Nýr innsiglingarviti í höfn

Umhverfi Framkvæmdir

""

Vitinn við Sæbrautina er mikilvægt öryggistæki fyrir sjófarendur en mun um leið nýtast sem útsýnispallur og mikilvægur áningarstaður á gönguleið meðfram Sæbraut.

Árið 1945 var Sjómannaskólinn vígður en í turni skólans var innsiglingarviti sem þjónaði hluverki sínu allt þar til háhýsin við Borgartún og Hátún fóru að skyggja á geisla vitans í Sjómannaskólanum og þjónaði hann því ekki lengur sama hlutverki og áður. Innsiglingarvitarnir frá 1913-1917 í Gömlu höfninni voru notaðir sem fyrirmynd við hönnun hjá Yrki Arkitektum á vitanum við Sæbraut.

Fjölnota áningarstaður

Um mikilvægt öryggistæki er að ræða fyrir sjófarendur sem eru að koma inn til hafnar í Reykjavík. Við hönnun vitans var lögð áhersla á upplifun og um leið að skapa fjölnota svæði sem byggir á anda staðarins.  Aðgengi er gott að vitanum með velfærum stígum til að njóta náttúru og útivistar.

Í Norrænni framkvæmdaáætlun á sviði umhverfismála segir að almenningur, sérstaklega börn og unglingar, eiga að geta notið náttúrunnar í daglegu lífi. "Umgengni við náttúruna eykur skilning á henni sem aftur eflir verndun náttúrusvæða. Að dvelja í náttúrunni hefur einnig góð áhrif á líkamlega og andlega líðan. Gott aðgengi að náttúrunni, grænum svæðum og gæðum náttúrunnar, umhverfisins og menningarminja eru mikilvægar forsendur útivistar og ferðamennsku.“