No translated content text
Reykjavíkurborg og Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa gert með sér nýjan samning til fjögurra ára um rekstur og framkvæmd heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu. Heilbrigðisráðherra og borgarstjóri staðfestu samninginn með undirritun sinni í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær. Árlegur kostnaður við samninginn nemur rúmum 1,3 milljörðum króna.
Samningurinn er gerður á grundvelli fjárveitinga til verkefnisins og byggir að meginstofni til á fyrri samningi aðila, dags. 9. mars 2012. Reykjavíkurborg tekur að sér að reka heimahjúkrun sem samþætt er með rekstri félagslegrar heimaþjónustu í Reykjavík og myndar þannig eina heild gagnvart notendum þjónustunnar. Aðilar samningsins eru sammála um að vel hafi tekist til með slíkt fyrirkomulag á liðnum árum.
Auk samþættrar þjónustu í Reykjavík felst í samningnum að Reykjavíkurborg annast heimahjúkrun fyrir Seltjarnarnesbæ, allan sólarhringinn, alla daga ársins, kvöld- nætur- og helgarþjónustu heimahjúkrunar í Mosfellsbæ, og næturþjónustu heimahjúkrunar í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.
Til marks um umfang heimahjúkrunar á hendi Reykjavíkurborgar nutu rúmlega 2000 einstaklingar heimahjúkrunar í borginni árið 2014 en tæplega 2.500 þegar horft er til þjónustusvæðisins alls.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir samkomulagið afar mikilvægt fyrir ríki og borg en ekki síst fyrir notendur þjónustunnar. „Borgin hefur sinnt heimahjúkrun í nokkur ár með góðum árangri og fléttað hana saman við félagslega heimaþjónustu sem er ótvíræður styrkur. Öflug heimahjúkrun gefur fólki kost á að vera eins lengi heima og hægt er og spítalinn getur einbeitt sér að þeirri læknis,- og umönnunarþjónustu sem kallar á spítalaumhverfi. Velferðar- og heilbrigðismál eiga marga snertifleti og ég vonast eftir enn meira samstarfi við ríkið um fleiri þætti sem geta bætt þjónustu við notendur,“ segir Dagur.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að öllum sé orðin ljós sú staðreynd að með því að samþætta heimahjúkrun og aðra þjónustu við fólk í heimahúsum skapist sóknarfæri í þágu notenda: „Bætt yfirsýn og samlegðaráhrifin sem fást með samþættingunni auka sveigjanleika og gera auðveldara að sníða þjónustuna að þörfum notenda. Allt er þetta til þess fallið að bæta öryggi þjónustunnar og þar með fólksins sem þarf hennar með. Þannig gerum við fólki kleift að búa sem lengst á eigin heimili sem er meginmarkmið samningsins“ segir Kristján Þór.
Samningurinn tók gildi 1. janúar síðastliðinn og gildir til 31. desember 2019.