Notendur ánægðir með þjónustuna

""

Þjónustukönnun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2017 var kynnt á fundi borgarrráðs í dag.

Könnunin nær til starfsemi og þjónustu sem veitt er af miðlægri stjórnsýslu, umhverfis- og skipulagssviði, velferðarsviði, menningar- og ferðamálasviði og íþrótta- og tómstundasviði, en þjónustukannanir á skóla- og frístundasviði eru lagðar fyrir notendur þjónustu eingöngu og eru framkvæmdar á sviðinu.

Könnunin var framkvæmd af Maskínu og lögð fyrir 2.732 íbúa Reykjavíkur á aldrinum 18-75 ára, á tímabilinu 10. nóvember-23. desember 2017. Úrvinnsla könnunarinnar miðaðist við notendur þjónustu eftir því sem við verður komið og eru niðurstöður fyrir hluta spurninganna einnig settar fram miðað við alla þátttakendur.

Borgarbúar voru í flestum spurningum spurðir um ánægju með þjónustu Reykjavíkurborgar á kvarðanum 1-5 (mjög óánægður til mjög ánægður). Þegar spurt var um ánægju með þjónustu á heildina litið var meðaltalið 3,12. Athygli vekur að notendur þjónustu eru ánægðari en þeir sem nota hana ekki og að almennt er meiri ánægja þegar spurt er um tiltekna þjónustu en þegar spurt er um ánægju með þjónustu á heildina litið.

Af þeim sem hafa nýtt sér þjónustu þjónustumiðstöðva er meðaltalið 3,77 en 3,32 meðal þeirra sem ekki hafa nýtt sér þjónustu á s.l. 12 mánuðum. Meðaltalið var 3,62 þegar spurt var um ánægju með vefsíðu borgarinnar og meðaltalið var 3,87 þegar spurt var um ánægju með Rafræna Reykjavík. Þegar spurt var um ánægju með menningarstofnanir Reykjavíkurborgar var meðaltalið 4,31 en 2,9 þegar spurt var um ánægju með umhirðu og hreinsun í hverfum. Þegar spurt var um ánægju með sundlaugar borgarinnar þá var meðaltalið 4,26. Þá var meðaltalið 3,71 þegar spurt var um ánægju Fjölskyldu- og húsdýragarðinn, skíðasvæðin, opin svæði og aðstöðu til íþróttaiðkunar í hverfum.

Þjónustukönnun Reykjavíkurborgar