Rannsókn á vöggustofum
Sjálfstæð og óháð nefnd sem Reykjavíkurborg skipaði til að rannsaka starfsemi vöggustofa sem reknar voru í Reykjavík árin 1949 til 1973 hefur komist að þeirri niðurstöðu að börn hafi sætt illri meðferð á Vöggustofunni Hlíðarenda á tímabilum yfir árin 1949 til 1963. Þá hafi börn í ýmsum tilvikum einnig sætt illri meðferð á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á tímabilum frá 1963 til 1967.
Tengsl við foreldra og fjölskyldur rofin
Alls voru 1083 börn vistuð á vöggustofunum frá 1949 til 1973. Vöggustofunefnd telur ljóst af skriflegum heimildum og frásögnum fyrrverandi starfsfólks að foreldrum barna á vöggustofunum hafi á tímabilum í reynd almennt verið meinað að umgangast börn sín á meðan þau voru á vöggustofunni, hvort sem var að halda á þeim eða snerta með öðrum hætti. Foreldrar hafi almennt einungis mátt sjá börnin í gegnum gler og gilti sú regla óháð því af hvaða ástæðum barn var vistað á vöggustofu.
Með þessum starfsháttum voru tengsl barns við foreldra, og eftir atvikum systkini, rofin á mjög löngum tímabilum án þess að börnum væri veitt persónuleg umönnun sem var til þess fallin að draga úr skaðlegum áhrifum tengslarofs við foreldra eða aðra umönnunaraðila. Að mati nefndarinnar teljast slíkir starfshættir, með hliðsjón af öðrum aðstæðum á vöggustofunni, til illrar meðferðar í skilningi laga. Lítur nefndin þá sérstaklega til aldurs barnanna og þeirra afdrifaríku afleiðinga sem skortur á tengslamyndun við umönnunaraðila, sem og skortur á örvun og skynáreitum, getur haft á heilbrigði og þroska barna. Nefndin leggur áherslu á að þessi atriði voru vel þekkt meðal fagfólks í málefnum barna á þeim tíma sem vöggustofurnar störfuðu.
Starfsemi ekki alltaf í samræmi við lög
Nefndin telur einnig að eftirlit með vöggustofunum hafi verið hverfandi á því tímabili sem var til athugunar. Þá telur nefndin jafnframt liggja fyrir að málsmeðferð barnaverndarnefndar Reykjavíkur var oft og tíðum ekki í samræmi við lög þegar börn voru vistuð á vöggustofunum.
Afdrif barnanna
Nefndin kannaði einnig afdrif barnanna sem vistuð voru á vöggustofunum. Í skýrslunni má finna upplýsingar um hversu mörg börn voru vistuð á öðrum stofnunum og/eða fóru í fóstur. Þá er einnig að finna upplýsingar um dánartíðni- og tíðni örorku í hópnum.