Borgarráð hefur samþykkt ráðningu Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra á Akranesi, í stöðu sviðsstjóra velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Starfið var auglýst þann 7. janúar og sóttu 11 manns um stöðuna en tveir umsækjendur drógu umsókn sína tilbaka. Það var samdóma álit valnefndar sem fór yfir umsóknir og tók viðtöl við umsækjendur að Regína Ásvaldsdóttir uppfyllti best umsækjenda þær kröfur sem gerðar eru til starfs sviðsstjóra og fram komu í auglýsingu um starfið.
Regína býr yfir víðtækri reynslu af stjórnun á vettvangi sveitarstjórnarmála. Hún hefur gengt stöðu bæjarstjóra á Akranesi síðustu fjögur ár. Hún starfaði hjá Reykjavíkurborg á árunum 1997-2011 í ýmsum stjórnunarstöðum þar á meðal í velferðarþjónustu. Hún var skrifstofustjóri borgarstjóra á árunum 2008 -2011, sviðsstjóri þjónustu-og rekstrarsviðs 2004- 2007 og framkvæmdastjóri Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness 1997 - 2002. Auk þess sinnti hún víðtækum stjórnkerfisbreytingum hjá Reykjavíkurborg.
Regína er félagsráðgjafi að mennt, með cand. mag gráðu í félagsráðgjöf og afbrotafræði frá Háskólanum í Osló og meistaranám í hagfræði með áherslu á breytingastjórnun og nýsköpun frá Háskólanum í Aberdeen.
Auk stjórnunarstarfa hefur Regína verið stundakennari við háskólann á Bifröst og við Háskóla íslands þar sem hún hefur kennt stefnumótun og breytingastjórnun.
Velferðarsvið ber ábyrgð á velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar. Á sviðinu starfa 2.500 manns sem veita þjónustu á yfir 100 starfseiningum.
Á sama tíma og Regínu er óskað farsældar í starfi er öðrum umsækjendum þakkaður sýndur áhugi og óskað velfarnaðar.