Minni afgangur hjá borginni

Stjórnsýsla Fjármál

""

Sex mánaða uppgjör Reykjavíkurborgar var afgreitt í borgarráði í dag. Rekstrarniðurstaða samstæðunnar A og B hluta var jákvæð um 303 milljónir. Rekstur borgarinnar er nú þyngri, m.a. vegna minni hagnaðar Orkuveitu Reykjavíkur og hækkun launakostnaðar umfram áætlun.

Uppgjörið sýnir jákvæða rekstrarniðurstöðu fyrir samstæðu Reykjavíkurborgar A og B hluta. Niðurstaðan var jákvæð um 303 mkr en áætlun gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 2.141 mkr. Rekstrarniðurstaðan er því 1.838 mkr lakari en gert var ráð fyrir. Ástæður þessa má rekja til minni hagnaðar Orkuveitu Reykjavíkur vegna lækkandi álverðs og hins vegar til lakari afkomu A hluta heldur en áætlun gerði ráð fyrir. Þar ræður hækkun launakostnaðar og minni sala á byggingarrétti mestu. Vert er að taka fram að Orkuveita Reykjavíkur hefur staðist Planið, aðgerðaáætlun vegna fjárhagsvanda Orkuveitunnar, sem sett var upp og gott betur. Sjá frétt um Planið.

„Niðurstaða sex mánaða uppgjörsins kemur ekki á óvart og undirstrikar að það er áskorun að eiga fyrir nýgerðum kjarasamningum og mikilvægi þess að árangur náist í endurmati á málaflokki fatlaðs fólks og daggjöldum hjá hjúkrunarheimilum, en um milljarð vantar upp á að ríkið láti þá fjármuni fylgja sem þarf vegna þessa. Mikil uppbygging framundan léttir þó undir og við munum taka skipulega og fast á fjármálunum, líkt og undanfarin ár,“ segir Dagur B.Eggertsson borgarstjóri.

Eignastaða áfram sterk

Þrátt fyrir lakari afkomu fyrri hluta árs er eignastaða Reykjavíkurborgar þó áfram sterk. Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok tímabils samtals 513.207 mkr, heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 292.812 mkr og eigið fé nam 220.395 mkr en þar af nam hlutdeild meðeigenda 11.744 mkr.  Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 42,9% en var 43,1% um síðustu áramót.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 3.038 mkr en áætlun gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 1.865 mkr á tímabilinu. Lakari rekstrarniðurstaða skýrist meðal annars af lægri tekjum af sölu byggingaréttar og sölu fasteigna eða 552 mkr undir áætlun og hækkun launakostnaðar umfram áætlun um 403 mkr.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, þ.e. rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð. Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Orkuveita Reykjavíkur, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.