Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri tekur á móti borgarstjórum höfuðborga Eystrasaltsríkjanna; Tallinn, Riga og Vilnius, í dag, fimmtudaginn 25. ágúst. Heimsókn borgarstjóranna tengist opinberri heimsókn forseta Eystrasaltsríkjanna til Íslands 25.–27. ágúst.
Tilefni heimsóknarinnar er að um þessar mundir eru rúmir þrír áratugir liðnir frá því að ríkin tóku upp stjórnmálasamband að nýju, þann 26. ágúst 1991, eftir að Ísland varð fyrst ríkja til að viðurkenna á ný sjálfstæði Lettlands, Litháens og Eistlands í kjölfar falls Sovétríkjanna.
Þeir Mārtiņš Staķis, borgarstjóri Riga, Remigijus Šimašius, borgarstjóri Vilnius og Mihhail Kõlvart, borgarstjóri í Tallinn, taka þátt í hluta dagskrár sem skrifstofa Forseta Íslands og Utanríkisráðuneytið halda í tilefni tímamótanna með forsetum og utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna þriggja.
Dagskrá heimsóknar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri býður borgarstjórunum í hádegisverð og skoðunarferð um borgina á morgun, föstudag. Að því loknu verður haldin móttaka í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem boðsgestir eru Lettar, Litháar og Eistlendingar sem búsettir eru á Íslandi og þau sem eiga sérstök tengsl við Eystrasaltslöndin. Heimsókn borgarstjóranna lýkur svo með kvöldverði borgarstjóra í Höfða.
Að kvöldi fimmtudagsins býður forseti Íslands þjóðhöfðingjum, ráðherrum og borgarstjórum Eystrasaltsríkjanna til hátíðarkvöldverðar á Bessastöðum.
Föstudaginn 26. ágúst verður þess minnst með hátíðarsamkomu í Höfða í Reykjavík að þann dag árið 1991 var skrifað undir yfirlýsingar þar um stjórnmálasamband Íslands við Eistland, Lettland og Litháen.
Því næst verður haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem forseti
Íslands flytur fyrirlesturinn „Icebreaker on the International Scene? Icelandic Support for Baltic Independence 1990 – 1991“.
Opinberri heimsókn forsetanna, ráðherranna og borgarstjóranna lýkur á föstudagskvöld 26. ágúst.