Fjölsóttur opinn fundur um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur var í Ráðhúsinu í morgun. Þar komu m.a. fram nýjungar í byggingum fyrir hagkvæmt húsnæði og fjölmargar snjallar lausnir voru kynntar.
Opinn fundur um hagkvæmt húsnæði, ungt fólk og fyrstu kaupendur var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur, í dag föstudaginn 16. mars. Á fundinum var m.a. farið yfir innsendar hugmyndir um hagkvæmt húsnæði sem borgin hefur fengið sendar eftir hugmyndaleit.
Nýjar lausnir og hugmyndir í húsnæðismálum eru mikilvægar til að hvetja til nýsköpunar og framþróunar í uppbyggingu íbúða. Í vetur auglýsti Reykjavíkurborg eftir hugmyndum til þess að auka framboð af hagkvæmu húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur. Tæplega 70 hugmyndir bárust sem gefa spennandi fyrirheit um framtíðina.
Á fundinum fór Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, yfir innsendar hugmyndir auk þess sem forsvarsmenn sex áhugaverðra hugmynda kynntu nánar sínar hugmyndir. Þá voru einnig kynnt næstu skref í verkefninu um hagkvæmt húsnæði en í vor verða ákveðnar lóðir auglýstar undir valin nýsköpunarverkefni.
Fundarstjóri var Guðrún Ingvarsdóttir forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins. Hægt er að horfa á streymi frá fundinum hér. Hugmyndir snerust um nýja hugmyndafræði, nýja byggingaraðferð og bland úr báðum aðferðum.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti hugmyndir sem bárust og gerði grein fyrir húsnæðisáætlun. Borgin beitir sér fyrir fjölbreyttum valkostum á markaði og leggur sérstaklega áherslu á að huga þurfi að yngstu kaupendum. Hann benti á lifanda vef, ibudauppbygging.is, sem er uppfærður tvisvar á ári.
Sjónum var sérstaklega beint að ungu fólki og fyrstu kaupendum í erindi Dags og að sjötíu aðilar sendu inn hugmyndir í þessari hugmyndaleit, allt frá því að vera frumhugmyndir einstaklinga til stórra verkefna hópa. 500 íbúðir eru ætlaðar sem hagkvæmt húsnæði á svæðum eins og Gufunesi, Úlfarsárdal, Bryggjuhverfi III, Skerjafirði, Veðurstofuhæð og lóð Stýrimannaskólans.
Dagur fór yfir öll þau svæði í Reykjavík þar sem ungt fólk og fyrstu kaupendur gætu fundið sér heimkynni í framtíðinni, t.d. í Gufunesi þar sem fyrstu íbúðir fara í uppbyggingu á þessu ári. Það er mjög áhugavert svæði fyrir ýmsar af þeim hugmyndum sem sendar voru inn í hugmyndaleitina um hagkvæmt húsnæði.
Dæmi um tillögur í hugmyndaleitinni
Jóhann Einar Jóhannsson hjá Teiknistofu arkitekta kynnti hugmynd að einingakerfi. Hann sagði að lítill sveigjanleiki væri í dag sem mæti ekki vel þörfum fólks. Hann lagði fram hugmynd um fullgerðar íbúðir að utan en íbúar ráða síðan öllu innra borði sjálfir. Þetta býður upp á skemmtileg húsform og fjölbreytt.
Daði Baldur Óttósson kynnti hugmynd fyrir Eflu og Ístak sem snerist um bílastæðahús. Klasi af blandaðri er þá byggður í kringum miðlægt bílastæðahús sem býður upp á aukinn sveigjanleika, t.d fyrir deilibíla og hjólaverkstæði. Það gæti t.d. verið lifandi jarðhæð og þakið á bílastæðahúsinu gæti verið leiksvæði eða þar mætti reka veitingahús. Hann sýndi fram á hvernig þetta bílastæðahús gæti stutt vistvænan lífsstíl og nefndi erlendar fyrirmyndir.
Gísli Örn Bjarnhéðinsson kynnti fyrir Urðarsel hugmyndir um húsnæðisfélag með ávinningi og hvata. Einfalt gott og vandað húsnæði og fólk myndi borga t.d. 125. þúsund á mánuði. Byggja mætti litlar hagkvæmar einingar. Fólk þarf að mála sjálft og klára einfaldari innviði eftir eigin smekk. Næsta kynslóð sem tæki við íbúðinni hefur aftur aðgang að íbúðinni á hagkvæman hátt með því að endurnýja innréttingar. Hvað er fólk tilbúið til dæmis að eyða í eldhús?, spurði hann og svaraði: 13. þúsund eða 150 þúsund? Það er val í þessum tilfellum.
Vala Hrönn Guðmundsdóttir kynnti fyrir Sixtar um húsnæðisfélag. Hún nefndi að mikið óöruggi ríki á leigumarkaði. Sixtar er hagkvæmur og hraður byggingarmáti og ný sýn á leigumarkaði, sagði hún. Leigutakar í þessum byggingum geta pantað ýmsa þjónustu og á jarðhæð eru kannski deilibílar og reiðhjól. Allar íbúðirnar eru eins í útliti og hver þeirra er fjölnota. Markmiðið er að mæta nútímalífsstíl fólks.
Magnús Jensson sem kynnti fyrir byggingasamvinnufélag samtaka um bíllausan lífsstíl, sagði frá húsnæðisfélagi. Hann fjallaði um hugtakið þéttleika og dró upp mynd án bílastæða. Hægt er að byggja mjög þétt með þröngum götum, sagði hann. Íbúi gæti keypt aðgang að bílastæði í nágrenninu ef hann hefur áhuga á því. Framtíðin felst í því að sleppa bílnum úr lífi sínu, að mati Magnúsar.
Þórey Rósa Stefánsdóttir kynnti fyrir Módulus og fjallaði um einingar eða módel. Allt er byggt frá A-Ö í verksmiðju, 55 fm hver eining og er flutt í heild á framkvæmdastað. Þarf bara að ganga frá jarðvinnu og sökklum. Hægt er að vera með þrjár hæðir í þessari gerð húsa. Þetta er hannað til að púsla saman og auðvelt á skipta um staðsetningu. Markmiðið er að koma fleiri herbergjum fyrir á færri fermetrum, sagði hún.
Hrólfur Jónsson skrifstofustjóri skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg sagði frá næstu skrefum og hvaða lóðir fyrir 500 til 700 íbúðir hafi verið valdar eins og borgarstjóri hafði nefnt áður. Markmiðið er ávallt að leita að hagkvæmu húsnæði. Þetta verður gert í þremur þrepum að hans sögn. Nefna má að viðkomandi aðili sem sækir um skilgreinir sig inn á tilteknar lóðir með leigu- eða söluíbúðir. Það þarf að vera blandað. Gera þarf grein fyrir hvernig fólk er valið inn t.d. ef 50 íbúðir standi til boða en þúsund sækja um. Í heild má segja að tryggja þarf fjölbreytt tilboð fyrir fólk. Hrólfur sagði frá fjölmörgum mælikvörðum í þessu ferli.
Í lokun kom fram að fundargestir voru mjög ánægðir með þetta framtak og þessa hugmyndaleit og ætluðu að vinna áfram að þessu verkefni.
Tenglar á erindi