Öryggi verður bætt enn frekar í sundlaugum Reykjavíkurborgar með umfangsmeiri aðgerðum í öryggismálum en lög og reglur kveða á um. Borgarráð samþykkti 13 tillögur þar að lútandi í nafni Guðna Péturs Guðnasonar sem lést í Sundhöll Reykjavíkur í janúar árið 2021. Í hans nafni verður einnig haldin árleg vitundarvakning um öryggismál í sundlaugum borgarinnar.
Þann 21. janúar 2021 lést Guðni Pétur Guðnason, stuðningsfulltrúi á velferðarsviði, í Sundhöll Reykjavíkur. Hann var í vinnunni, í sundi með skjólstæðingi sínum sem bjó í búsetukjarnanum að Flókagötu. Eftir fund foreldra hans, Guðna Heiðars Guðnasonar og Sigrúnar Drífu Annieardóttur, með borgarstjóra og sviðsstjóra velferðarsviðs og í kjölfar víðtæks undirbúnings og samráðs, eru nú lagðar fram tillögur til að bæta öryggi enn frekar í sundlaugum Reykjavíkurborgar í nafni Guðna Péturs. Menningar- og íþróttasviði verður falið að gera aðgerðar- og kostnaðaráætlun í samráði við hlutaðeigandi aðila og er öryggisstjóra borgarinnar falið eftirlit með innleiðingunni, sem áætlað er að verði lokið vorið 2026.
Tillögurnar fela meðal annars í sér að farið verði í umfangsmeiri aðgerðir en opinberir aðilar, svo sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Vinnueftirlitið, kveða á um í dag. Þannig verði til dæmis endurskoðaðar og uppfærðar verklagsreglur og ákvörðunarréttur forstöðumanna til að draga úr þjónustu eða takmarka fjölda gesta rýmkaður. Þá verði nafn Guðna Péturs tengt árlegri vitundarvakningu um öryggismál í sundlaugum borgarinnar, sem verði 21. janúar ár hvert.
Aukið öryggi sameiginlegt markmið
„Að missa barn er eitthvað sem ekkert foreldri ætti að þurfa að upplifa,“ segja Guðni Heiðar og Sigrún Drífa, foreldrar Guðna Péturs. „Við fáum aldrei drenginn okkar aftur, eða munum njóta kærleika hans, hlýju og þess fallega sem frá honum streymdi. Þótt ekkert komi þess í stað er okkur dýrmætt að vita að nafn hans verði tengt björgun mannslífa sem og fyrirbyggjandi aðgerðum sem ætlað er að koma í veg fyrir að þær aðstæður komi upp. Er það því von okkar foreldra Guðna Péturs að þær tillögur sem nú hafa verið samþykktar af borgarráði, muni vekja fólk til vitundar um þær hættur sem geta leynst í sundlaugum og draga úr líkum á að fleiri þurfi að upplifa það sem við höfum þurft að gera og mun fylgja okkur ævilangt.
Um leið og við þökkum góðar undirtektir, skilning borgarstjóra á hugmyndum okkar og vinnu þá sem lögð hefur verið í útfærslu þeirra og samþykkt borgarráðs, viljum við þó minna á að þetta er aðeins fyrsta skrefið af mörgum. Nauðsynlegt er að fylgja fast eftir framkvæmd þessara tillagna sem nú hafa verið samþykktar og tryggja að þær verði að veruleika.“
„Öryggi á sundstöðum hefur ávallt verið forgangsatriði í rekstri þeirra en nú göngum við skrefi lengra og leggjum enn meiri áherslu en áður á öryggisaðgerðir, jafnt fyrirbyggjandi sem aðrar,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Mig langar að þakka foreldrum Guðna Péturs, þeim Guðna Heiðari og Sigrúnu Drífu, fyrir þeirra frumkvæði í málinu og gott samstarf í átt að því sameiginlega markmiði okkar að tryggja öryggi í sundlaugunum enn frekar. Einnig vil ég þakka öllu því starfsfólki og sérfræðingum sem hafa komið að undirbúningi málsins.“
Átta sundlaugar og fleiri á áætlun
Reykjavíkurborg rekur átta sundlaugar. Þær eru Árbæjarlaug, Breiðholtslaug, Dalslaug, Grafarvogslaug, Klébergslaug, Laugardalslaug, Sundhöll Reykjavíkur og Vesturbæjarlaug. Sameiginleg sundlaug með Kópavogsbæ í Fossvogsdal er í undirbúningi og aðrar á áætlun. Aðsókn á sundstaði Reykjavíkur hefur aukist um 20% síðastliðinn áratug sé tekið mið af 2019, það er síðasta heila árinu áður en Covid faraldurinn skall á. Um 2,3 milljónir gesta heimsóttu sundlaugar borgarinnar árið 2019.