Mikill árangur í baráttunni við kynbundinn launamun hjá Reykjavíkurborg

Kynbundinn launamunur hjá borginni

Reykjavíkurborg, stærsti vinnustaður landsins, hlaut jafnlaunavottun árið 2019 og hefur nú undirgengist og staðist fyrstu úttekt vegna endurútgáfu jafnlaunavottunarinnar. Leiðréttur munur á uppreiknuðum heildarlaunum karla og kvenna mælist nú 0,4% sem telst afar góður árangur.

Starfsmatskerfi til að jafna grunnlaun

Borgin hefur allt frá árinu 1995 stigið markviss skref til þess að draga úr óútskýrðum kynbundnum launamun m.a. með gerð aðgerðaráætlana, afnámi aksturssamninga og þá var innleiðing starfsmatskerfisins mjög mikilvægt skref á vegferðinni. Með starfsmatskerfinu eru störf metin með hlutlausum hætti og forsendur matsins hafðar sýnilegar. Starfsmatskerfið er viðurkennd leið til að jafna grunnlaun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf og var innleitt hjá Reykjavíkurborg um aldamótin.

Jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf

Innleiðing jafnlaunakerfisins var því eðlilegt framhald af því mikla starfi sem þegar hafði verið unnið í jafnlaunamálum. Með jafnlaunakerfinu er Reykjavíkurborg komin með öflugt verkfæri í hendurnar sem tryggir að kynjunum séu greidd jöfn laun og þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Sem einn vinnustaður hefur borgin mikla sérstöðu líkt og önnur sveitafélög vegna þeirra fjölbreyttu starfsstaða sem borgin rekur, þar sem starfsemi og eðli starfa eru mjög ólík. Hjá Reykjavíkurborg starfa um þessar mundir um ellefu þúsund einstaklingar.

Úttektin var framkvæmd af Vottun hf. sem nú hefur staðfest að jafnlaunakerfi Reykjavíkurborgar uppfylli þær kröfur sem til þess eru gerðar í jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012.