharing Cities í Barcelona, nóvember 2018

Stutt skýring: Yfirlýsingin samanstendur af nokkrum meginreglum borganna. Í öðrum hluta (viðaukanum) er útlistuð áætlun um framkvæmd yfirlýsingarinnar og stofnun starfshóps. Meginreglurnar eru ólíkar þeim sem voru samþykktar á fundi í New York í fyrra, þær hafa verið endurskoðaðar, auknar og uppfærðar með aðkomu hlutaðeigandi borga. Einkum má nefna þrjár nýjar meginreglur: eina sem varðar eiginleika nethagkerfa til að gera borgurum kleift að greina á milli mismunandi líkana, aðra um sjálfstjórn borga og gagnkvæman stuðning borga í samningum við nethagkerfi og þá þriðju um stuðning við nethagkerfi sem byggjast á samvinnu samkvæmt þessari aðgreiningu. Í þessari útgáfu yfirlýsingarinnar hafa svör fulltrúa borganna við spurningalista fundarins verið tekin til greina, auk almennra tillagna og athugasemda fulltrúanna.

Yfirlýsing Sharing Cities

Sameiginlegar meginreglur borga og skuldbindingar um sjálfstjórn borga gagnvart nethagkerfinu

Á leiðtogafundi Sharing Cities koma saman borgarstjórar og staðgenglar borgarstjóra frá leiðandi borgum um heim allan til að ræða þau áhrif sem stöðugur vöxtur nethagkerfa hefur á mannlíf og efnahagsþróun í borgunum og finna nýjar leiðir til að takast á við vandamál og nýta tækifæri sem þessi þróun hefur í för með sér fyrir borgir.

Nethagkerfi sem byggjast á samvinnu og samnýtingu skapa andrúmsloft atorku, nýsköpunar og hagsældar fyrir borgir og íbúa þeirra með því að gefa einstaklingum og samfélögum tækifæri til að eiga samskipti, veita stuðning og starfa saman að sameiginlegum hagsmunum. Á móti kemur að sjálfstjórn borga stafar ógn af öðrum tegundum nethagkerfa. Á grundvelli fyrri funda, í Amsterdam 2016 og í New York 2017, og formlegra samþykkta leiðtogafundarins í Barcelona 2018 hafa borgirnar orðið sammála um eftirfarandi meginreglur og skuldbindingar borganna um nýtingu tækifæra og viðbrögð við áskorunum.

Aðgreining milli tegunda nethagkerfa

1. Að greina á milli mismunandi tegunda nethagkerfa með tilliti til starfsemi og áhrifa þeirra svo hægt sé að marka opinbera stefnu á grundvelli þessarar mismunar.

Að gera greinarmun á þeim nethagkerfum sem ekki byggjast á raunverulegu samvinnulíkani og þeim sem byggjast á samvinnu og skapa tækifæri fyrir atvinnulíf borga. Eftirfarandi eiginleikar einkenna kerfi sem byggjast á samvinnu og skera úr um muninn á milli mismunandi kerfa: þau byggjast fyrst og fremst á samskiptum á jafningagrundvelli, þau eru byggð á sanngjörnu efnahags- og umbunarkerfi, þau stuðla að virku íbúalýðræði, tækni og gögn eru opin og gagnsæ, öllum samfélagshópum innan borgarinnar er veitt sama þjónusta án nokkurrar mismununar og ábyrgð er tekin á neikvæðum afleiðingum.

Atvinnumál

2. Að gefa fólki kost á að afla sér tekna eða auka tekjur sínur með nýjum vinnusamningum og efnahagslegri aðlögun án þess að slíkt leiði til félagslegrar óvissu eða aukins stjórnsýsluálags.

3. Að tryggja sanngjarnar, lögmætar og tímanlegar launagreiðslur. Vinnuaðstæður skulu vera sanngjarnar og starfsfólk skal hafa aðgang að réttindum og fríðindum (hámörkun tekna, lágmarkslaun, tekjutrygging, launasamræmi, vernd gegn geðþóttaákvörðunum, bann við óhóflegu eftirliti á vinnustað, réttur til næðis utan vinnutíma, almennir kjarasamningar).

Jafnrétti

4. Að koma í veg fyrir mismunun og fordóma með því að styðja við sanngjarnan og jafnan aðgang að atvinnu án tillits til tekna, kyns og bakgrunns.

Almannavernd

5. Að tryggja og styðja við heilbrigðis- og öryggisstaðla, auk viðeigandi stjórnvaldsúrræða til að framfylgja þeim.

Umhverfisleg sjálfbærni

6. Að stuðla að sjálfbærum aðferðum þar sem dregið er úr áherslu á markaðs- og viðskiptavæðingu en meiri áhersla lögð á samnýtingu innviða, þ.e. samnýtingu í hringrásarhagkerfi, til þess að styðja við og efla aðgerðir sem draga úr útblæstri og úrgangi. Taka skal tillit til mögulegra frákastsáhrifa og allt skal þetta gert á grundvelli skilvirkari nýtingar á auðlindum.

Umráðaréttur yfir gögnum og stafræn réttindi borgaranna

7. Að standa vörð um stafræn réttindi borgaranna með innleiðingu reglna um umráðarétt yfir gögnum og siðlega gagnameðhöndlun (til dæmis að því er varðar friðhelgi einkalífs, öryggi, ákvörðunarrétt yfir upplýsingum og hlutleysi upplýsinga, þar sem borgarar fá að ráða stafrænu auðkenni sínu, hver notar gögnin þeirra á netinu og í hvaða tilgangi). Að stuðla að framgangi stefnumála þar sem markmiðið er að borgararnir sjálfir ráði yfir persónupplýsingum sínum svo þær séu ekki misnotaðar eða þeim safnað eða deilt án beins samþykkis viðkomandi. Að tryggja að stafrænir vettvangar séu ábyrgir fyrir gagnavinnslu og gefi notendum umráðarétt yfir flutningi eigin gagna, stafrænu auðkenni sínu og stafrænu orðspori. Að tryggja að borgaryfirvöld hafi aðgang að viðkomandi ópersónugreinanlegum gögnum frá fyrirtækjum sem starfa á þeirra yfirráðasvæði (svo sem upplýsingum um samgöngur, öryggismál, atvinnumál og öðrum upplýsingum sem varða almannahag). Að styðja við þá hugmynd að borgargögn skuli nýta til að leysa vandamál í borgarumhverfinu, almenningi til heilla.

Sjálfstjórn borga

8. Að tryggja að virðing sé borin fyrir lögsögu borga í ljósi þeirra truflana sem nethagkerfi geta valdið.

● Að koma á fót viðræðuramma borga og nethagkerfa til að tryggja virðingu fyrir lögum og reglugerðum á hverjum stað.

● Að tryggja gagnsæi í starfsemi og aðgerðum hvað varðar gagnaflutninga úr nethagkerfinu.

● Að borgir starfi saman til að stuðla að breytingum á regluverki og rammareglum í stafrænu umhverfi til að liðka fyrir samhæfri atvinnustarfsemi, verja réttindi notenda og standa vörð um gæði borgarlandslagsins.

● Að stuðla að því að settar séu stafrænar reglur til að tryggja að farið sé eftir reglugerðum borga.

○ Að til staðar séu viðeigandi skráningarnúmer eigenda og notenda svo athafnir séu rekjanlegar

○ Að borgir deili með sér eftirlitstólum, aðferðum og tækni.

○ Að stafræn hagkerfi séu ábyrg fyrir brotum og lúti gildandi lögum og reglugerðum á hverjum stað.

○ Að krefjast þess að nethagkerfi sæki um leyfi áður en starfsemi hefst innan borgar, geri samkomulag við borgaryfirvöld um viðeigandi starfshætti við hverjar aðstæður og starfi í fullkomnu samræmi við samsetningu hverfa, efnahagsaðstæður og þarfir samfélagsins.

Efnahagslegur stuðningur

9. Að stuðla að þróun efnahagslegra vistkerfa sem byggjast á samvinnu og, sér í lagi, lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hafa jákvæð áhrif á borgarlífið, eins og lýst er í fyrstu meginreglunni, með stuðningi við frumkvöðlastarfsemi, samstarf, fjármögnun og önnur úrræði.

Almennir hagsmunir

10. Að standa vörð um aðgangsrétt borgaranna að borgarrýminu, efla samfélög og verja almenna hagsmuni, almannarými og grundvallarmannréttindi, svo sem aðgang að húsnæði á viðráðanlegu verði.

Viðauki: Aðgerðaáætlun og starfshópur til að styðja við þróun markvissra samstarfsaðgerða borga til að framfylgja yfirlýsingunni á árunum 2018-2019

Aðgerðaáætlunin sem fylgir yfirlýsingunni felst í starfshópi og skipulagi til styðja við áframhaldandi samskipti og samstarf borga í kjölfar leiðtogafundarins og fram að næsta fundi árið 2019. Um er að ræða markvissar aðgerðir til að gera borgunum kleift að framfylgja meginreglum yfirlýsingarinnar. Ekki er víst að allar aðgerðirnar feli í sér aðkomu allra borgaryfirvaldanna sem undirrita yfirlýsinguna.

Áætlunin er lausnamiðuð og fyrirkomulagið byggist á samstarfi og markvissum aðgerðum borgaryfirvalda. Ætlunin er ekki að þetta sé almennt, skipulagt samstarfsnet heldur sé byggt á tilteknum aðgerðum sem gripið er til. Áætlunin er sívirk og sveigjanleg og verður þróuð með tilliti til ábendinga frá borgaryfirvöldum og starfi fundarins.

Vinna starfshópsins er byggð á úrræðum sem borgirnar leggja til og markvissu samstarfi þeirra á milli. Borgaryfirvöld þurfa að lágmarki að skipa tengilið í sinni borg sem starfshópurinn getur leitað til.

Aðgerðirnar eru í skoðun og umfang þeirra kann að aukast:

Samningsstaðlar og stuðningsfyrirkomulag borga: Skilgreining á sameiginlegum lágmarkskröfum í samningaviðræðum við nethagkerfi og leiðir til að styðja hverja borg í sínum samningaviðræðum. Þróun á sameiginlegum og samhæfðum aðgerðum borga gagnvart nethagkerfum ef grundvallarviðmið eru ekki uppfyllt.

Hagsmunagæsla: Þróað verður sameiginlegt verklag við að beita önnur stjórnsýslustig þrýstingi svo tekið verði tillit til sjónarmiða borga og þarfa þeirra þegar kemur að lagasetningu um nethagkerfi. Starfshópurinn mun hafa forgöngu um að mynda tengslanet, eins og nýleg samvinna 13 borga við að þrýsta á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að taka á ólöglegri leigu húsnæðis til ferðamanna er dæmi um, sem aðrar borgir geta svo tekið þátt í. Þetta tengslanet og starf þess varðandi útleigu til ferðamanna á vettvangi ESB getur gefið góða hugmynd um mögulega framkvæmd á þeirri nálgun sem yfirlýsing fundarins felur í sér. Auk þrýstings á ESB vegna útleigu til ferðamanna mun starfshópurinn beita sér í öðrum brýnum málum sem varða aðra þætti deilihagkerfisins, svo sem neytendavernd, stafræn réttindi, réttindi verkafólks og almennt hlutverk og skyldur nethagkerfa.

Viðmið til að greina á milli ólíkra líkana: Viðmið, sem hægt er að nota við stefnumótun, verða sett til að greina á milli eiginleika ólíkra nethagkerfa. Nokkrar borgir, t.d. Barcelona, hafa þegar gert það, í samræmi við fyrstu meginreglu yfirlýsingarinnar.

Kynningaráætlun: Upplýsingamiðlun til að hvetja til félagslegrar ábyrgðar nethagkerfa og kynning á þeim sameiginlegu áskorunum sem borgir glíma við þegar kemur að sameiginlegum hagsmunum þeirra.

Umráðaréttur yfir gögnum og stafræn réttindi borgaranna: Hvað varðar aðgerðir vegna stafrænna réttinda mun starfshópurinn vísa til yfirlýsingar Barcelona, New York og Amsterdam um stafræn réttindi og stafrænna siðareglna Barcelona og leitast við að koma á samstarfi við fleiri borgir um að koma á reglum um stafræn réttindi. Hvað varðar aðgerðir vegna umráðarétts yfir gögnum mun starfshópurinn leitast við að koma á frekari gagnaverndarreglum til samræmis við almennu persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins.

Starfshópur til að efla samskipti, samstarf og samhæfingu aðgerða á milli borga:

■ Áætlun:

● Að starfrækja samskiptamiðstöð í Barcelona næsta árið (2018-2019) til að stuðla að áframhaldandi gagnkvæmum samskiptum á milli borganna fram að næsta fundi. InnoBa, nýsköpunarsetur borgarráðs Barcelona á sviði félagshagfræði, hýsir miðstöðina. Borgaryfirvöld í Barcelona ábyrgjast rekstur miðstöðvarinnar en öðrum borgum er velkomið að leggja starfshópnum lið.

● Að hafa tengilið í hverri borg.

● Að halda myndsímafund með tengiliðum borganna á fjögurra mánaða fresti.

● Að safna saman viðeigandi og gagnlegri sérfræðiþekkingu og taka saman skýrslur um aðgerðir sem gripið er til.

● Að reka opna gagnagátt (sem þegar er til staðar í alfa-útgáfu: https://sharingcities.thedata.place) þar sem finna má stoðgögn og upplýsingar um starfsemi nethagkerfa í borgum.

● Að halda röð málþinga um málefnin, sem eru opin öllum borgum sem skrifa undir yfirlýsinguna (á vegum Sharing Cities Alliance).

● Að stuðla að notkun á ALIX, safni gagna um reglugerðir borga (á vegum Sharing Cities Alliance)

● Að halda leiðtogafund borganna, Sharing Cities, og byggja starf fundarins árið 2019 á því samstarfi sem unnið var árið á undan.

● Að skipuleggja árlega vörusýningu/tengslaráðstefnu fyrir jákvæð nethagkerfi og nýsköpunarstarf (í tengslum við ráðstefnu snjallborga (Smart City Expo). Árið 2018 verður slíkur sýningarskáli á snjallborgaráðstefnunni og hægt verður að endurtaka viðburðinn síðar, hvort sem er innan eða utan snjallborgaráðstefnunnar.

Stuðningur við áætlunina

●  Stuðningur frá Barcelona (borgarráði og Opna háskólanum í Katalóníu) til að styðja við starfið fram að næsta leiðtogafundi.

● Sameiginleg úrræði borganna.

● Samstarfssamningur við Sharing Cities Alliance til að tengja áætlunina við starf samtakanna, t.d. um skipulagningu á röð málþinga fyrir allar borgirnar um meginreglur yfirlýsingarinnar og aðgang að ALIX, safni gagna um reglugerðir borga í málaflokknum.

● Samstarf við áætlunina Sharing Cities Sweden.

● Samstarf innan ramma C.I.T.I.E.S. (International centre for innovation and knowledge transfer on the social and solidarity economy, http://cities-ess.org). C.I.T.I.E.S. er nýr samstarfsvettvangur á vegum Seoul, Montreal og Barcelona þar sem borgir miðla stefnumálum, nýsköpun og þekkingu um félags- og samstöðuhagkerfið.

● Samstarf við rannsóknarstofnanir og verkefni á borð við Europea-verkefnið PLUS og verkefni utan Evrópu.

● Umsókn um ESB-styrkt verkefni Evrópuborga (25 borga) í mars 2019 (Opni háskólinn í Katalóníu hefur umsjón með umsóknarferlinu).