Nýr stígur bætir verulega aðgengi að Öskjuhlíð

Umhverfi

""

Framkvæmdir hefjast á næstu vikum við stíg sem mun bæta verulega aðgengi að útivistarsvæðinu í Öskjuhlíð. Nýr inngangur á svæðið verður frá gatnamótum Bústaðarvegar og Flugvallarvegar og mun stígurinn hlykkjast upp í gegnum skóginn. Öryggi og aðgengi fyrir alla er í fyrirrúmi. Stígurinn myndar nýja tengingu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur fyrir íbúa miðborgar, Hlíða, Norðurmýrar og einnig fyrir íbúa í nýja Hlíðarendahverfinu inn á þetta mikilvæga útivistarsvæði.

„Þegar við vorum að finna þessum stíg leið vorum við fyrst og fremst að hugsa um að gera eina greiðfæra leið upp á Perlu og upp á Öskjuhlíðina í áttina frá miðborginni,“ segir Þráinn Hauksson landslagsarkitekt og hönnuður þessa verkefnis. „Það er verið að opna Öskjuhlíðina fyrir fjöldanum,“ segir hann og bendir á að nú sé erfitt að útskýra fyrir þeim sem þekki ekki vel til hvernig eigi að komast þarna um og upp á hæðina.

Í takt við náttúru og umhverfi

Þarna verður greið leið í gegn til að upplifa skóginn og tekið verður tillit til umhverfisins, til dæmis verði lýsingu beint sem mest á stíginn og sem minnst út í umhverfið. Enn fremur verða valdir öðruvísi ljósastaurar til að falla betur inn í skógarumhverfið.

Stígurinn liggur í sveigjum og er langur því hugsunin er að ná ásættanlegum halla svo hann geti verið fær sem flestum. Þessi stígur er aðalleið inn í Öskjuhlíð og þarf að uppfylla kröfur sem slík. Eftir sem áður er megnið af stígunum í Öskjuhlíð malarstígar.

Svæðið hefur verið vinsælt fyrir alls konar útivist og íþróttir. Þessi nýi stígur einungis bætir aðgengi að Öskjuhlíð til að stunda þessa fjölbreyttu útivistariðju. „Skógurinn getur geymt þetta allt saman,“ segir Þráinn. Vinningstillaga Þráins og félaga í Landslagi ehf. í hugmyndasamkepppni um skipulag Öskjuhlíðar var meðal annars lofuð fyrir það að höfundar tillögunnar þóttu „sýna mikið næmi fyrir gróðri og náttúruupplifun“.

Perlufesti í undirbúningi

Í framhaldinu stendur til að vinna að útfærslu svokallaðrar Perlufestar, upplifunarstígs, sem er ofarlega í hæðinni. Markmiðið er að slíkur stígur geti orðið áfangastaður út af fyrir sig og að hann verði með allt öðru sniði en hefðbundinn stígur þar sem listræn gildi verði í öndvegi og vandað verði til verka. Perlurnar á festinni verða af ýmsum toga, vegfarendur verða ýmist í skógarlundi, geta skoðað minjar eða dáðst að útsýni til Snæfellsjökuls. Perlufestin geti tengst starfsemi Perlunnar en nú er þar náttúrusýning og það verði „hægt að upplýsa um gróður, jarðfræði, söguna og fjallahringinn,“ segir Þráinn.

Hluti af vinningstillögu Landslags er svokallaður metorðastigi, tröppustígur sem er á teikningu upp hlíðina frá bílastæðinu milli stúdentagarðanna og Háskólans í Reykjavík. Sambærilegar tröppur í Kópavogi hafa notið vinsælda hjá þeim sem vilja þjálfa úthaldið og reyna á sig til hins ítrasta og gætu orðið skemmtileg viðbót við svæðið.