Borgarráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að bjóða skuli út framkvæmdir við endurgerð Óðinstorgs og Týsgötu að hluta. Óðinstorg er hluti af verkefninu "Þingholt, torgin þrjú." Um er að ræða Baldurstorg, Freyjutorg og Óðinstorg.
Fjölbreytt hverfistorg fyrir íbúa og gesti
Vinningstillögur í hönnunarsamkeppni um Óðinstorg voru kynntar í Ráðhúsi Reykjavíkur 2015
Um vinningstillögu að endurgerð Óðinstorgs segir í dómnefndaráliti að hún tengi garð- og leiksvæði vel við gróðursælt torg og virki vel sem hverfistorg fyrir íbúa og aðra gesti. Tillagan sýnir góða lausn á fjölbreyttu hverfistorgi. „Góð blanda er af gróðri, efnisval vandað og lýsing vel útfærð.
Helsta viðfangsefni hönnunarsamkeppninnar fyrir Óðinstorg var að stuðla að breyttri notkun á torginu frá því sem nú er, en svæðið er að mestu lagt undir bílastæði. Einnig að horfa á lausnir fyrir Óðinsgötu og Týsgötu sem tengir torgið við Skólavörðustíg á sem bestan hátt. Í innsendum tillögum mátti samkvæmt keppnisskilmmálum horfa framhjá ákvæðum gildandi deiliskipulags hvað varðar torg og göturými.
Höfundar vinningstillögu um endurgerð Óðinstorgs eru Anna María Bogadóttir, Einar Hlér Einarsson, Hrólfur Karl Cela og Sigríður Sigþórsdóttir, arkitektar hjá Basalt arkitektum. Í samstarfi við þau voru Auður Sveinsdóttir, landslagsarkitekt, Edda Ívarsdóttir, borgarhönnuður og Dario Gustavo Nunes Salazar, lýsingarhönnuður hjá Verkís.
Í forsendum hönnunarsamkeppninnar var lagt upp með eftirfarandi markmið:
- Að efla gæði umhverfisins á allan hátt og að hönnunin endurspegli góðan borgarbrag.
- Að torgið verði vettvangur fjölbreytts mannlífs.
- Að torgið verði stolt hverfisins og frábært dvalarsvæði fyrir íbúa.
- Að torgið styðji við veitinga- og viðburðahald.
- Áhersla er lögð á gott aðgengi fyrir alla.
Framkvæmdir á Óðinstorgi felast í endurnýjun yfirborðs á torgsvæði og hluta götu. Komið verður fyrir setpöllum, stökum sætum, leikhólum, pollum og hjólagrindum. Framkvæmdir í Týsgötu fela í sér endurnýjun yfirborðs götu og göngusvæða auk gróðursetningar. Verkið er samstarfsverkefni með Veitum ohf sem endurnýja fráveitulagnir, hitaveitu, kalt vatn og raflagnir.
Til viðbótar framangreindum torgum hefur einnig verið unnið að lagfæringum/endurbótum á Káratorgi.