Nýi Skerjafjörður kynntur á arkitektúrþríæringnum í Osló

Borgarhönnun Samgöngur

Teikninga af mannnlífi í Nýja Skerjafirði.

Nýtt hverfi í Skerjafirði hefur verið valið til kynningar á þríæringnum í Osló í haust. Þríæringurinn er tileinkaður arkitektúr og er þemað í ár „hverfið“.

Nýi Skerjafjörður var valinn úr um 400 umsóknum sem eitt af sex verkefnum sem verða kynnt í svokölluðum „Open Call“ hluta þríæringsins en í heildina verða sýnd tæplega 40 verkefni á þessari arkitektúrhátíð í september.

Á þríæringnum verða rannsakaðar leiðir til að skapa fyrirmyndarhverfi framtíðarinnar. Leitast verður við að svara spurningum eins og hvað einkenni góð hverfi og hvernig innviðir eins og götur geti nýst sem dvalarsvæði íbúa.

Byggt á hönnunarleiðbeiningunum

Valið er byggt á hönnunarleiðbeiningunum fyrir nýtt hverfi í Skerjafirði, en í þeim eru lagðar markvissar línur fyrir vistvæna byggð en í leiðbeiningunum er sett fram heildarstefna um hönnun almenningsrýma á svæðinu. Takmarkið er að skapa sterkt samband milli náttúru og borgar og búa til umhverfi sem hvetur til félagslegra athafna og er umhverfislega og efnahagslega sjálfbært. Nýi Skerjafjörður býður íbúum upp á vistvænan lífsstíl.

Leiðbeiningarnar voru kynntar fyrir skipulags- og samgönguráði í september síðastliðnum en þær höfðu verið í vinnslu frá því í febrúar 2021 hjá deild borgarhönnunar hjá Reykjavíkurborg en ráðgjafi verkefnisins er Mandaworks í Svíþjóð. 

Dómnefndin talar jákvætt um hönnunarleiðbeiningarnar í umsögn sinni og segir meðal annars að þar komi fram margar mismunandi lausnir til að „tryggja líffræðilega fjölbreytni, seiglu og hágæða borgarrými með því að leggja áherslu á hvernig farið sé með borgarrýmin á milli bygginganna, garðinn, torgin og göturnar“. Hún segir einnig að hönnunarleiðbeiningarnar séu mikilvægt tól fyrir stjórnsýslu borgarinnar að verkefnið sýni „hvernig megi flétta náttúruna inn í borgina, með langtímagæða umhverfisins í huga“.

Vistvænar samgöngur

  • Umferð virkra ferðamáta, eins og gangandi og hjólandi vegfarenda, er í algjörum forgangi.
  • Breidd gangstétta og svæði fyrir gangandi stuðla að félagslegum samskiptum.
  • Götur eru hannaðar með öruggt umhverfi fyrir umferðarflæði í huga.

Lífseigur gróður

  • Gert er ráð fyrir miklu rými fyrir gróður í almenningsrými.
  • Gróðurinn uppfyllir skilyrði hvað varðar líffræðilega fjölbreytni, nýtingu regnvatns og áhrif á loftslag.
  • Staðsetning gróðurs skapar aðlaðandi umhverfi með afgerandi sérkenni.

Mannlíf

  • Gert er ráð fyrir leik, hvíld og samskiptum við hönnun almenningsrýma.
  • Íbúðagöturnar njóta góðs af forgangi gangandi vegfarenda og eru jafnframt sameiginlegt svæði fyrir íbúana.

Einstakt yfirbragð

  • Hönnun gatnakerfisins, hlutverk, gróðursetning og aðstaða veitir almenningsrýminu áberandi yfirbragð.

Tenglar