Hönnun nýrra göngu- og hjólabrúa yfir Elliðaár var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar í morgun. Annars vegar voru kynntar brýr sem koma í staðinn fyrir hitaveitustokkinn gamla neðarlega í dalnum og hins vegar ný göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár við Grænugróf í Víðidal. Brýrnar eiga eftir að setja skemmtilegan svip á dalinn og auka notagildi hans.
Innblásturinn að hönnuninni er sóttur til mikillar sögu veitna í dalnum. Hönnun er í höndum teiknistofunnar Stiku, hönnunarhópsins Tertu, VBV verkfræðistofu og Lisku.
Ekki er um endanlega hönnun að ræða heldur er um að ræða kynningu á hugmyndavinnu fyrir útlit á brúnum. Gætt verður að öllum aðgengis- og öryggisatriðum við endanlega hönnun.
Saga Elliðaárdalsins er samtvinnuð sögu rafmagnsveitu, hitaveitu og vatnsveitu í Reykjavík. Terta hefur unnið að umbreytingu Elliðaárstöðvar og hefur þar sótt í brunn þess sem er falið í veitukerfinu. Í kringum stöðina eru gular pípur áberandi en í þessum brúm verða annars vegar rauð rör með tilvísun í hitaveitu og hins vegar blá rör sem vísa til vatnsveitunnar, það er kalda vatnsins.
Göngubrýr og stígur í stað hitaveitustokks
Tvær göngubrýr, göngustígur og áningastaður í hólmanum koma í stað gömlu leiðarinnar yfir hitaveitustokkinn sem áður lá yfir árnar á þessum stað. Stokkurinn var löngum mikilvæg gönguleið inn í borgina en nú er búið að rífa hann. Stöplarnir standa eftir og verða þeir nýttir í undirstöður undir brýrnar, sem verða 3,5 metrar á breidd.
Rautt rör, sem er 20 sentímetrar í þvermál, gengur eftir brúnni og aðlagar sig að þörfum hennar. Rörin sveigjast og breytast í ljós, útskot og fleira með þessa vísun í hitaveituna. Ljósin eru lág og er vel er gætt að því að lýsingin hafi ekki truflandi áhrif á umhverfið eða berist út í árnar. Þau verða dempuð á skynjurum svo lýsingin eykst aðeins þegar farið er um þessa gönguleið.
Á áningarstaðnum verða rörin líka notuð til að móta set og leiksvæði, til dæmis í hringlaga formum, sem byggja á algengri gerð heitra potta í sundlaugum borgarinnar.
Veitur taka þátt í þessari framkvæmd í samvinnu við Reykjavíkurborg.
Stokksbrýr
Göngu- og hjólabrú við Grænugróf í Víðidal
Göngu- og hjólabrú yfir Elliðaár við Grænugróf verður breið, 6,5 metrar, en á hana setja 10 sentimetra blá rör svip sinn en þau mynda samhverf handrið, sem sveigjast á hliðum brúarinnar. Þarna er vísað í kalda vatnið og vatnsveituna. Brúin tengist inn á stígakerfi Reykjavíkurborgar og höfuðborgarsvæðisins alls.
Eins og á fyrrnefndum brúm, sem koma í stað stokksins, er mikið lagt í lýsingarhönnunina, sem mun setja svip á umhverfið á sama tíma og gætt er vel að því að lýsingin hafi ekki áhrif á lífríki árinnar. Lýsingunni er beint á brúargólfið þar sem nauðsynlegt er að gæta þess að ljós fari ekki út í árnar.
Gerð göngu- og hjólabrúar við Grænugróf er hluti verkefna Samgöngusáttmálans, sem gerður var 2019 milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu, þar sem markmiðið er meðal annars að stuðla að auknu umferðaröryggi, hagkvæmum, greiðum og skilvirkum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.
Grænagróf
Framkvæmdatími
Búist er við því að framkvæmdir fari af stað í haust með undirbúningi. Vetrartíminn er síðan besti framkvæmdatíminn á þessu svæði þar sem það þarf að taka tillit til lífríkis ánna. Búast má því því að framkvæmdir standi yfir fram á næsta ár. Til að stytta framkvæmdatímann og lágmarka rask á staðnum verða brýrnar framleiddar í einingum sem settar verða saman á staðnum.
Á sama tíma er gert er ráð fyrir að fram fari framkvæmdir við enn aðra nýja brú, sem kennd hefur verið við Dimmu, efst í Víðidal, við Breiðholtsbraut. Sú brú kemur í stað veitustokks sem nýttur hefur verið sem göngubrú og hefur lengi verið farartálmi á leið gangandi og hjólandi vegfarenda um dalinn. Bygging hennar er hluti af framkvæmd stíga við nýjan Arnarnesveg sem og hluti Samgöngusáttmálans.