Bráðabirgðaniðurstöður úr sýnatöku Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í gær eru í samræmi við niðurstöður undanfarinna daga en athygli vekur há gerlatala í Nauthólsvík.
Allar líkur eru á að þetta sé einstakt tilfelli en Heilbrigðiseftirlitið getur þó ekki mælt með sjósundi í dag og biður fólk um að fylgjast með niðurstöðum sem verða birtar á heimasíðu Reykjavíkurborgar.
Rétt er að taka fram að einungis er um eitt sýni að ræða en sýnataka var endurtekin í dag og verða niðurstöður birtar á morgun, laugardaginn 15. júlí, eða um leið og þær berast. Þetta eru aðrar niðurstöður í Nauthólsvík en verið hefur og náið verður fylgst með þróun þar.
Niðurstöður fyrir Nauthólsvík nú eru ekki í samræmi við aðrar niðurstöður frá sýnatökustöðum í nágrenninu og til samanburðar er bent á að gerlafjöldi á sýnatökustað við enda flugbrautar er 1/100ml.
Niðurstöður mælinga við strandlengjuna.
Vöktun strandlengjunnar við Faxaskjól, Ægissíðu, Skeljanes og Nauthólsvík.