Náttúra Íslands verður í Perlunni

Stjórnsýsla Framkvæmdir

""
Gangi hugmyndir Reykjavíkurborgar eftir verður opnuð sýning um náttúru Íslands í Perlunni, en auglýst hefur verið eftir áhugasömum aðilum til að sjá um rekstur og þjónustu.  Í auglýsingunni er lögð áhersla á að fjallað verði á metnaðarfullan hátt um náttúru Íslands og gert er ráð fyrir því að reksturinn skapi nýjan og áhugaverðan áfangastað í Öskjuhlíð sem dragi til sín fjölda innlendra og erlendra gesta.
Reykjavíkurborg býður fram húsnæði í Perlunni til ráðstöfunar fyrir þetta verkefni. Annars vegar meginbygging og hins vegar einn af sex hitaveitutönkum Orkuveitu Reykjavíkur (OR).  Frestur til að skila inn hugmyndum er til 22. febrúar.
 

Gæði hugmyndar, leiguverð, viðskiptaáætlun, þekking og reynsla

Umsækjendum er frjálst að nálgast viðfangsefnið frá þeim sjónarhóli sem þeim þykir áhugaverðastur og líklegast er að höfði til innlendra og erlendra gesta á öllum aldri.
 
Við mat á innsendum hugmyndum verða eftirtalin atriði  lögð til grundvallar:
  • Gæði hugmyndar út frá hönnun, frumleika, nýtingu rýmis, aðgengi og fleira.
  • Boðið leiguverð og áætlaður framkvæmdakostnaður vegna breytinga
  • Þekking og reynsla umsækjenda
  • Viðskiptaáætlun
Í umsókn sinni skulu umsækjendur lýsa nánar:
  • Innihaldi, fræðslugildi og miðlunarleiðum sýningar
  • Kostnaðaráætlun, tímaáætlun framkvæmdatími og áætluð opnun á sýningu
  • Daglegur sýningartími
  • Aðgengi almennings að salernum og útsýnispöllum
  • Veitingarekstri og/eða hugmyndum um aðra þjónustu í húsinu
  • Afstaða til mögulegra framkvæmda eins og uppsetningar á milligólfi
  • Áætlun um samfélagslega ábyrgð, þ.m.t. umhverfisvernd
 
Í kynningarhefti verkefnisins er matslíkan útskýrt nánar og geta áhugasamir fengið það sent með því að senda póst á utbod@reykjavik.is.
 

Tæplega 4.500 fermetra svæði fyrir sýningu og þjónustu

Perlan var byggð árið 1991 og hefur lengi verið eitt af kennileitum í Reykjavík. Perlan hvílir ofan á sex hitaveitugeymum. Hitaveitugeymar teljast ekki til hússins og tilheyra OR. Einn vatnsgeymir verður tekinn á leigu af Reykjavíkurborg sem mun framleigja hann leigutaka. Núverandi leigusamningur er til 10 ára og rennur út 1. nóvember 2023 en framlengist þá sjálfkrafa um 5 ár nema honum sé sagt upp.
 
Húsnæðið sem um ræðir er skráð samkvæmt FMR 4.022,7 fermetrar og auk vatnsgeymis sem er 427,1 fermetrar. Lóðin umhverfis húsið er 30.659 fermetrar og er skilgreind sem viðskipta- og þjónustulóð. 
 
Á fimmtu og sjöttu hæð er í dag rekinn veitingastaður. Sá hluti er einnig til leigu og er það í höndum leigutaka að taka afstöðu til þess hvort veitingarekstri verður haldið áfram eða rýmið nýtt undir sýningu.
 
OR mun áfram reka fimm vatnsgeyma en mun ekki þurfa sérstaka aðstöðu í húsinu til að þjóna þeim. Gert er ráð fyrir að OR sjái um allt viðhald á geymum og því sem þeim tilheyrir. Reykjavíkurborg mun bera ábyrgð á viðhaldi á öðrum hlutum hússins og lóðarinnar.
 
Tengt efni:
·         Skoða auglýsingu á vef
·         Skoða blaðaauglýsingu